Körfubolti

Friðrik Ingi: Urðum ekki svona lélegir á einum degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur. vísir/ernir
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, hafði ekki áhyggjur af frammistöðu sinna manna þrátt fyrir afar slaka frammistöðu gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.

Stjarnan vann í kvöld rúmlega 30 stiga sigur, 99-67, eftir að hafa komið mest 41 stigi yfir. Yfirburðir Stjörnunnar voru algerir og átti Keflavík ekkert svar.

„Þetta sýnir okkur svo ekki sé um villst hversu miklu máli hugarfarið skiptir í íþróttum,“ sagði Friðrik en fyrir leik voru Keflvíkingar með öruggt sæti í úrslitakeppninni - Stjarnan ekki.

„Stjarnan var að berjast fyrir sínu og það sást greinilega. Við vorum ekki tilbúnir í þau átök sem voru hér í upphafi leiks og lentum strax undir. Við náðum aldrei neinum takti við þetta. Stjarnan spilaði vel í kvöld en hún er samt ekki alveg svona góð.“

Hann hefur ekki áhyggjur af sínu liði og bendir Friðrik Ingi á að stutt er síðan að liðið vann bæði KR og Njarðvík. „Ef menn mæta bara klárir í slaginn og leggjum okkur fram þá erum við yfirleitt ansi beittir og góðir. Ég er sannfærður um að við eigum eftir að koma til baka eftir þetta tap. Það er síður en svo komin örvænting í mig.“

„Það er alveg ljóst að við urðum ekki svona lélegir bara á einum degi.“

Umfjöllun og fleiri viðtöl úr leiknum má lesa hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×