Körfubolti

Davis fór hamförum eftir röntgenmyndatöku í miðjum leik | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Davis fór í myndatöku og fór svo á kostum.
Anthony Davis fór í myndatöku og fór svo á kostum. Vísir/Getty
Anthony Davis, leikmaður New Orleans Pelicans, fór hamförum fyrir sína menn í nótt þegar að þeir lögðu Los Angeles Clippers að velli, 121-116, í NBA-deildinni í körfubolta.

Davis skoraði tíu stig og tók fjögur fráköst í fyrri hálfleik en undir lok hans meiddist Davis á rifbeini og fór af velli um stund. Hann var settur í röntgenmyndatöku í miðjum leik en niðurstaðan var jákvæð.

Davis sneri því aftur inn á völlinn og skoraði 19 stig, tók sex fráköst, varði fjögur skot og stal einum bolta á tólf mínútum í þriðja leikhluta en í heildina skoraði hann 41 stig, tók þrettán fráköst og stal þremur boltum. Þá skoraði hann úr fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum.

Pelíkanarnir hafa verið á fínum skriði eftir að missa næstbesta leikmann liðsins, Boogie Cousins, í meiðsli, en liðið er búið að vinna níu leiki í röð og er í fjórða sæti vesturdeildarinnar.

Efsta liðið í vestrinu, Houston Rockets, virðist ósigrandi um þessar mundir en liðið vann 16. leikinn í röð í nótt þegar að það lagði OKC Thunder að velli, 122-112, á útivelli.

James Harden skoraði 23 stig og tók ellefu fráköst fyrir Houston en Chris Paul skoraði 25 stig. Russell Westbrook skoraði 32 stig fyrir Oklahoma City sem er í sjöunda sæti í vestrinu.

Þá er Golden State að finna taktinn eftir stjörnuleiksfríið en liðið er nú búið að vinna sex leiki í röð. Það vann 114-101 sigur á Brooklyn Nets á heimavelli í nótt þar sem Steph Curry skoraði 34 stig og hitti úr sex þriggja stiga skotum.

Úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets - Philadelphia 76ers 114-128

Toronto Raptors - Atlanta Hawks 106-90

Washington Wizards - Miami Heat 117-113

OKC Thunder - Houston Rockets 112-122

Dallas Mavericks - Denver Nuggets 118-107

NY Knicks - Portland Trail Blazers 111-87

Golden State Warriors - Brooklyn Nets 114-101

LA Clippers - New Orleans Pelicans 116-121

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×