Umfjöllun: Stjarnan - Haukar 76-77 | Haukar höfðu betur í háspennutrylli

Sverrir Mar Smárason skrifar
Hilmar Smári Henningsson vann í kvöld sigur á sínu gamla liði á sínum gamla heimavelli.
Hilmar Smári Henningsson vann í kvöld sigur á sínu gamla liði á sínum gamla heimavelli. Vísir/Bára Dröfn

Haukar unnu dramatískan eins stigs sigur er liðið heimsótti Stjörnuna í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld þar sem sigurkarfan var skoruð þegar fimm sekúndur voru til leiksloka.

Bæði liðin töpuðu síðasta leik sínum fyrir leikinn í kvöld. Stjarnan tapaði gegn Breiðablik í umferðinni á undan á meðan Haukarnir unnu Tindastól í sömu umferð. Haukar hins vegar spiluðu svo gegn Njarðvík í Vís-bikarnum þar sem þeir töpuðu.

Haukar voru tveimur stigum fyrir ofan Stjörnuna í töflunni með 10 stig. Stjarnan gat því jafnað þá með sigri í kvöld.

Haukar voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhlutanum og þá sérstaklega varnarlega. Þeir náðu að loka algjörlega á Robert Turner III, besta mann Stjörnunnar sem fyrir leikinn var með tæp 30 stig að meðaltali í leik, og eftir 7 mínútur án stiga þá settist hann á bekkinn út leikhlutann.

Undir lok fyrsta leikhluta gekk sókn Stjörnunnar betur en Arnar Guðjónsson, þjálfari, hreyfði bekkinn vel og það náði aðeins að rugla í varnarleik Hauka. Staðan eftir fyrsta leikhluta 21-26 gestunum í vil.

2. leikhluti var mun öflugri frá heimamönnum. Þá tókst Robert Turner III loks að búa sér til smá pláss og gera árás á körfuna. Áfram hélt aldursforsetinn Hlynur Bæringsson að setja niður körfur sömuleiðis. Hins vegar byrjuðu Haukar 2. Leikhluta mun betur og fóru mest í 10 stiga forskot áður en Stjarnan náði að jafna á lokamínútu hálfleiksins. Darwin Davis náði þó að setja eitt vítaskot niður áður en liðin gengu til búningsklefa. Hálfleikstölur 41-42.

Fyrstu fimm mínútur síðari hálfleik hélt vörn Hauka sókn Stjörnunnar í aðeins tveimur stigum og á meðan fóru gestirnir mest 15 stigum yfir. Stjörnumenn gáfust þó alls ekki upp því Hlynur Bærings skoraði þrist áður en Adama Darbo gerði það sama í tvígang. Staðan þegar liðin fóru inn í fjórða og síðasta leikhlutann 59-64, Haukar enn yfir.

Á 33. mínútu jafnaði Robert Turner III leikinn fyrir Stjörnuna eftir stolinn bolta og frábæra troðslu, 66-66. Lokamínútur leiksins voru mjög lokaðar og liðin bæði voru mjög öguð varnarlega. Haukar tóku forystuna áður en Stjarnan jafnaði aftur og komst yfir. Hilmar Smári Henningsson, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, kom Haukum yfir aftur og svona gekk þetta. Eftir þrjú leikhlé og þrjár sóknir síðustu 30 sekúndur leiksins þar sem Norbertas Giga skoraði sniðskot fyrir Hauka og kom þeim yfir 76-77 var komið að Robert Turner III að taka lokaskot leiksins. Það fór ekki betur en svo að Haukar fóru heim með stigin tvö yfir í Hafnarfjörð.

Af hverju unnu Haukar?

Þeir voru heilt yfir betri aðilinn í leiknum. Fyrir utan tvo stutta endurkomu kafla hjá Stjörnunni. Vörnin hjá Haukum var gríðarlega öguð og góð allan leikinn með Darwin Davis fremstan í flokki þar en hann lokaði algjörlega á Robert Turner III, sem var fyrir leikinn með tæp 30 stig að meðaltali í leik en skoraði í kvöld aðeins 19 stig og 6 þeirra úr hröðum sóknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Frammistöðurnar voru nokkuð jafnar tölfræðilega hjá sigurliðinu. Margir að skora yfir 10 stig. Orri Gunnars og Norbertas Giga tóku 11 og 12 fráköst. Hilmar Smári stoðsendingahæstur með 8 slíkar.

Bestur í dag var líklega Darwin Davis sem fékk það í sinn hlut að loka á Robert Turner og gerði það frábærlega. Auk þess skoraði hann 15 stig, tók 3 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Julius Jucikas skoraði 17 stig og tók 7 fráköst fyrir Stjörnuna.

Hlynur Bærings og Adama Darbo stigu nokkrum sinnum upp og settu mikilvægar körfur ásamt því að taka báðir nokkur fráköst. Þeir fá því báðir tilnefningu.

Hvað gerist næst?

Haukarnir fara upp í 3. Sætið með 12 stig, aðeins tveimur stigum frá toppliðum Keflavíkur og Vals.

Þeir leika næst gegn Grindavík í Ólafssal föstudaginn 16.des kl. 18:15.

Stjarnan situr eftir með 8 stig í 7. Sæti. Stjarnan fer suður í Þorlákshöfn eftir slétta viku og leikur gegn Þór.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira