Um­fjöllun: Slavia Prag - Valur 0-0 | Draumurinn úti hjá Vals­konum

Sindri Sverrisson skrifar
Elísa Viðarsdóttir er fyrirliði Valsliðsins.
Elísa Viðarsdóttir er fyrirliði Valsliðsins. VÍSIR/VILHELM

Slavia Prag og Valur gerðu markalaust jafntefli í dag í seinni umspilsleik sínum um sæti í sjálfri riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna. Það dugði Valskonum ekki.

Valur tapaði 1-0 á heimavelli í síðustu viku og þurfti því sigur í Tékklandi í dag til að komast áfram, og tryggja sér þar með leiki við sum af bestu liðum Evrópu fram að jólum.

Fyrri hálfleikur var góður hjá Val í Tékklandi í dag en liðinu tókst þó ekki að skora. Í seinni hálfleiknum voru heimakonur hins vegar sterkari og skoruðu meðal annars tvö mörk sem bæði voru þó dæmd af.

Sjötíu milljónir í súginn

Tapið í einvíginu þýðir að ekkert íslenskt lið verður í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vetur og Valur verður af 500.000 evrum, tæplega 70 milljónum króna.

Heimakonur byrjuðu leikinn ívið betur en svo kom fínn kafli hjá Valsliðinu sem náði sínum bestu sóknum seinni hluta fyrri hálfleiksins.

Cyera Hintzen komst til að mynda í fínt færi eftir stungusendingu Önnu Rakelar Pétursdóttur, en skot hennar var varið út í teiginn, og Ásdís Karen Halldórsdóttir átti frábært skot sem markvörður Slavia rétt náði að verja í horn.

Sandra send fram en ekkert gekk

Í seinni hálfleiknum byrjuðu þær tékknesku hins vegar af miklum krafti og eftir að minnstu munaði að Valur skoraði sjálfsmark tókst Slavia í tvígang að koma boltanum í netið. Í fyrra skiptið var markið dæmt af vegna rangstöðu en í seinna skiptið virtist brotið á Örnu Sif Ásgrímsdóttur.

Pétur Pétursson gerði nokkrar skiptingar eftir því sem leið á seinni hálfleikinn en lítið gekk að skapa færi fram á við. Í lokin reyndu Valskonur allt og Sandra Sigurðardóttir markvörður var komin fram í teiginn þegar liðið fékk sína síðustu hornspyrnu, þar sem hætta skapaðist en Mariana Speckmaier átti svo skot af stuttu færi sem var varið auk þess sem hún var dæmd rangstæð.

Valskonur verða því ekki með þegar dregið verður í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og missa af vetrarleikjum eins og þeim sem Breiðablik spilaði fyrir ári síðan. Tímabilinu hjá Val lýkur um helgina þegar liðið tekur á móti Íslandsmeistarabikarnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira