Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Stjarnan 22-24 | Garðbæingar höfðu betur í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Helena Rut var frábær í liði gestanna í dag.
Helena Rut var frábær í liði gestanna í dag. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV og Stjarnan unnu bæði flottan sigur í fyrstu umferð Olís-deildar kvenna í handbolta en það voru Garðbæingar sem fóru með tveggja marka sigur með sér í Herjólf að leik loknum.

Leikurinn var mjög jafn alveg frá byrjun og skiptust liðin á að komast yfir á upphafsmínútunum. Markvarslan var betri hjá gestunum en Stjarnan tapaði boltanum í sífellu svo þær náðu ekki að notfæra sér færanýtingu ÍBV. 

Heimastúlkur náðu betri tökum á leiknum um miðjan fyrri hálfleik og komust þremur mörkum yfir þegar innan við tíu mínútur voru eftir af hálfleiknum. ÍBV fór þá afar illa með nokkrar sóknir í röð og á nokkrum mínútum var staðan orðin jöfn að nýju þegar tvær mínútur voru eftir. Gestunum tókst að bæta við marki á lokamínútunni og fóru því einu marki yfir inn í hálfleikinn. 

Stjarnan skoraði fyrsta markið í síðari hálfleik áður en ÍBV svaraði með tveimur og jafnaði leikinn áður en þær komust svo yfir, áður en Stjarnan snéri við keflinu að nýju. Þrátt fyrir jafnan leik voru gestirnir ívið öflugri og markvarslan hjálpaði þar til. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var staðan 15-17. 

Stjörnustúlkur gáfu sér góðan tíma í sínar aðgerðir og nýttu sóknir sínar vel. Þær náðu mest fjögurra marka forustu, 19-23, þegar fimm mínútur voru eftir. Heimastúlkur gáfu allt sem þær áttu það sem eftir lifði en það reyndist ekki nóg þar sem Garðbæingar fóru með sigur af hólmi, 22-24, í misgóðum en skemmtilegum leik.

Af hverju vann Stjarnan?

Eftir mikið af tæknifeilum og töpuðum boltum í sóknarleiknum framan af leik tókst gestunum að laga það sem illa fór í fyrri hálfleik. Markvarsla og vörn var betri en hjá Eyjaliðinu í dag og átti stóran þátt í að landa stigunum tveimur.

Hverjar stóðu upp úr?

Darija Zecevic var flott í marki Stjörnunnar í dag og varði þrettán bolta. Helena Rut Örvarsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir fóru fyrir sókn gestanna og skoruðu níu og átta mörk. Helena var einnig með fimm löglegar stöðvanir.

Í liði ÍBV skoraði Ásta Björt Júlíusdóttir flest mörk, sex talsins, en henni næst var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir með fjögur. Þá varði Marta Wawrzykowska átta bolta. Sunna Jónsdóttir stóð vörnina vel með átta löglegar stöðvanir.

Hvað gekk illa?

Þegar ÍBV fór að hreyfa við liðinu og rúlla á hópnum fór skipulagið út um gluggann og misstu þær niður þriggja marka forskot í fyrri hálfleiknum á skammri stundu. Eins oft og Stjarnan tapaði boltanum klaufalega í fyrri hálfleiknum þá gerði ÍBV slíkt hið sama en vörn og markvarsla var ekki á pari við Stjörnuna.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við landsleikjahlé en ÍBV á næsta leik við HK í Kópavogi en Stjarnan fær KA/Þór í heimsókn.

Hrannar: Geri miklar kröfur

Hrannar GuðmundssonVísir/Hulda Margrét

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigurinn en fannst sitt lið eiga töluvert inni. ,,Það er alltaf gaman að vinna en ég er ekki sammála um að þetta hafi verið frábær leikur hjá okkur. Mér fannst við flottar en ekkert geggjaðar. Við eigum margt inni."

,,Darija (Zecevic) var flott í dag og vörnin líka. Ég veit samt ekki hvort ég sé orðinn ruglaður en mér fannst boltar þarna sem Darija á að verja. Mér finnst hún svo ógeðslega góð og einn besti markmaður í deildinni svo ég geri miklar kröfur á hana. Ef við ætlum að gera eitthvað í vetur verðum við að vera með hörkuvörn og markvörslu svo ég geri kröfur að það sé gott."

Skítstressaður

Eftir sannfærandi spilamennsku í síðari hálfleik var Hrannar ekki sammála því að það virtist sem leikurinn væri aldrei á leið úr þeirra höndum. ,,Ég var skítstressaður. Mér fannst við með góð tök á leiknum. Við erum í góðu standi og erum ekki að missa hausinn þó við séum þreyttar heldur keyrum á þetta og erum ógeðslega góðar. Við erum farnar að trúa því líka. Þá erum við óstöðvandi."

,,Ég get alveg sagt þér það að þetta er helvíti ljúft. Tveir sigrar í tveimur leikjum. Þetta gæti ekki verið betra. Þetta er jöfn deild og það er nóg eftir. Við erum þá sammála um eitthvað," sagði Hrannar brosandi að lokum.

Hilmar: Köstum leiknum frá okkur

Hilmar sem bakgrunnsmaðurinn.Vísir/Vilhelm

,,Við áttum marga lélega kafla," sagði Hilmar Ágúst Björnsson, annar þjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Við höfðum mjög góð tök á leiknum í stöðunni 11-8. Við förum þá aðeins að rúlla á liðinu og endum einu marki undir í hálfleik. Í seinni hálfleik erum við þungar og hægar og fengum litla markvörslu. Þær betri en við og Darija fer illa með okkur."

,,Við ætlum að breyta aðeins til í síðari hálfleik en ótrúlegustu tæknifeilar koma upp. Í raun og veru köstum við frá okkur leiknum á fimmtugustu mínútu eða svo. Komumst svo aðeins inn í þetta í restina en það er bara of seint."

Lykilmenn í skugganum

Eyjaliðið vantaði einhvern til að leiða sóknina í dag en enginn leikmaður var afgerandi framarlega á vellinum. ,,Ég er sammála því. Við verðum bara að skoða það næstu daga og vikur og nýta landsleikjahléið og skoða hvað við getum gert betur í sóknarleiknum."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira