Um­fjöllun og við­töl: KR - Kefla­vík 1-0 | Þor­steinn Már tryggði KR lang­þráðan heima­sigur

Hjörvar Ólafsson skrifar
Atli Sigurjónsson lék vel á hægri vængnum. 
Atli Sigurjónsson lék vel á hægri vængnum.  Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson Vilhelm Gunnarsson

KR lagði Keflavík að velli með einu marki gegn engu þegar liðin mættust í sjöttu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í kvöld. 

Það var Þorsteinn Már Ragnarsson sem skoraði sigurmark KR um miðjan seinni hálfleik en hann skallaði þá sendingu Halls Hanssonar í netið af stuttu færi. 

Þorsteinn Már hafði nýverið komið inná sem varamaður þegar hann skoraði markið sem skipti sköpum í þessum leik. 

Þetta er fyrsti heimasigur KR á yfirstandandi leiktið en liðið hefur nú 10 stig og situr í fimmta sæti átta stigum á eftir Breiðabliki sem trónir á toppnum. Keflavík er hins vegar í tíunda sæti deildarinnar með fjögur stig. 

Leikplan Keflvíkinga, að liggja aftarlega á vellinum og sækja hratt, gekk vel upp en nafnarnir Adam Árni Róbertsson og Adam Ægir Pálsson komust næst því að skora fyrir gestina. 

KR-ingar voru mun meira með boltann en gekk erfiðlega að brjóta varnarmúr Keflvíkinga á bak aftur. Stefán Árni Geirsson fékk hættulegasta færi KR í fyrri hálfleik en hann skaut þá framhjá etitr laglegt samspil Pálma Rafns Pálmasonar og Kjartans Henry Finnbogasonar. 

Leikmenn og forráðamenn Keflavíkur kölluðu eftir því að Beiti Ólafssyni yrði vísað af velli með rauðu spjaldi þegar hann lenti í samstuði eftir skógarhlaup sitt en gult spjald var niðurstaðan hjá Pétri Guðmundssyni, dómara leiksins. 

Leikurinn opnaðist töluvert í seinni hálfleik og á 68. mínútu kom marikið dýrmæta hjá KR. Keflvíkingar sóttu töluvert eftir markið og Helgi Þór Jónsson, sem kom inn í framlínuna í hálfleik var hársbreidd frá því að jafna metin. 

Þá átti Rúnar Þór Sigurgeirsson nokkur góð skot en inn vildi boltinn ekki og KR-ingar fögnuðu langþráðum heimasigri. 

Rúnar Kristinsson: Breiddin að aukast hjá liðinu

Rúnar Kristinsson var kampakátur með stigin þrjú. Vísir/Hulda Margrét

„Við vorum ekkert sérstakir í fyrri hálfleik en við náðum að skapa meira í seinni hálfleik. Það er jákvætt að við erum búnir að stækka hópinn og Aron Kristófer, Ægir Jarl, Þorsteinn Már og Stefán Alexander áttu allir góða innkomu," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir leikinn. 

„Spilamennskan var ekkert frábær og Keflavík fékk sín færi til þess að skora. Við drógum hins vegar lengsta stráið og Þorsteinn Már gerði gæfumuninn. Úrsltin glöddu mig og við spiluðum betur í seinni en þeim fyrri. Það er hins vegar enn margt sem við getum bætt," sagði Rúnar. 

Sigurður Ragnar: Söknuðum kannski Joey Gibbs í þessum leik

Sigurður Ragnar Eyjólfsson gat litið á björtu hliðarnar þrátt fyrir tapið. Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

„Þetta var flott frammistaða og við náðum að setja KR-inga undir verulega pressu. Sóknirnar okkar voru vel útfærðar en það vantaði bara að binda endahnútinn á þær. Kannski söknuðum við Joey Gibbs aðeins í vítateignum að þessu sinni," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur. 

„Mér finnst síðustu fjórir leikir hafa verið góðir hjá okkur og við höfum lagað mörg af þeim vandamálum sem voru til staðar í upphafi móts. Það er hins vegar afar svekkjandi að þessi frammistaða hafi ekki skilað sér í stigum. Við getum þó tekið margt jákvætt út úr þessum leik," sagði Sigurður Ragnar. 

Af hverju vann KR?

KR-ingar nýttu betur þau fáu færi sem sköpuðust í þessum leik. Bæði lið áttu erfitt með að skapa sér opin færi en Þorsteinn Már Ragnarsson stangaði í netið eitt þeirra. Þolinmæðisverk hjá leikmönnum KR sem voru mun meira með boltann í leiknum.

Hverjir sköruðu fram úr?

Hallur Hansson átti frábæra stoðsendingu í sigurmarkinu og var nokkuð líflegur inni á miðsvæðinu. Atli Sigurjónsson óx eftir því sem leið á leikinn og Ægir Jarl Jónasson átti öfluga innkomu í lið KR. 

Adam Ægir Pálsson var skeinuhættastur hjá Keflavík og Rúnar Þór Sigurgeirsson var góður í vinstri bakvarðarstöðunni. Þá var Ivan Kaliuzhnyi drjúgur inni á miðjunni. 

Hvað gerist næst?

KR fær Leikni í heimsókn á Meistaravelli á laugardaginn kemur en Keflavík fær FH í heimsókn suður með sjó á sunnudaginn. 


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira