Umfjöllun og viðtöl: Njarð­vík - Grinda­vík 71-54 | Heima­konur halda topp­sætinu

Atli Arason skrifar
visir-img
vísir/vilhelm

Njarðvík heldur toppsæti Subway-deildar kvenna í körfubolta þökk sé stórsigri á nágrönnum sínum í Grindavík, lokatölur 71-54 í kvöld. 

Það var ekki mikið skorað í upphafi leiks, samtals 15 skot tilraunir sem fóru forgörðum hjá báðum liðum þegar leikhlutinn var hálfnaður og staðan jöfn 7-7. Leikurinn hélt áfram að vera jafn en Njarðvík náði þó að ná 3 stiga forystu undir lok leikhlutans sem endaði 19-16 fyrir heimakonur.

Njarðvíkingar byrjuðu annan leikhluta betur og komust mest í 7 stiga forystu þegar einungis mínúta var liðin, eftir sniðskot frá Diane Diéné, staðan þá 23-16. Þetta forskot náði Grindavík aldrei að brúa þar sem Njarðvík leiddi leikinn það sem eftir lifði en forysta Njarðvíkur sveiflaðist milli 4 og 8 stiga það sem eftir lifði leikhlutans. Hálfleikstölur voru 32-27, Njarðvík í vil.

Gestirnir komu þó öflugar inn í síðari hálfleik og minnkuðu muninn niður í eitt stig með fyrstu fjórum stigum þriðja leikhluta, en nær komust þær ekki. Áhlaup Njarðvíkur tók næst við en þær náðu 12 stiga forystu eftir þrist frá Kamillu þegar rúm mínúta var eftir af þriðja leikhluta. Hulda Björk gerir síðustu stig leikhlutans og 10 stig munaði milli liðanna fyrir síðasta fjórðunginn, 53-43.

Heimakonur bættu áfram í forystu sína í fjórða leikhluta en hún varð mest 20 stig í leiknum þegar síðasti leikhluti en hálfnaður, en þá kastar De Silva kastar báðum tilraunum sínum af vítalínunni ofan í körfuna, 64-45. Þetta bil reyndist Grindvíkingum of erfitt að brúa en síðustu fimm mínúturnar í leiknum gerðu gestirnir 9 stig gegn 7 frá Njarðvík. Lokatölur, 71-54.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvík vann alla leikhluta leiksins í kvöld, Grindavík komst yfir í fyrsta leikhluta, 9-12, en sá svo aldrei aftur til sólar. Skiptir þar sennilega mestu máli að stigaskor Njarðvíkur dreifðist vel yfir allt liðið en aðeins fimm leikmenn Grindavíkur settu stig á töfluna en gestirnir fengu enginn stig af bekknum í kvöld, þrátt fyrir að allir leikmenn spiluðu einhverjar mínútur í kvöld nema ein, Edda Geirdal. Bekkur Njarðvíkur gerði á sama tima 14 stig.

Hverjar stóðu upp úr?

Aliyah Collier var framlagshæst eins og áður með 27 framlagspunkta. Hún er núna þriðji framlagshæsti leikmaður deildarinnar. Collier gerði 18 stig, tók 6 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 6 boltum.

Hjá gestunum var Robbi Ryan best, með 24 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar. Alls 26 framlagspunktar frá Ryan.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila næst á sunnudaginn. Grindavík fær Keflavík í heimsókn á meðan Njarðvíkingar fara á Hlíðarenda til að leika við Íslandsmeistara Vals.

„Stórt hrós á Njarðvík“

Þorleifur Ólafsson, þjálfari GrindavíkurHulda Margrét

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, betur þekktur sem Lalli, var virkilega svekktur með tapið gegn Njarðvík í kvöld.

„Njarðvík var miklu betra í kvöld, það er auðvelda svarið.“

„Það vantaði meiri hörku og vilja hjá okkur. Stórt hrós á Njarðvík sem er virkilega sterkt lið. Þær spila vel saman og það er alveg sama hver er með boltann í höndunum þær eru tilbúnar að taka á skarið. Þær eru erfiðar við að eiga,“ sagði Lalli í viðtali við Vísi eftir leik.

Bekkurinn hjá Grindavík gerði ekki eitt einasta stig í kvöld. Lalli telur ekki vanta meira upp á breiddina hjá hans liði, Njarðvíkur vörnin var einfaldlega of góð í þessum leik.

„Það kannski vantar ekki upp á breiddina. Þær eru með massíft varnarlið, við vorum kannski ekki að fara nógu djúpt og finna réttu leiðirnar til að skora. Við vorum að breyta út frá því sem við höfum verið að gera. Við þurftum að breyta sóknarlega út frá því hvernig þær voru að spila varnarlega. Það gekk á köflum en við vorum ekki að hitta vel þegar við fengum skotin. Það er ýmislegt sem hægt er að taka saman en yfir höfuð þá börðust þær betur og voru bara ákveðnari og miklu betri.“

Næsti leikur Grindavíkur er annar Reykjanesslagur, í þetta skipti gegn Keflavík. Lalli sagði að liðið þyrfti ekki að laga neitt sérstakt í sínum leik fram að þessari viðureign, bara halda áfram á sömu vegferð og gera betur.

„Ekkert sérstaklega, bara halda áfram að byggja ofan á það sem er gott og reyna að laga það sem er lélegt,“ svaraði Lalli, aðspurður af því hvort það þyrfti að fara í einhverjar stórar lagfæringar á leik Grindavíkur.

„Sérstaklega glaður með seinni 20 mínúturnar“

Rúnar Ingi Erlingsson var ángæður með sigur kvöldsinsFacebook/Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður að ná í 17 stiga sigur á erkifjendunum í Grindavík í kvöld.

„Glaður að ná í tvö stig og sérstaklega glaður með seinni 20 mínúturnar. Þá förum við að fá þessi skot sem við erum að æfa á hverjum degi á æfingu og þá lítur þetta aðeins betur út og verður léttara yfir þessu og skemmtilegra. Ég er mjög ánægður og sérstaklega með seinni hálfleikinn,“ sagði Rúnar í viðtali við Vísi eftir leik.

Það munaði fimm stigum á liðunum í hálfleik, en heimakonur keyrðu yfir Grindavík í síðari hálfleik. Rúnar minnti liðið sitt á hvað þær stæðu fyrir í hálfleikshléinu.

„Ég bað í raun um að gera það sem við ætluðum að gera í fyrri hálfleik en gerðum ekki. Við vorum of staðnar sóknarlega og þurftum svolítið að vera að treysta á einhver einstaklings framlög því við vorum ekki nógu aggresívar að ráðast á réttu svæðin. Í seinni hálfleik þá er þetta allt annað. Við vorum að keyra á þau svæði sem við vildum og draga inn hjálpina og þá finna opin skot. Þannig körfubolta viljum við spila og við gerðum það miklu betur í seinni hálfleik,“ svaraði Rúnar, aðspurður út í það hvað hann fór yfir með sínu liði í hálfleikshléinu.

Helena Rafnsdóttir hefur byrjað alla leiki Njarðvíkur til þessa en hún byrjaði leikinn í kvöld á varamannabekknum. Ástæðan fyrir því var afar einföld samkvæmt Rúnari.

„Bara aðeins að breyta til. Vilborg byrjaði á bekknum í síðasta leik og Helena byrjaði á bekknum í dag. Við erum bara að finna réttu róteringarnar. Ég trúi því að ég þurfi ekki að byrja með besta liðið mitt inn á vellinum en það fer líka eftir því hvernig við þurfum að rótera og hvað er best fyrir liðið. Helena kom flott inn af bekknum og gerði hrikalega vel, sérstaklega í seinni hálfleik.“

Aliyah Collier fékk þungt höfuðhögg rétt fyrir hálfleik og neyddist til að fara af velli en var svo komin fersk inn í síðari hálfleikinn. Rúnar þakkar Einar Jónssyni, liðstjóra, fyrir töfralausn.

„Hún jafnaði sig í hálfleiknum. Hún fékk sér vínber sem Einar kom með og var þá bara tilbúinn í seinni hálfleikinn og kom með þá orku sem hún kemur alltaf með.“

Næsti leikur Njarðvíkur er gegn Íslandsmeisturum Vals, en Njarðvík tapaði gegn Val í síðasta leik og liðið ætlar að hefna fyrir það í leiknum á sunnudaginn næsta.

„Við höfum harma að hefna. Tapleikurinn hérna á heimavelli gegn Val var eini tapleikur okkar í fyrstu umferðinni. Það er leikur sem mér fannst við glutra niður. Við þurfum bara að mæta tilbúnar í Origo-höllina á sunnudaginn, þá verður slagur,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, að endingu.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira