Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fram 31-31 | Jafntefli niðurstaða í hörkuleik

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ / ljósm. Hulda Margrét Fram ÍBV
Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ / ljósm. Hulda Margrét Fram ÍBV Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

Stjarnan og Fram gerðu jafntefli er liðin mættust í 10. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Framarar með öll tök á leiknum en um miðbik seinni hálfleiks urðu þeir full værukærir. Stjörnumenn nýttu sér það og tókst að jafna á loka mínútunni. Lokatölur 31-31.

Það má með sanni segja að leikurinn hafi farið heldur hægt af stað. Bæði lið að tapa boltanum og láta verja frá sér í fyrstu sóknunum. Fyrsta markið kom eftir 5 mínútna leik og var það Breki Dagsson sem skoraði fyrir Fram. 

Framarar byrjuðu leikinn af krafti og náðu strax forystu á fyrstu mínútum leiksins. Þegar stundarfjórðungur var liðin af fyrri hálfleik leiddu Framarar með tveimur mörkum 6-4. Stjörnumenn áttu erfitt með að finna markið og tekur Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunar leikhlé í stöðunni 10-6 eftir slaka frammistöðu sinna manna. 

Stjörnumönnum tókst að minnka muninn aftur niður í tvö mörk en þá gáfu Framarar í og komu sér aftur í 4 marka forystu þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Staðan 18-14 fyrir Fram þegar liðin gengu til klefa. 

Björgvin Hólmgeirsson var markahæstur hjá Stjörnunni með 11 mörk. Vísir: Hulda Margrét

Framarar héldu uppteknum hætti í byrjun seinni hálfleiks og komu sér fljótlega 7 mörkum yfir, 15-22. Þegar rúmlega 10 mínútur voru eftir af seinni hálfleik tekur Patrekur, þjálfari Stjörnunnar aftur leikhlé. 

Hann virtist hafa náð að stappa stálinu í sína menn. Stjörnumenn gerðu áhlaup sem gerðu loka mínútur leiksins æsispennandi. Framarar skoruðu ekki í sjö mínútur og nýttu Stjörnumenn sér það og komu sér í eins marks mun, 31-30.

Björgvin Hólmgeirsson skorar lokamark leiksins sem jafnaði leikinn, þvert á allar spár og niðurstaða því jafntefli, 31-31. 

Afhverju varð jafntefli?

Það er eiginlega alveg með ólíkindum að þessi leikur hafi endaði í jafntefli. Framarar með fullkomin tök á leiknum í nánast 50 mínútur og voru komnir í með góða forystu á kafla. Hvernig Stjörnumenn gáfu allt sem þeir áttu síðustu 10 mínuturnar og hirtu eitt stig af Framörum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Stjörnunni var það Björgvin Hólmgeirsson sem kom með kraftinn inn í liðið og skoraði 11 mörk. Leó Snær Pétursson og Hafþór Már Vignisson voru einnig öflugir í kvöld með 6 mörk hvor. Brynjar Darri Baldusson kom inn í mark Stjörnunnar og miðað við lítin undirbúning stóð hann sig vel, með 9 bolta varða, 23% markvörslu.

Hjá Fram voru það Rógvi Dal Christiansen og Breki Dagsson með 7 mörk hvor. Valtýr Már Hákonarson var góður í marki Framara með 8 bolta varða, 38% markvörslu og svo kom Aron Máni Daðason sterkur inn í markið með 6 bolta varða. 

Hvað gekk illa?

Stjörnumenn áttu virkilega erfitt uppdráttar í 50 mínútur. Það vantar vissulega menn inn vegna meiðsla en samt bjóst maður við meiru. Sóknarleikurinn var klaufalegur á köflum, sendingarnar full lágar og enduðu útaf. 

Hjá Fram var það þessi 7 mínútna markalausi kafli sem kom þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Það gerði útslagið og sendi þá heim með aðeins 1 stig eftir að hafa verið með öll völd á leiknum. 

Hvað gerist næst?

Í 11. umferð sem fer fram næstu helgi fá Framarar Aftureldingu í heimsókn, laugardaginn 4. desember kl 20.00. Sunnudaginn 5. desember sækir Stjarnan Víking heim og fer leikurinn fram kl 18.00. 

Einar Jónsson: Við vorum aðeins litlir í okkur

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar var svekktur að fá aðeins eitt stig úr þessum leik. Vísir:Hulda Margrét

„Við spiluðum vel í svona 50 mínútur. Svo dettur þetta niður hjá okkur síðustu 10 og þess vegna náðum við ekki nema stigi í dag, sagði Einar Jónasson, þjálfari Fram eftir jafntefli á móti Stjörnunni í kvöld.“

Framarar sem voru með öll tök á leiknum misstu hann úr hendi sér á síðustu mínútunum og uppskáru jafntefli. 

„Við vorum aðeins litlir í okkur. Við vorum búnir að tapa þremur leikjum í röð og þeir farnir að saxa á okkur. Það vantaði aðeins að finna lausnir og fá betri færi. Það er bara eins og gengur og gerist. Svo skora þeir næstum í hverri einustu sókn. Við verðum bara undir hérna síðustu 10 mínúturnar.“

Aðspurður hvort að hans menn hafi spilað eftir því sem lagt var upp með sagði Einar þetta:

„Við spiluðum hérna í 50 mínútur nákvæmlega eins og við ætluðum okkur að gera þetta og svo sem eiginlega í 60 mínútur. Við erum að skjóta svolítið illa á markið og missum aðeins kúlið hérna síðustu 10 en annars fannst mér menn leggja allt í þetta. Við gerðum ansi margt til þess að ná í tvo stig en það dugði ekki til. Ég hef ekkert yfir framlagi strákana að kvarta.“

Fyrir næsta leik vill Einar skoða síðustu 10 mínúturnar í þessum leik og laga það sem fór úrskeiðis. 

„Við þurfum að halda áfram a sömu braut og reyna að laga það sem fór úrskeiðis hérna. Við þurfum að skoða aðeins síðustu 10 mínúturnar sem var lélegur kafli hjá okkur, bæði varnarlega og sóknarlega. Við eigum eftir að sjá þetta aftur en mér fannst við ekki alveg nógu klókir síðustu 10 mínúturnar. Mögulega áttum við að finna aðeins betri lausnir.“


Tengdar fréttir

Patrekur Jóhannesson: Við vorum ekkert að spila nægilega vel

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum sáttur með stigið sem Stjörnumenn sóttu á móti Fram eftir að hafa verið undir svo gott sem allan leikinn. Stjörnumenn voru ekki sannfærandi bróðurpart leiksins og leit ekki út fyrir að þeir myndu koma sér inn í leikinn. Kraftaverkið gerðist á 59. mínútur þegar að Stjörnumenn náðu loks að jafna og lokatölur 31-31. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira