Lyon er Evrópu­meistari | Sjáðu mörkin og at­vikin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lyon er Evrópumeistari í áttunda sinn.
Lyon er Evrópumeistari í áttunda sinn. Catherine Ivill/Getty Images

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Lyon eru Evrópumeistarar kvenna í fótbolta eftir ótrúlegan 3-1 sigur á Barcelona. Sara Björk Gunnarsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Lyon.

Barcelona var fyrir leik sigurstranglegri aðilinn enda ríkjandi Evrópumeistarar og þá vann liðið alla 30 leiki sína í spænsku deildinni. Barcelona hafði hins vegar tapað gegn Wolfsburg í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og segja má að sá leikur hafi lagt grunninn að leikplani Lyon í kvöld.

Er liðin gengu inn á Allianz-völlinn í Tórínó var tæplega 40 stiga hiti og ljóst að það gæti haft áhrif þegar líða myndi á leikinn. Það kom á daginn enda voru tvær vatnspásur, ein í sitthvorum hálfleik.

Strax á sjöttu mínútu leiksins varð hitinn á vellinum óbærilegur en Amandine Henry kom Lyon þá yfir með einu rosalegasta marki síðari ára. Hún fékk nægan tíma til að athafna sig fyrir utan teig Börsunga og lét á endanum vaða. Skotið var frábært og söng í skeytunum hægra megin, Sandra Paños kom engum vörnum við í marki Barcelona og staðan orðin 1-0 Lyon í vil.

Ástralski hægri bakvörðurinn Ellie Carpenter meiddist skömmu síðar og þurfti Lyon því að gera sína fyrstu skiptingu. Kadeisha Buchanan kom inn í hennar stað.

Það virðist sem hitinn í Torínó hafi haft meiri áhrif á Börsunga en þegar 23 mínútur voru komnar á klukkuna komst Lyon 2-0 yfir. Selma Bacha átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri sem norska markadrottningin Ada Hegerberg skallaði af öllu afli í netið.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Barcelona þá komst Lyon í 3-0 tíu mínútum síðar þökk sé marki Catarina Macario. Hegerberg með stoðsendinguna eftir ævintýralegt vesen á varnarmönnum Börsunga.

Staðan orðin 3-0 og Evrópumeistararnir komnir í ansi bratta brekku.

Alexia Putellas – besta knattspyrnukona í heimi og fyrirliði Barcelona - minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks eftir frábæra sókn Börsunga. Caroline Graham Hansen með stoðsendinguna og Barcelona allt í einu komið með snæri til að reyna toga sig upp brekkuna.

Staðan í hálfleik 3-1 Lyon í vil.

Síðari hálfleikur var ekki alveg jafn skemmtilegur og sá fyrri. Börsungar bættu í sóknina hægt og rólega, fengu nokkur færi en tókst aldrei að brjóta sterkan varnarmúr Lyon á bak aftur. 

Patricia Guijarro komst næst því þegar hún átti skot af löngu færi sem hafnaði í slánni. Þegar Börsungar nálguðust teiginn þá komust þær ekki í gegnumWendie Renard og stöllur í öftustu línu Lyon. Lokatölur 3-1 Lyon í vil og liðið því Evrópumeistari í áttunda sinn.

Sara Björk kom ekki við sögu í leiknum en hún sat allan tímann á varamannabekk Lyon. Hún mun yfirgefa liðið í sumar. Sara Björk hefur tvívegis spilað í úrslitum Meistaradeildarinnar, árið 2018 fékk hún silfur með Wolfsburg og árið 2020 varð hún Evrópumeistari þegar hún skoraði í 3-1 sigri Lyon á hennar gamla liði, Wolfsburg.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira