Hollendingar fyrstir í átta liða úrslitin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daley Blind fagnaði með pabba sínum, Danny Blind, eftir að hann skoraði annað mark Hollendinga gegn Bandaríkjamönnum.
Daley Blind fagnaði með pabba sínum, Danny Blind, eftir að hann skoraði annað mark Hollendinga gegn Bandaríkjamönnum. getty/Simon Stacpoole

Holland komst fyrst liða í átta liða úrslit á HM í Katar eftir 3-1 sigur á Bandaríkjunum í dag. Denzel Dumfries var maður leiksins en hann skoraði eitt mark og lagði upp hin tvö fyrir Memphis Depay og Daley Blind. Haji Wright skoraði mark Bandaríkjamanna.

Holland mætir sigurvegaranum úr leik Argentínu og Ástralíu í átta liða úrslitunum 9. desember.

Bandaríkjamenn byrjuðu leikinn af krafti og strax á 3. mínútu fékk Christian Pulisic dauðafæri en Andries Noppert varði frá honum. Bandaríkjunum hefndist fyrir þetta því sjö mínútum síðar kom Memphis Hollandi yfir eftir frábæra sókn og sendingu frá Denzel Dumfries.

Memphis Depay kom Hollandi á bragðið.getty/Catherine Ivill

Bandaríkjamenn voru meira með boltann en gekk erfiðlega að opna þétta vörn Hollendinga. Þeir appelsínugulu voru svo alltaf hættulegir í skyndisóknum. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks komst Holland í 2-0. Aftur átti Dumfries fyrirgjöf og að þessu sinni skoraði Blind.

Seinni hálfleikur hófst fjörlega. Cody Gakpo bjargaði á línu frá Tim Ream og Matt Turner varði svo frá Memphis úr dauðafæri. Turner var í ham í seinni hálfleik og varði tvívegis í viðbót frá Memphis og einu sinni frá varamanninum Teun Koopmeiners.

Á 67. mínútu kom Wright inn á sem varamaður. Níu mínútum síðar minnkaði hann muninn í 2-1 með ótrúlegri hælspyrnu eftir sendingu frá Pulisic. Skömmu síðar slapp Steven Bergwijn í gegnum vörn Bandaríkjamanna en skaut framhjá.

Denzel Dumfries skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar gegn Bandaríkjunum.getty/Richard Heathcote

Dumfries lagði upp mark fyrir Blind í fyrri hálfleik en á 81. mínútu endurgalt Blind greiðann. Hann sendi þá boltann á fjærstöng á Dumfries sem skoraði með skoti á lofti.

Fleiri urðu mörkin ekki og Holland fagnaði 3-1 sigri og farseðlinum í átta liða úrslit. Hollendingar eru enn ósigraðir eftir að Louis van Gaal tók við liðinu í þriðja sinn í fyrra; hafa unnið fjórtán af nítján leikjum og gert fimm jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira