Bruno Fernandes skaut Portúgal í sex­tán liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes og Cristiano Ronaldo fagna fyrra marki leiksins.
Bruno Fernandes og Cristiano Ronaldo fagna fyrra marki leiksins. Justin Setterfield/Getty Images

Portúgal er komið í 16-liða úrslit HM í fótbolta eftir 2-0 sigur á Úrúgvæ. Bruno Fernandes með bæði mörkin þó svo að Cristiano Ronaldo hafi reynt að sannfæra alla og ömmu þeirra um að hann hefði skorað fyrra mark leiksins.

Fyrri hálfleikur var líkt og svo margir á þessu móti, hundleiðinlegur. Portúgal vaknaði aðeins í síðari hálfleik og tókst Bruno Fernandes, eða Cristiano Ronaldo, loks að brjóta ísinn á 54. mínútu.

Eftir frábært uppspil Portúgals fékk Bruno boltann vinstra megn við vítateiginn, hann átti svo frábæra sendingu inn á teig sem mögulega sleikti hárið á Ronaldo áður en boltinn flaug í netið og staðan orðin 1-0 Portúgal í vil.

Ronaldo fagnaði eins og óður maður en nokkrum mínútum eftir að boltinn endaði í netinu staðfesti FIFA að Bruno ætti markið. Það breytti þó ekki þeirri staðreynd að Portúgal væri einu marki yfir.

Bæði lið fengu fín færi í kjölfarið en ekki vildi boltinn inn, það er þangað til Portúgal fékk vítaspyrnu í uppbótartíma. Maximiliano Gómez hafði komist næst því að jafna metin en skot hans hafnaði í stönginni og staðan var því enn 1-0 þegar vítaspyrnan var dæmd. 

Fernandes fór á punktinn, tók sitt klassíska hopp-upphlaup og skoraði af öryggi. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Bruno var reyndar nálægt því að skora þriðja mark sitt í leiknum en inn vildi boltinn ekki. Markvörður Úrúgvæ varði fyrra skotið og það síðara endaði í stönginni.

Portúgal er því með sex stig á toppi H-riðils. Gana er í 2. sæti með 3 stig á meðan Suður-Kórea og Úrúgvæ eru með eitt stig hvort. Portúgal því komið í 16-liða úrslit á meðan Úrúgvæ þarf sigur gegn Gana í síðustu umferð riðlakeppninnar sem og að treysta á að Portúgal nái í allavega stig gegn Suður-Kóreu.

Þá er vert að vekja athygli á því að stöðva þurfti leikinn þegar áhorfandi hljóp inn á völlinn. Hann var í bol sem stóð á „Virðið rétt íranskra kvenna“ [e.Respect for Iranian Women]  og „Bjargið Úkraínu“ [e. Save Ukraine]. Þá hélt hann á regnbogafána.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira