Fleiri fréttir

Segjast hafa sleppt 2 gíslum

Uppreisnarmenn Talíbana í Afganistan segjast hafa látið tvo Suður-Kóreumenn lausa úr gíslingu en halda enn átján eftir. Gíslarnir munu vera konur sem mannræningjarnir segja veikar.

Fjölmenni á Fiskideginum mikla

Talið er að hátt í fjörtíu þúsund manns hafi tekið þátt í Fiskideginum mikla á Dalvík í dag. Veðrið lék við gesti sem gæddu sér meðal annars á silung, saltfiskbollum og hrefnukjöti.

Fagna afmæli konungs

Enginn núlifandi konungur hefur ríkt eins lengi og Rama níundi, konungur Tælands, og innan tveggja ára verður hann sá þjóðhöfðingi sem lengst hefur verið við völd í heimssögunni. Í dag var áttræðis afmælis Rama níunda minnst um allan heim, meðal annars hér á Íslandi.

Kapphlaup um Norðurpólinn

Kapphlaup er hafið um Norðurpólinn. Danir, Kanadamenn og Rússar hafa allir gripið til aðgerða til að styrkja tilkall sitt til heimskautasvæðisins, þar sem eru mikilvægar siglingaleiðir og gnótt af olíu og gasi.

Gleði í gleðigöngu Hinsegin daga

Næstum þriðjungur Íslendinga sleikti sólina á útihátíðum á landinu í dag. Lögregla telur að ríflega fimmtíu þúsund manns hafi gengið niður Laugaveginn í Reykjavík í Gleðigöngu til stuðnings réttindabaráttu samkynhneygðra. Það þýðir að aldrei hafi fleiri Íslendingar verið saman komnir á einum stað en í miðbænum í dag.

Til sölu; föt af gömlum einræðisherra

Elsti sonur Ágústusar Pinochet fyrrverandi einræðisherra í Chile hefur sett safn af jakkafötum sem faðir hans átti í sölu hjá klæðskera miðborg Santiago. Pinochet sem stjórnaði landinu með harðri hendi í 17 ár, lést í fyrra. Ágústus Pinochet Hiriart segir að faðir hans hafi notað þessu föt bæði í starfi sínu og einkalífi.

Madeleine litla kann að vera látin

Portúgalska lögreglan segir að hugsanlegt sé að litla breska telpan Madeleine McCann sé látin. Fram að þessu hefur verið litið á hvarf hennar sem mannrán. Eitthundrað dagar eru nú liðnir frá því Madeleine hvarf. Þetta er í fyrsta skipti sem portúgalska lögreglan ljáir máls á því að hún hafi verið myrt. Lögregluforingi sem stýrir rannsókninni segir að foreldrarnir liggi ekki undir grun.

Vilja hluta af Kolaportinu undir bílastæði

Minnihlutinn í borgarstjórn reynir nú að koma í veg fyrir að tollstjóri fái 5000 fermetra bílastæði með viðbyggingu ofan jarðar við tollhúsið. Til þess að koma stæðinu fyrir þyrfti að ganga á húsnæði Kolaportsins. Aðstandendur þess hafa miklar áhyggjur af málinu.

Kostun Sýnar 2 tryggð í þrjú ár

Í dag voru staðfestir samningar um kostun Sýnar 2 til næstu þriggja ára. Kostunaraðilar eru Vodafone, 10-11, Iceland Express og vátryggingafélagið Vörður. Ari Edwald, forstjóri 365, sagði við þetta tækifæri að kostendur tryggðu að Enski boltinn bærist um land allt á hagstæðum kjörum.

Byrjað að grafa eftir námumönnunum

Björgunarmenn í Utah fylki í Bandaríkjunum eru nú búnir að bora víða holu ofan í námuna þar sem talið er að sex námumenn séu fastir eftir að hrun varð í námunni síðastliðinn mánudag. Ætlunin er að láta videomyndavél og hljóðnema síga niður í holuna og reyna að sjá hvort þeir eru á lífi. Ekkert hefur heyrst frá mönnunum síðan óhappið varð.

Innflytjendur ráða úrslitum í norskum kosningum

Innflytjendur geta ráðið úrslitum í borgarstjórnarkosningum í Osló sem fram fara síðar á þessu ári. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum gera nú hosur sínar grænar fyrir þeim og bjóða meðal annars í kebab grillveislur. "Það erum við sem ákveðum hvort verður hægri eða vinstri stjórn í Osló næstu fjögur árin," segir formaður ráðs innflytjenda.

Tugir þúsunda í Gleðigöngu

Gleðigangan Gay Pride lagði af stað í dag klukkan tvö frá Hlemmi. Hún fór niður Laugarveg og Bankastræti að Arnarhóli. Þar hófust útitónleikar fyrir stundu sem standa yfir í um 90 mínútur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tóku tugir þúsunda þátt í göngunni. Bein útsending var frá göngunni á visir.is.

Börn hlaupa fyrir börn

Í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Glitnis 18. ágúst nk. verður í annað sinn efnt til Latabæjarhlaups sem er sérstaklega ætlað börnum 9 ára og yngri. Í ár munu þátttökugjöldin í hlaupinu renna óskipt til UNICEF - Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Í fyrra hlupu um 4.200 börn og standa vonir til að a.m.k. jafnmargir hlaupi í ár. Þátttökugjaldið í ár er það sama og í fyrra eða 800 kr.

Rjúktu á reykjara

Frændur okkar Danir eru uppfinningasamir í besta lagi. Þeir hafa áhyggjur af því að með nýjum reykingalögum sem taka gildi 15. ágúst einangrist reykingamenn. Það hefur því verið opnuð sérstök stefnumótasíða fyrir reykingafólk á netinu. Þar geta menn skráð upplýsingar um sig og sent mynd, og þannig komist í samband við annað fólk sem reykir.

Big Ben þegir í mánuð

Einn þekktasti klukkuturn heims, sjálfur Big Ben í Lundúnum, þagnaði klukkan átta í morgun. Bjöllurnar hringja ekki í heilan mánuð vegna viðhalds. Klukkan sjálf mun þó aðeins stöðvast í nokkrar klukkustundir í dag.

Ekki gin- og klaufaveiki á fjórða býlinu

Gin- og klaufaveiki greindist ekki að fjórða nautgripabúinu í Surrey á Suður-Englandi líkt og óttast var í gær. Búið stendur fyrir utan varnarsvæði sem markað var í kringum bú þar sem veikin greindist fyrst fyrir rúmri viku. Síðan þá hefur hún greinst á tveimur býlum til viðbótar innan varnarsvæðisins.

Mikilvægar kosningar í Síerra Leóne

Íbúar í Afríkuríkinu Sierra Leóne kjósa sér þing og forseta í dag. 7 ár eru síðan blóðugri borgarastyrjöld lauk í landinu og óttast margir að aftur geti soðið upp úr. Því er talið mikilvægt að kosningarnar í dag fari vel fram og sátt náist um úrslit þeirra.

Hlupu með íþróttaálfinum

Íþróttaálfurinn brá á leik með hópi barna fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands í morgun. Tilgangurinn var að kynna Latabæjarhlaupið sem fer fram næsta laugardag, á sama tíma og Reykjavíkurmaraþon Glitnis.

Brauðmeti hækkar frá og með næstu mánaðarmótum

Kaupmönnum hefur verið tilkynnt um hækkanir á brauðmeti frá og með næstu mánaðarmótum. Ýmsar vísbendingar eru uppi um að innfluttar matvörur kunni að hækka á næstunni vegna þróunar á heimsmarkaði.

Vongóðir um að gíslar fái frelsi

Uppreisnarmenn Talíbana í Afganistan segjast vongóðir um að hægt verði að semja um lausn 21 Suður-Kóreumanns sem þeir hafa haldið í gíslingu í rúmar 3 vikur. Viðræður milli Talíbana og sendifulltrúa suðurkóreskra stjórnvalda hófust á skrifstofu Rauða hálfmánans í Ghansi í Mið-Afganistan í gær.

Rússar fá ekki Norðurpólinn átakalaust

Kanadamenn ætla ekki að láta Rússa komast upp með að helga sér Norðurpólinn. Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada tilkynnti í gær að þeir muni reisa tvær herstöðvar í norðursvæði landsins til þess að leggja áherslu á sinn rétt til þess að nýta það sem er að finna undir ísnum. Rússneskur kafbátur setti í síðustu viku rússneska fánann á hafsbotninn undir pólnum.

Banna samfarir á timburfleka

Lögreglan í Kaupmannahöfn segir að hún muni stöðva samfarir manns og konu á timburfleka í höfn höfuðborgarinnar í kvöld, ef til þeirra komi. Samfarirnar voru boðaðar til þess að draga fleiri gesti á Copenhagen Fashion Week, sem nú stendur yfir. Taus Abilgard, einn af aðstandendum sýningarinnar segir að þetta hafi verið tillaga frá nokkrum gestanna og maðurinn og konan hafi lýst sig fús til ásta.

Fiskidagurinn mikli á Dalvík

Í dag er Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur á Dalvík en talið er að hátt í tíu þúsund manns hafi verið komnir á tjaldvæði bæjarins í gær. Í gærkvöldi buðu heimamenn gestum og gangandi upp á fiskisúpu.

Hoppandi reiður innbrotsþjófur og ölvaður golfari

Tólf gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ýmist fyrir að keyra fullir eða fyrir að vera ofurölvi. Þrír ungir piltar gerðu tilraun til að brjótast inn í efnalaug í vesturbænum í nótt. Árvökull nágranni kallaði til lögreglu en þegar hún kom á staðinn voru piltarnir á bak og burt. Þeir náðust skömmu seinna en þá hafði hljaupið í kekki á milli þeirra og brotist út slagsmál.

Bein útsending frá gleðigöngu

Gleðigangan Gay Pride leggur af stað í dag klukkan tvö frá Hlemmi, niður Laugarveg og Bankastræti að Arnarhól. Byrjað verður að setja gönguna saman klukkan 12 á hádegi. Gangan er liður í Hinsegin dögum, baráttudögum homma og lesbía. Vegna göngunnar og þeirrar dagskrá sem verður í miðbænum í dag verður Lækjargötu lokað frá Skólabrú að Geirsgötu fram eftir degi.

Klámstjarnan varð honum að falli

Jaison Biagini, framhaldsskólakennari í Monessen, sagði upp vinnunni eftir að hafa farið á stefnumót með klámmyndastjörnunni Akiru. Stefnumótið var hluti af ferð til St. Pétursborgar sem Biagini vann í samkeppni á vegum útvarpsstöðvarinnar Sirius. Skólastjórnin féllst á afsagnarbeiðni Biaginis síðastliðinn þriðjudag.

Fjölmenni á leið til Dalvíkur

Mikil umferð streymir nú í átt að Dalvík en Fiskidagar hófust þar í dag. Samkvæmt lögreglunni á Akureyri hefur allt gengið vel. Enginn hefur verið tekinn fyrir ölvunar- eða lyfjaakstur og ökumenn hafa virt hraðatakmörk.

Slökkvilið kallað að Hafnarbraut

Slökkvilið var kallað að Hafnarbraut í Kópavogi fyrir stundu vegna reyks sem lagði frá húsi í götunni. Slökkviliðsmenn fóru upp á þak hússins til að kanna aðstæður en enginn eldur virðist hafa verið í húsinu. Talið er að reykinn hafi lagt frá reykofni sem er í húsinu.

Þrír létust í námuslysi

Þrír létust í námuslysi í suðurhluta Indiana, að því er BBC greinir frá. Þetta er annað námuslysið í Bandaríkjunum í þessari viku. Ekki er vitað hversu margir voru í námunni þegar slysið varð. Slysið varð um klukkan fimm að íslenskum tíma. Sex manns er saknað eftir námuslysið sem varð í Utah á mánudag.

Vantar 140 starfsmenn

Tæplega 96 prósent stöðugilda hafa verið mönnuð í grunnskólum Reykjavíkur. Enn vantar þó um 140 starfsmenn, og í sumum skólum er ástandið verra en áður vegna þess hversu margir eru í launalausum leyfum eða námsleyfum.

Jón eða sr. Jón?

Eins og greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld hefur sektum vegna þeirra sem leggja ólöglega í stæði fyrir fatlaða fjölgað verulega. Nánast á sama tíma og fréttin var í loftinu gerðist starfsmaður Stöðvar 2 sig sekan um sama virðingarleysi eins og sést á mynd sem tekin var fyrir framan Loftkastalann. Árvökulum lesanda Vísis er þökkuð ábendingin og biðst Stöð 2 afsökunar á hegðun starfsmannsins.

Ráðherra vill hefja olíuleit við Ísland

Iðnaðarráðherra vill gefa út sérleyfi til olíuleitar við Ísland innan árs. Hann segir öll gögn um málið vera jákvæð, og að áhugasamir aðilar hafi verið í sambandi við ráðuneytið vegna olíuleitar við norðausturhorn landsins.

Klippir snigla í tvennt

Spánarsniglarnir alræmdu hafa gert Dönum lífið leitt í sumar. Þeir éta allt sem að kjafti kemur og hafa gert garyrkjumenn gráhærða. Skaðvaldur segir ein dönsk kona og klippir skriðdýrin í sundur. Sniglar þessir hafa numið land á Íslandi en þurrkarnir hér hafa verið þeim erfiðir í sumar.

Forsetabíllinn kannski ekki svo umhverfisvænn

Nýi forsetabíllinn er kannski ekki eins umhverfisvænn eins og verið hefur látið. Í ítarlegri úttekt á bílnum í The New York Times er hann sagður allt annað en það. Vilhjámur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi sem nýlega kynntu svokölluð græn bílastæði keyra ekki um á vistvænum bílum.

Dregur úr frumuskemmdum við neyslu alkóhóls

Yfirvöld ættu að íhuga að bæta folínsýru í brauð eða korn til að auka neyslu þess meðal Íslendinga segir Helgi Sigurðsson, prófessor í krabbameinslækningum. Nýleg rannsókn sýnir að neysla fólinsýru minnkar líkur á krabbameini og dregur úr frumuskemmdum við neyslu alkahóls.

Sjöhundruð sektir vegna bílastæða fatlaðra

Sífellt fleiri brjóta umferðarlögin með því að leggja í bílastæði sem eru sérmerkt fötluðum. Sjöhundruð sektir hafa verið gefnar út það sem af er árinu. Fötluð kona segir svo mikinn ágang í sérmerktu stæðin, að hún neyðist til að borga hundrað þúsund krónur fyrir stæði í bílastæðahúsi í hverfi í miðborginni

Forsætisráðherra segir að ratsjárstöðvakerfið virki

Forsætisráðherra segir ekki rétt að hluti íslenska ratsjárstöðvarkerfisins gagnist ekki, þar sem kerfið í heild sinni sé forsenda heræfinga og lofteftirlits erlendra ríkja hér við land. Hann segir að á næstu vikum og mánuðum verði unnið að nánari útfærslu á rekstri ratsjárstöðvanna, en Íslendingar taka við rekstri þeirra eftir 5 daga.

Deiliskipulagi fyrir HB Granda nýlega breytt

Stjórn HB Granda hefur ákveðið að hætta allir fiskvinnslu í Reykjavík og flytja hana upp á Akranes. Stjórnarformaður Faxaflóahafna segir ákvörðunina koma sér á óvart þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu þrýst á að fá stærra svæði undir starsemi sína á Norðurgarðinum og deiliskipulaginu var breytt miðað við það síðastliðið vor.

Verksviði SÞ í Írak breytt

Verksvið Sameinuðu þjóðanna í Írak hefur verið víkkað að tillögu Breta og Bandaríkjamanna. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eru andvígir því að þurfa að snúa aftur til Íraks en þaðan voru þeir flestir kallaðir eftir mannskæða sprengjuárás 2003.

Óttast að alheimskreppa skelli á

Sérfræðingar á alþjóðlegum fjármálamarkaði óttast alheimskreppu ef niðursveifla á mörkuðum í gær og í dag heldur áfram. Forsætisráðherra segir enn sem komið er enga ástæðu fyrir ríkisstjórnina að grípa til aðgerða.

Geimhótel opnar árið 2012

Fyrsta hótelið sem fyrirhugað er að opna í geimnum, "Galactic Suite", áætlar að vera búið að opna fyrir viðskipti árið 2012. Arkitektarnir sem að eru að hanna hótelið segja að það verði það dýrasta í heiminum, en þriggja daga dvöl þar mun kosta 4 milljón dollara eða um 265 milljónir íslenskra króna.

Sjá næstu 50 fréttir