Fleiri fréttir

Grásleppuveiði hafin

Fyrstu bátarnir eru farnir frá Drangsnesi til grásleppuveiði og eru sjómenn bjartsýnir um að sumarið verði fengsælt. Veður hefur hins vegar ekki leikið við sjómenn síðustu mánuði.

Tyrkneska herstjórnin vill ráðast inn í Írak

Yfirmaður Tyrkneska herráðsins sagði í gær að frá hernaðarsjónarmiði væri nauðsynlegt að ráðast gegn kúrdiskum uppreisnarmönnum í Norður-Írak. Tyrkir hafa gert margar slíkar árásir á umliðnum árum, en ekki síðan bandamenn hernámu Írak árið 2003. Yfirmaður herráðsins tók fram að ekki hefði enn verið farið fram á það við stjórnvöld að þau leyfðu herför inn í Írak.

Grafarholtshverfi framvegis tvö kjördæmi

Landskjörstjórn hefur ákveðið að skipta Grafarholtshverfi milli Reykjavíkurkjördæmis suður- og norður. Áður tilheyrði hverfið allt Reykjavíkurkjördæmi norður.

Fresta skipulagningu svæða fyrir hugsanlegar virkjanir

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti í gær að fresta skipulagningu þeirra svæða sem ætluð hafa verið fyrir Skatastaða- og Villinganesvirkjun í þeirri tillögu að aðalskipulagi sem verið er að vinna að.

Tuttugu grunaðir fjöldamorðingjar í Noregi

Norska lögreglan er nú að rannsaka fortíð allt að tuttugu manna frá Rúanda sem búa í Noregi. Þeir eru grunaðir um að hafa tekið þátt í fjöldamorðunum í heimalandi sínu árið 1994. Norsk yfirvöld hafa fengið upplýsingar um fólkið frá yfirvöldum í Rúanda.

Hjálp - hún er handjárnuð við rúmgaflinn

Ástaleikurinn fékk vandræðanlegan endi hjá pari í Borås, í Svíþjóð í gær. Handjárnin fóru í baklás og konan var föst við rúmgaflinn. Eftir að hafa reynt allt sem þeim datt í hug, var ekki um annað að ræða en hringja í lögregluna, sem kom fljótlega á vettvang.

Handleggurinn kominn á aftur

Læknar á Tævan hafa grætt handlegginn aftur á dýralækninn Chang Po-yo, en 200 kílóa Nílar krókódíll reif hann af honum í gær. Krókódíllinn var eitthvað veikur og Chang skaut í hann pílu með deyfilyfjum til þess að geta gefið honum lyf. Þegar hann hélt að skepnan væri sofnuð stakk hann handleggnunum í gegnum netgirðingu til þess að ná í píluna.

Fleiri greinast með lekanda

Tæplega helmingi fleiri einstaklingar greindust með lekanda á síðasta ári en árið þar á undan samkvæmt Farsóttafréttum sóttvarnalæknis. Alls greindust 31 einstaklingur með lekanda á síðasta ári en árið 2005 voru þeir 19 talsins.

Átök á milli lögreglu og innflytjenda

Óeirðalögreglu í Mílanó á Ítalíu lenti í gærkvöldi saman við kínverska innflytjendur. Mótmælin voru tilkomin vegna þess sem þeir segja kynþáttamisréttis. Fleiri en 100 kínverjar tóku þátt í mótmælunum og þurftu um 20 manns að leita á sjúkrahús eftir átökin.

Útvarpsmaður rekinn vegna niðrandi ummæla

Bandaríska útvarps- og sjónvarpsstöðin CBS hefur rekið einn af þáttastjórnendum sínum, Don Imus, eftir að hann gerðist sekur um að úthúða körfuboltaliði svartra stúlkna vegna kynþáttar þeirra. Hann kallaði þær „heysátu-hórur“ (e. nappy-headed ho´s) en nappyhead er niðrandi orðatiltæki um hár svartra og ho er slangur yfir hórur.

Landsmenn auka neyslu

Landsmenn juku neyslu verulega í síðasta mánuði samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Alls jókst velta dagvöruverslunar um rúm 17 prósent í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Aukningin í síðasta mánuði mun meiri en almennt gerist á þessum árstíma og aðeins sambærileg við þá aukningu sem á sér stað í kringum jólin.

Þrír norskir sjómenn látnir

Þrír norðmenn létust og fimm er enn saknað eftir að dráttarbáturinn Bourbon Dolphin hvolfdi rétt 75 sjómílum norðan við Hjaltland. Fyrr í kvöld var sjö manns bjargað. Tvær þyrlur, kafarar og þrjú skip eru á svæðinu að leita en standgæslan segir sjóinn vera orðin það kaldan og myrkrið orðið of mikið til þess halda áfram. Leit hefst aftur í fyrramálið. Ekki er vitað með vissu af hverju bátnum hvolfdi.

Lekandi orðinn að vandamáli í Bandaríkjunum

Læknar virðast hættir að geta læknað kynsjúkdóminn lekanda ef marka má nýjustu rannsóknir smitsjúkdómadeildar Bandaríkjanna. Tilfellum hefur fjölgað frá því að vera aðeins 1% smitaðir yfir í að verða 13% á aðeins síðustu fimm árum. Ástæðan er talin vera sú að læknar eru nú í auknum mæli farnir að láta fólk fá of sterkt pensillín við kvefi og öðrum slíkum kvillum. Af þeim sökum byggir líkaminn upp mótefni við pensillíninu og það hættir að virka. Yfirmaður smitsjúkdómadeildar Bandaríkjanna segir að nú þurfi að fara gefa enn sterkari lyf við kynsjúkdómum en áður til þess að lækna þá. Þess má geta að lekandi er ekki landlægur kynsjúkdómur hér á landi en nokkur tilvik koma alltaf upp á ári hverju.

Sjúkraþyrlu á Akureyri- viðbragðstími of langur

Verja þarf auknu fé til sjúkraflutninga á landsbyggðinni, segir sérfræðingur við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Of langur viðbragðstími hefur skapað vandræði. Björn Gunnarsson læknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri segir að stjórnvöld þurfi að setja meiri peninga í sjúkraflutning. Þetta kemur fram í skýrslu um sjúkraflug sem hann vann í samstarfi við Helgu Magnúsdóttir lækni.

Sveiflar sprotanum í Háskólabíó í síðasta sinn

Vladimir Ashkenazy hefur sett svip sinn á íslensk menningarlíf um áratuga skeið. Frá árinu 2002 hefur hann verið heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands en þessi frábæri píanisti steig einmitt sín fyrstu skref sem stjórnandi með hljómsveitinni árið 1971. Annað kvöld stýrir hann sveitinni í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði en í kvöld sveiflar hann sprotanum í Háskólabíói, væntanlega í eitt af síðustu skiptunum, því nýtt tónlistarhús er handan við hornið. Á efnisskránni eru þrjú verk, þar á meðal hin dásamlega Fantastique-sinfónía Hectors Berlioz. Ashkenazy segist alltaf hafa jafn gaman af því að koma til Íslands og í hvert skipti sem hann kemur hefur sinfónían tekið enn meiri framförum. Nýlega fékk hann stjórnendastöðu við sinfóníuhljómsveitina í Sydney en þrátt fyrir það ætlar þessi fyrsti tengdasonur Íslands, eins og hann er stundum kallaður, ekki að gleyma okkur.

Eldur kom upp í báti

Eldur kom upp í báti suðvestur af Ryti við Ísafjarðardjúp rétt um kvöldmataleitið í kvöld. Tveir menn voru í bátnum. Að sögn varðstjóra á Ísafirði náðu mennirnir að slökkva eldinn, en báturinn varð vélvana og þurfti því að kalla á hjálp. Sædísin frá Bolungavík kom á staðin og er báturinn væntanlegur til hafnar í Bolungavík um klukkan hálf tíu. Upptök eldsins eru ókunn.

Enn og aftur sannast skaðsemi reykinga

Enginn sleppur við að verða fyrir skaða af sígarettureyk ef marka má nýja könnun sem framkvæmd var í Póllandi. Hefur nú komið í ljós að meira að segja þeir ungu og hraustu verða líka fyrir miklum skaða af sígarettureyk þar sem hjartað fær ekki að slaka á á milli slaga. En hingað til hefur því verið haldið fram að þeir ungu og hraustu þoli sígarettureyk einna best. Rannsóknin var gerð á 66 hraustum einstaklingum á aldrinum 20 til 40 ára. Helmingur þeirra hafði reykt 10-25 sígarettur á dag í 6-20 ár. Óreglulegir hjartslættir komu enn fram tveim tímum eftir að þeir luku við síðustu sígarettu.

Kópavogsbær byggir að Elliðavatni

Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt skipulagsbreytingar á lóðum að vatnsbakka Elliðavatns. Á bæjarstjórnarfundi 10. apríl samþykkti meirihlutinn þ.e. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn, drög að nýrri byggð suðvestur af Elliðavatni. Samkvæmt nýju skipulagi mun vera um 15 metra bil á milli Elliðavatns og bygginga en um 50 metra helgunarsvæði liggur nú meðfram vatninu en það var samþykkt árið 2000. Með þessu móti mun byggðin teygja sig upp og í kringum Guðmundarlund og liggjað að landi Heiðmerkur.

Ráðist á sjálft þinghúsið

Átta biðu bana og fjölmargir slösuðust þegar öflug sprengja var sprengd í þinghúsinu í Bagdad í dag. Árásin er reiðarslag fyrir íröksku stjórnina og þau ríki sem hernámu landið því hún er táknræn fyrir hversu ástandið þar er slæmt og hve máttlítil yfirvöld eru í baráttu sinni við uppreisnarmenn.

Boðar nýja löggjöf um greiðsluaðlögun

Félagsmálaráðherra hefur boðað nýja löggjöf um úrræði vegna greiðsluerfiðleika fólks og hefur skipað nefnd til undirbúa frumvarp. Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingar segir sérkennilegt að boða til nýrrar löggjafar nú rétt fyrir kosningar, þar sem frumvarp sama efnis hefur legið fyrir á Alþingi í 10 ár og aldrei komist í gegn.

Rangar dagsetningar á matvörur

Dæmi eru um að íslensk matvælafyrirtæki hafi stundað það að dagsetja pökkunardag vöru degi á eftir raunverulegum pökkunardegi. Umhverfisstofnun segir það bannað og brjóta gegn öllum reglum um merkingu matvæla.

Þjóðkirkjan er í allra þágu

Biskup hefur óskað eftir því við prestana í Digranessókn að þjóna þeim fermingarbörnum sem til þeirra leita. Prestur þar neitaði að ferma stúlku úr Fríkirkjusöfnuðinum nema móðir hennar gengi til liðs við Þjóðkirkjuna. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir segir alla velkomna í sína kirkju.

Kjúklingar komnir af risaeðlum

Vísindamenn hafa fundið fyrstu merki þess að risaeðlan Tyrannosaurus rex sé fjarskyldur frændi hænunnar. Eru þetta fyrstu handbæru merkin sem tengja risaeðlur og fugla saman, segir vísindamaður við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Upplýsingar þessar fengust með því að rannsaka prótein úr beinmerg úr 68 milljón ára gömlu beini. Vísindamenn hafa löngum haldið því fram að fuglarnir eins og við þekkjum þá í dag séu komnir af risaeðlum og er þetta því mikið gleði efni en hingað til hefur ekki verið hægt að finna nýtanlegan beinmerg til þess að vinna úr.

Á tvöföldum hámarkshraða undir áhrifum áfengis

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvo ökumenn fyrir hraðakstur í gær. Annar þeirra var kona sem mældist á 109 kílómetra hraða í Kópavogi þar sem hámarkshraði er 50 og var hún þar að auki búin að neyta áfengis.

Karlmaður í Ohio ákærður fyrir tengsl við al-QaIda

Bandaríska alríkisrlögreglan hefur ákært mann á fimmtugsaldri frá Ohio fyrir að vera félagi í al-Qaida hryðjuverkasamtökunum og leggja á ráðin um sprengjuárásir í bæði Bandaríkjunum og Evrópu. Maðurinn, Christopher Paul, var handtekinn í gær eftir að lögregla hafði fylgst með honum í fjögur ár.

Nýjar reglur um takmarkanir á reykingum

Tóbaksreykingar um borð í skipum sem notuð eru í atvinnurekstri verða framvegis takmarkaðar samkvæmt nýrri reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum. Þá verður aðeins leyfilegt að reykja á útisvæðum við veitingastaði frá og með 1. júní næstkomandi. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðismálaráðherra, undirritaði reglugerðina í dag.

Kuldakast í miðvesturríkjum Bandaríkjanna

Kuldakast sem gengur yfir miðvesturríki Bandaríkjanna hefur valdið töluverðum usla ríkjunum bæði í dag og í gær. Segir á vef USA Today að rekja megi sex dauðsföll í umferðinni til mikillar hálku á vegum úti og þá hefur hundruðum flugferða verða verið frestað vegna ofankomu.

Verðhrun á sumarhúsum í Danmörku

Verð á sumarhúsum í Danmörku hefur farið hríðlækkandi að undanförnu og þá mest á vinsælustu svæðunum. Verðlækkunin er að mestu rakin til spákaupmennsku en margir hafa viljað græða á kaupum og sölum á sumarhúsum.

Einkaflugvél nauðlenti í Stokkhólmi

Einn maður slasaðist alvarlega og þrír lítillega þegar einkaflugvél nauðlenti í Stokkhólmi um miðjan dag í dag. Eftir því sem sænskir miðlar greina frá var um að ræða fjögurra sæta Piper PA 28 flugvél en flugmaður hennar tilkynnti um vélarvandræði skömmu eftir að hún hafði tekið á loft frá Bromma-flugvelli.

Vill löggjöf um samningsrétt skuldara

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vill skoða kosti þess að setja sérstaka löggjöf um úrræði fyrir fólk sem á í greiðsluerfiðleikum líkt og gert hefði verið annars staðar á Norðurlöndum.

Kafbátur fyrir almenning

Bandaríska fyrirtækið US Submarine framleiðir kafbáta af ýmsum stærðum og gerðum fyrir almenning. Nýjasta faratækið er sannkaðaður lúxusdallur. Báturinn er 65 metra langur og með þrjú þilför. Hann er því aðeins átta metrum styttri en risaflugvélin Airbus 380. Báturinn ber tegundarnafnið Phoenix 1000.

Vilja meiri umræðu um menntamál

Of lítið hefur borið á umræðu um menntamál í aðdraganda kosninga að mati Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í stefnuskrá sem ráðið sendi frá sér í dag. Að mati ráðsins hafa menntamál fallið í skuggann af umræðunni um umhverfis- og efnhagsmál.

Árás í þingi glæpaverk hugleysingja

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, lýsti árásinni í írakska þinginu í Bagdad í morgun sem glæpaverki hugleysingja og sagði að hún myndi ekki draga kjarkinn úr írökskum þingmönnum. Að minnsta kosti tveir írakskir þingmenn eru nú sagðir látnir og vel á annan tug manna særður eftir árásina sem var í kaffiteríu í írakska þinginu.

Karlmaður dæmdur fyrir fíkniefnabrot

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands til að greiða 60 þúsund krónur í sekt fyrir vörslu á ólöglegu fíkniefni. Maðurinn hefur fimm sinnum áður fengið dóm vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni.

Ekki gefa konum langt nef

Tvær Saudi-Arabiskar eiginkonur reiddust eiginmanni sínum svo mjög, þegar hann sagðist ætla að kvænast þriðju konunni, að þær réðust á hann og bitu hann í nefið. Judaie Ibn Salem hélt að hann gæti leyst deilu um skiptingu á heimilisplássinu, með hótun um þriðju eiginkonuna. Það varð þó aðeins til þess að magna deiluna.

900 krónur til Bandaríkjanna

Stjórnendur Ryanair eru að undirbúa stofnun systurflugfélags til að hefja flug til Bandaríkjanna með 30-50 véla flugflota. Ryanair, sem er stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, ætlar að hefja þetta flugið á næstu þrem til fjórum árum. Michael O'Leary, forstjóri Ryanair segir að farmiðarnir muni kosta allt niður í tæpar níuhundruð íslenskar krónur.

Lundastofninn í Eyjum að hruni kominn

Lundastofninn í Vestmannaeyjum hefur minnkað verulega á síðastliðnum árum vegna skorts á fæðu. Þetta kom fram í máli Páls Marvins Jónssonar, forstöðumanns háskólasetursins í Eyjum, á Lundaráðstefnunni í Vestmannaeyjum. Allt bendir til þess að verulega muni draga úr lundaveiðum á næstu árum.

Stærð þorskveiðistofns minni en áætlað var

Útlit er fyrir að þorskárgangurinn í fyrra sé slakur líkt og árið 2005 en þó töluvert betri en árið 2004. Þá benda vísitölur til að stærð þorskveiðistofnsins sé nú um 10-15 prósentum minni en áður hefur verið áætlað. Þetta er meðal niðurstaðna í vorralli Hafrannsóknarstofnunar sem fram fór í febrúar og mars.

Truflaði aðflug flugvéla með flugdreka

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti í vikunni að hafa afskipti af manni sem ógnaði flugöryggi á heldur óvenjulegan hátt. Var maðurinn að leika sér með flugdreka í Öskjuhlíðinni og var hann svo hátt á lofti að það truflaði aðflug flugvéla að Reyjavíkurflugvelli.

Vilja stórátak í samgöngumálum og búsetumálum aldraðra

Stórátak í samgöngumálum og í uppbyggingu búsetuúrræða fyrir aldraða, afnám launaleyndar og öflugt og traust atvinnulíf ásamt ábyrgri stjórn efnahagsmála er meðal þess er að finna í drögum að ályktunum sem lagðar verða fyrir landsfund Samfylkingarinnar sem fram fer á morgun og hinn.

ACHTUNG !

Lucio býr í Aubstadt í suðurhluta Þýskalands. Hann skildi ekkert í því þegar hann fékk kvaðningu frá þýska hernum um að hann ætti að mæta til herþjónustu innan tíu daga. Ellegar hefði hann verra af. Lucio skilur satt að segja afskaplega lítið í flestum hlutum því hann er ekki nema fjögurra vikna gamall.

Sjá næstu 50 fréttir