Innlent

Þyrlan kölluð út í þriðja sinn: „Þetta eru óvenjumörg slys“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur haft í nógu að snúast í dag.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur haft í nógu að snúast í dag. vísir/vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út í þriðja sinn í dag vegna vélsleðaslyss sem varð á Gimbrahnjúk, vestan við Dalvík um hálf fimmleytið í dag. Um er að ræða þriðja útkall þyrlunnar í dag sem telst óvenjumikið.

Þyrlusveitin var fyrr í dag kölluð út vegna vélsleðaslyss á Jarlhettum, suður af Langjökli. 

Sjá einnig: Þyrlan aftur kölluð til vegna vélséðaslyss á Langjökli

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að þyrlan muni lenda í Reykjavík á næstu mínútum vegna slyssins á Langjökli. „Það verður væntanlega sama áhöfn sem fer norður,“ segir Ásgeir.

Á Dalvík er um að ræða annað vélsleðaslys. „Ástæða þess að þyrlan er kölluð til er staðsetning slyssins,“ segir Ásgeir jafnframt.

Eru þetta ekki óvenjumörg slys í dag?

„Jú, það hafa sömuleiðis komið upp tvö önnur slys sem við erum ekki með nákvæma staðsetningu á en björgunarsveitir hafa sinnt og ekki krafist aðstoðar Landhelgisgæslu. Þrjú þyrluútköll sama daginn er mjög mikið en það gerist oft þegar það er gott veður og margir á ferli. Þá er líklegra að það verði slys.“

Í morgun varð síðan alvarlegt fjórhjólaslys við Hlöðuvallaveg undir Langjökli. Einn var þá fluttur slasaður með þyrlu Landhelgisgæslunnar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×