Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 25-25 | Valskonur komu til baka og náðu í stig gegn Stjörnunni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir tryggði Valsliðinu stig. 
Þórey Anna Ásgeirsdóttir tryggði Valsliðinu stig.  Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan og Valur skildu jöfn, 25-25, þegar liðin áttust við í æsispennandi og kaflaskiptum leik í 12. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í Mýrinni í Garðabænum í dag.

Leikmenn Vals byrjuðu leikinn betur og svo virtist sem gestirnir ætluðu að kvitta fyrir tapið gegn ÍBV í síðustu umferð deildarinnar. 

Stjarnan komst hins vegar hægt og bítandi í betri takt í sóknarleiknum og munaði þar mikið um frábæra frammistöðu Helenu Rutar Örvarsdóttur sem skoraði 11 mörk í leiknum. 

Heimakonur höfðu eins marks forskot, 14-13, í hálfleik og Stjanan hafði frumkvæðið allt fram að lokamínútum leiksins. 

Þegar um það bil 10 mínútur voru eftir af leiknum var Stjarnan fjórum mörkum yfir, 24-20, en þá hrökk Valsliðið í gang. Vörn Vals efldist til muna og Þórey Anna Ásgeirsdóttir jafnaði metin úr vítakasti á lokaandartökum leiksins. 

Þessi úrslit þýða að Valur og ÍBV eru jöfn að stigum með 20 stig á toppi deildainnar en Stjarnan kemur þar á eftir með 17 stig. 

Hrannar Guðmundsson hefði viljað fá stigin tvö sem í boði voru.Vísir/Pawel

Hrannar Guðmundsson: Þetta er klárlega tapað stig

„Eins og leikurinn þróaðist þá er þetta eitt tapað stig og ég er mjög ósáttur við að ná ekki að landa sigrinum. Mér fannst þær fá langa sókn til þess að jafna metin en að sama skapi fórum við illa af ráði okkar í lokasókninni okkar," sagði Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, svekktur að leik loknum. 

„Það er hins vegar margt í spilamennsku minna leikmanna sem ég var mjög ánægður en bara leitt að það skilaði sér ekki með sigri. Mér fannst við verðskulda sigur í þessum leik en svona er handboltinn. Það má ekki gefa neitt eftir þegar þú spilar við Valsliðið og við brenndum okkur aðeins á því að þess sinni," sagði Hrannar einnig. 

Dagur Snær: Sýndum karakter að ná í þetta stig

„Við byrjuðum leikinn vel og vorum staðráðnar í að gera betur en í síðasta leik. Um miðjan fyrri hálfleikinn fengum við tvisvar sinnum tveggna mínútna brottvísun með stuttu millibili og á þeim kafla misstum við niður það forskot sem við höfðum, sagði Dagur Snær Steingrímsson, sem stýrir Valsliðinu í fjarverju Ágústs Þórs Jóhannssonar, sem er í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins á heimsmeistaramótinu sem fram fer þessa dagana. 

„Góðu kaflarnir voru svo fleiri hjá Stjörnuliðinu en við gáfumst ekki upp og sýndum mikinn karakter að ná í þetta stig eftir að hafa komið okkur í slæma stöðu. Þetta var kaflaskipt frammistaða en margt sem við getum jákvætt út úr þessum leik. Þá helst kannski spilamennskan í upphafi og lok leiksins," sagði Dagur Snær enn fremur. 

Dagur Snær Steingrímsson, þjálfari Vals. Vísir/Hulda Margrét

Af hverju lyktaði leiknum með jafntefli?

Liðin áttu bæði sína góðu og slæmu kafla í dag og jafntefli því að lokum sanngjörn niðurstaða. Svo virtist sem Stjarnan ætlaði að saxa á forskot Vals á toppnum en toppliðið sýndi seiglu, kraft og klókindi til þess að koma sér inn í leikinn og jafna á síðustu stundu. 

Hvað gekk illa?

Valur hefði líklega þegið betri markvörslu en Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir stóð vaktina í marki gestanna og varði fimm skot. Sara Sif Helgadóttir bætti svo við tveimur vörðum boltum. Markvörðum Vals til varnar þá var varnarleikur liðsins ekki öflugur lungann úr leiknum. 

Skyttur Valsliðsins, þær Thea Imani Sturludóttir og Mariam Eradze, fundu svo hvorug fjölina í leiknum en Thea Imani skoraði þrjú mörk úr átta tilraunum og Mariam nýtti tvö af níu skotum sínum. 

Hverjar sköruðu fram úr?

Helena Rut lék á als oddi í þessum leik en auk þess að skora 11 mörk var hún með tíu löglegar stöðvanir hinum megin á vellinum. Darija Zecevic átti svo fínan leik í marki Stjörnunnar en hún varði 11 skot. Britney Cots var svo öflug í varnarleik Stjörnuliðsins. 

Elín Rósa Magnúsdóttir var bjartasti punkturinn hjá Valsliðinu en hún skoraði sex mörk, fiskaði þrjú víti og átti nokkrar stoðsendingar þar að auki. Þórey Anna Ásgeirsdóttir var svo með góða vítanýtingu. 

Hvað gerist næst?

Valur fær HK í heimsókn í Origo-höllina að Hlíðarenda í næstu umferð á laugardaginn eftir slétta viku. Seinna sama dag sækir Stjarnan síðan Hauka heim á Ásvelli. 

Helenu Rut Örvarsdóttur héldu engin bönd. Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira