Fótbolti

Boðið upp á ferð á leik Portúgals og Íslands án þess að gista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins skemmtu sér vel á EM í Englandi í sumar.
Stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins skemmtu sér vel á EM í Englandi í sumar. Vísir/Vilhelm

Stelpurnar okkar spila risaleik í undankeppni HM í næstu viku og nú er í boði pakkaferð á leikinn mikilvæga.

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Portúgal á þriðjudaginn kemur í umspili um sæti á HM í Ástralíu og Nýja Sjálandi á næsta ári.

Íslensku stelpurnar vissu ekki fyrr en í gær hver mótherjinn yrði en það varð ljóst eftir að Portúgal vann 2-1 sigur á Belgíu.

Icelandair hefur nú sett í sölu pakkaferð á leikinn. Flogið er til Porto í beinu leiguflugi snemma morguns. Leikurinn fer fram í Porto og flogið verður heim strax að honum loknum.

Það skiptir miklu máli fyrir stelpurnar okkar að sjá bláa litinn í stúkunni.Vísir/Vilhelm

Innifalið er flug báðar leiðir, rúta til og frá flugvelli og miði á leikinn fyrir alla farþega. Verðið er 69.900 krónur.

Flogið er til Porto í beinu leiguflugi Icelandair með FI1060 klukkan 07:15 en lending er í Porto klukkan 12:05. Rúta fer með farþega á leikvanginn til að sjá leikinn og svo beint út á flugvöll að leik loknum. Áætluð brottför frá Porto með FI1061 aðfaranótt 12.október klukkan 02:00 en lending í Keflavík klukkan 05:00.

Það er hægt að kaupa miða með því að smella hér.

Ísland hefur aldrei komist á heimsmeistaramót kvenna en hefur aldrei verið eins nálægt því og núna.

Það er ljóst að stuðningur við stelpurnar okkar getur skipt miklu máli í þessum leik eins og sást ekki síst á Evrópumótinu í Englandi í sumar þar sem íslenska liðið tapaði ekki leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.