Fótbolti

Bað Messi um að árita á sér bakið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allir vilja fá eitthvað frá Lionel Messi.
Allir vilja fá eitthvað frá Lionel Messi. getty/Elsa

Lionel Messi hefur eflaust fengið margar óvenjulegar beiðnir í gegnum tíðina. Ein sú óvenjulegasta kom í nótt þegar aðdáandi bað hann um að árita bakið á sér.

Messi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Argentínu og Jamaíku í vináttulandsleik í Bandaríkjunum í nótt. Þetta var fyrsti leikur jamaíska liðsins undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.

Messi var slappur fyrir leik og byrjaði því á bekknum. Hann kom inn á sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks. Á 87. mínútu kom Messi Argentínu í 2-0 með langskoti og tveimur mínútum síðar skoraði hann með skoti beint úr aukaspyrnu.

Eftir annað markið hljóp aðdáandi að Messi sem var greinilega brugðið. Aðdáandinn sneri sér við og benti Messi á að árita á sér bakið. Messi tók pennann af manninum og byrjaði að skrifa áður en öryggisverðir skárust í leikinn.

Messi hefur nú skorað níutíu landsliðsmörk í 164 leikjum. Hann skoraði einnig tvö mörk þegar Argentína sigraði Hondúras, 3-0, í vináttulandsleik á laugardaginn.

Argentína hefur unnið sjö af átta leikjum sínum á þessu ári og er taplaust í síðustu 35 leikjum sínum. Argentínumenn eru í riðli með Sadí-Aröbum, Mexíkóum og Pólverjum á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×