Enski boltinn

Villa-maður gagn­rýnir sjón­varps­mann fyrir að hlut­gera kærustu sína sem leikur líka með Villa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alisha Lehmann og Douglas Luiz á góðri stundu.
Alisha Lehmann og Douglas Luiz á góðri stundu. instagram-síða alishu lehmann

Douglas Luiz, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Aston Villa, hefur gagnrýnt brasilískan sjónvarpsmann harðlega fyrir að hlutgera kærustu hans, fótboltakonuna Alishu Lehmann, sem leikur einnig með Villa.

Milton Neves, 71 árs sjónvarpsmaður í Brasilíu, deildi myndbandi á Twitter af Lehmann þar sem hún fagnar marki með því hoppa og snúa sér svo við. Í myndbandinu virðist einblínt á rass Lehmanns og það endar með spurningu hvort einhver hafi tekið eftir því hvaða númer var aftan á treyju hennar. Neves deildi myndbandinu með orðunum „horfið og tjáið ykkur“. Færslunni hefur nú verið eytt.

Luiz var ekki sáttur við þessa nálgun Neves og sagði hann hlutgera Lehmann. „Þú ert gamall, búinn að vera lengi í fótbolta og birtir myndband þar sem kvennabolti og leikmaðurinn, sem er einnig kærasta mín, eru vanvirt. Þú hefur ekki lært hvað virðing er. Þetta er kjaftæði,“ skrifaði Luiz á Twitter.

Markið sem Lehmann fagnaði í myndbandinu kom í 4-3 sigri Villa á Manchester City í 1. umferð ensku ofurdeildarinnar. Hún hefur leikið með Villa frá því í fyrra. Hin 23 ára Lehmann hefur leikið 34 leiki með svissneska landsliðinu og skorað sjö mörk.

Þau Luiz hafa verið saman frá því á síðasta ári. Hann hefur leikið með Villa undanfarin þrjú ár. Luiz hefur leikið níu landsleiki fyrir Brasilíu og var í brasilíska liðinu sem varð Ólympíumeistari 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×