Sport

Trompaðist eftir misheppnaða lokasókn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ken Dorsey var ekki skemmt eftir að lokasókn Buffalo Bills gegn Miami Dolphins fór í súginn.
Ken Dorsey var ekki skemmt eftir að lokasókn Buffalo Bills gegn Miami Dolphins fór í súginn.

Bræðiskast sóknarþjálfara NFL-liðsins Buffalo Bills eftir tap fyrir Miami Dolphins í gær hefur vakið mikla athygli.

Eftir að leiknum lauk trompaðist Ken Dorsey, sóknarþjálfari Bills. Hann reif heyrnartólin af sér, þrumaði þeim í borðið í blaðamannaaðstöðunni og krumpaði bunka af blöðum.

Dorsey tók einnig spjaldtölvu sína upp og lamdi henni svo ítrekað í borðið áður en hann fleygði henni í burtu. Spjaldtölvan lenti í myndavélinni þannig að það slökknaði á henni.

Æðiskast Dorseys náðist hins vegar að mestu á myndband sem hefur farið víða á samfélagsmiðlum. Það má sjá hér fyrir neðan.

Dorsey á von á refsingu frá NFL-deildinni. Öll 32 félögin í NFL fengu minnisblað frá deildinni eftir að Tom Brady, leikstjórnandi Tampa Bay Buccaneers, braut þrjár spjaldtölvur í leik liðsins gegn New Orleans Saints um síðustu helgi.

Bills tapaði leiknum í gær, 21-19. Þetta var fyrsta tap liðsins á tímabilinu. Höfrungarnir frá Miami hafa aftur á móti unnið alla sína leiki.

NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.