Innlent

Skammaði þingmenn en ruglaðist sjálfur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Birgir Ármannsson er forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson er forseti Alþingis. Vísir/Vilhelm

Birgir Ármansson, forseti Alþingis, var með örlítið málfarshorn á Alþingi í morgun. Þar skammaði hann þingmenn fyrir að ávarpa ekki aðra þingmenn í þriðju persónu. Honum urðu þó reyndar sjálfum á mistök sem hann þurfti síðar að leiðrétta.

Óundirbúinn fyrirspurnartími var á Alþingi í morgun. Þar sátu ýmsir ráðherrar fyrir svörum, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Áður en hún svaraði fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanni Flokks fólksins, greip Birgir þó í taumana.

„Hvað sagði ég?“

Eitthvað virðist það hafa farið í taugarnar á að persónufornöfnin við og þið hafi heyrst í pontu Alþingis í morgun, en hefð er fyrir því að þingmenn ávarpi aðra þingmenn í þriðju persónu.

„Forseti vill minna háttvirta þingmenn á að ávarpa aðra þingmenn ekki í fyrstu persónu, hvorki eintölu né fleirtölu,“ sagði Birgir og horfði um leið á Katrínu sem situr ekki langt frá sæti forseta Alþingis.

„Hvað sagði ég?“ heyrðist þá Katrín spyrja Birgi og virtist hún nokkuð hissa á augngotum Birgis.

„Þetta á ekki bara við um hæstvirtan forsætisráðherra heldur fleiri sem hér hafa tekið til máls í dag og síðustu daga, að gæta sín að beina máli sínu til forseta þegar að aðrir þingmenn, einn eða fleiri, eru nefndir að tala um þá í þriðju persónu en ekki fyrstu persónu,“ sagði Birgir.

Þingfundur hélt áfram en aðeins nokkrar mínútur liðu þangað til Birgir áttaði sig á því að hann hafði sjálfur gert gert mistök er hann skammaði þingmenn fyrir að ávarpa þingmenn í fyrstu persónu.

„Forseti vill um leið geta þess að forseta urðu á mistök hérna áðan þegar hann vísaði til fyrstu persónu en ekki annarrar persónu. Þannig að hér í málfarshorninu þá verður það skráð að forseti átti við aðra persónu, ekki fyrstu persónu en minnir þingmenn samt á að nota þriðju persónuna,“ sagði Birgir og uppskar nokkurn hlátur frá viðstöddum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×