Erlent

Hringir í Pútín eftir leiðtogaviðræður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Forseti Úkraínu, Volodimir Selenskí, fyrir miðju. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, til vinstri og aðalframkvæmdastjóri SÞ, Antonio Guterres, til hægri.
Forseti Úkraínu, Volodimir Selenskí, fyrir miðju. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, til vinstri og aðalframkvæmdastjóri SÞ, Antonio Guterres, til hægri. AP Photo/Evgeniy Maloletka

Takmarkaður árangur virðist hafa náðst í viðræðum leiðtoga Tyrklands, Úkraínu og Sameinuðu þjóðanna í dag. Tyrklandsforseti hyggst ræða efni fundarins við Vladímir Pútín, forseta Rússlands.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, fundaði með Volodímir Selenskí, forseta Úkraínu og Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu í dag.

Vonir voru bundnar við að viðræður leiðtoganna þriggja gætu skilað einhverjum jákvæðum niðurstöðum vegna stríðs Rússlands við Úkraínu.

Í frétt AP af fundinum kemur hins vegar fram að útlit sé fyrir að viðræðurnar hafi skilað litlum árangri, að minnsta kosti ef litið sé til skamms tíma.

Leiðtogarnir þrír ræddu við blaðamenn að loknum fundi.AP Photo/Evgeniy Maloletka

Leiðtogarnir hittust í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu, fjarri víglínunni í stríðinu, sem fer að megninu fram í austurhluta Úkraínu um þessar mundir.

Á meðal þess sem var rætt var hvort hægt væri að hafa fangaskipti á milli stríðsfanga í haldi Úkraínuhers og Rússlandshers. Þá var einnig rætt um hvort að sérfræðingar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar gætu tekið út öryggismál í Zaporizhia kjarnorkuverinu, sem er undir yfirráðum Rússa.

Erdogan hefur stillt sér upp sem eins konar tengið eða milliliður á milli Rússa og Úkraínu. Tyrkland er aðildarríki NATO en er þó háð utanríkisviðskiptum við Rússa, og segja má því að ríkið sé beggja vegna borðsins.

Eftir fundinn sagði Erdogan að hann myndi ræða það sem þar var rætt við Vladímír Pútín, Rússlandsforseta.

Selenskí og Guteress samþykktu í dag að sérfræðingar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar fengu aðgang að í Zaporizhia kjarnorkuverinu. Það er þó algjörlega háð því að Rússar samþykki að hleypa sérfræðingunum að.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.