Innlent

Tveir Bretar reyndu að smygla kókaíni til landsins

Árni Sæberg skrifar
Dómur yfir mönnunum var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag.
Dómur yfir mönnunum var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag. Vísir/Vilhelm

Tveir breskir ríkisborgarar voru dæmdir í hálfs árs fangelsi á föstudag fyrir að hafa reynt að smygla rúmlega 270 grömmum af kókaíni til Íslands.

Mennirnir komu hingað til lands 16. júní síðastliðinn með samtals 274 grömm kókaíns, með styrkleika upp á 33 til 57 prósent, innvortis. Annar var með fjórar pakkningar innvortis og hinn þrjár. Mennirnir komu með áætlunarflugi frá Manchester á Englandi.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness játuðu Bretarnir tveir brot sín skýlaust en ekkert benti þó til þess að þeir væru eigendur efnanna eða hefðu komið að skipulagningu innflutnings eða dreifingu efnanna.

Við ákvörðun refsingar var litið til játningar mannanna og þess að þeir hefðu ekki gerst uppvísir að refsiverðri háttsemi áður. Þó var einnig litið til þess að þeir hafi flutt inn umtalsvert magn fíkniefna í félagi og refsing því ákveðin sex mánaða fangelsisvist. Til frádráttar refsingar kemur gæsluvarðhaldsvist sem mennirnir hafa sætt frá komunni til landsins þann 16. júní.

Þá voru mennirnir dæmdir til að þola upptöku 274 gramma af kókaíni og að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra, 837 þúsund krónur hvor um sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×