Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík-Fram 3-1 | Öruggur sigur heima­manna

Dagur Lárusson skrifar
Frans Elvarsson kom Keflavík á bragðið í dag.
Frans Elvarsson kom Keflavík á bragðið í dag. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík hafði betur gegn Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld, lokatölur 3-1. Bæði lið voru taplaus í síðustu þremur leikjum liðanna fyrir leikinn og því bæði lið búin að vera á góðu róli en það voru Keflvíkingar sem réðu ferðinni í þessum leik.

Það var strax á þriðju mínútu leiksins þar sem þeir fengu hornspyrnu sem Adam Ægir tók og út frá þeirri hornspyrnu myndaðist mikill darraðadans í teignum sem endaði með því að Almarr Omarsson, nýjasti leikmaður Fram, skaut boltanum í Frans Elvarsson og þaðan í netið.

Eftir þetta mark tók við kafli í leiknum þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa nein opin marktækifæri. Fred átti nokkur skot fyrir utan teig fyrir Fram en fyrir utan það var lítið að gerast hjá báðum liðum.

Það var ekki fyrr en á 32. mínútu þar sem dró aftur til tíðinda en þá fengu Keflvíkingar álitlega skyndisókn sem þeir nýttu vel en þeir spiluðu sig í gegnum vörn Fram á laglegan hátt áður en Patrik Johannesen kláraði framhjá Ólafi í markinu.

Í byrjun seinni hálfleiks voru það Keflvíkingar sem voru líklegri til þess að bæta við þriðja markinu heldur en Fram að minnka muninn en Ástralinn Josep Gibbs fékk tvö mjög góð tækifæri til þess en í bæði skiptin brást honum bogalistin.

Þegar líða fór á hálfleikinn fóru sóknir Fram að þyngjast og náði Guðmundur Magnússon að minnka muninn fyrir Fram á 74. mínútu en þá átti Tiago frábæra sendingu inn á teig þar sem Guðmundur skallaði boltann í netið.

Keflavík var þó ekki lengi að svara fyrir þetta mark því aðeins fjórum mínútum seinna skoraði Ignacio eftir góðan undirbúning Dags Inga inn á teignum. Staðan orðin 3-1 og reyndust það lokatölur leiksins og Keflavík er því komið í fjórtán stig í deildinni, tveimur stigum á eftir KR í sjötta sætinu.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar nýttu sín færi virkilega vel í fyrri hálfleiknum. Það var lítið um færi í fyrri hálfleiknum en þau færu sem Keflvíkingar fengu enduðu sem mark og það gaf tóninn fyrir restina af leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Frans Elvarsson var allt í öllu hjá Keflavík. Hann skoraði fyrsta markið í leiknum og kom því liði sínu á bragðið en átti síðan einnig stoðsendinguna í öðru markinu.

Hvað fór illa?

Það eru nú engar fréttir að segja það að varnarleikur Fram var ekki upp á marga fiska.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir liðanna eru á mánudaginn eftir viku eða 11.júlí en þá tekur Fram á móti FH í Úlfarsárdal á meðan Keflavík fer í heimsókn til Vals.

Sigurður Ragnar: Ég get ekki kvartað

Sigurður Ragnar er þjálfari Keflavíkur.Vísir/Vilhelm

„Já ég er ánægður með byrjunina á leiknum en líka ánægður með heildar frammistöðuna hjá mínu liði í leiknum,“ byrjaði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, að segja eftir leik.

„Þetta er sterkur sigur gegn öflugu liði Fram sem hefur staðið sig vel í sumar og spilað vel og er með öflugt sóknarlið. Þeir hafa skorað í leikjum sínum í sumar og eru skeinuhættir en við réðum vel við þá og ég er mjög ánægður með það,“ hélt Sigurður áfram að segja.

Keflavík hefur nú náð tíu stigum í síðustu fjórum leikjum liðsins.

„Ég get allaveganna ekki kvartað yfir þessum árangri eftir heldur erfiða byrjun á mótinu en við höfum aldeilis náð að bæta okkur og vonandi heldur það áfram því mótið er í raun bara rétt að byrja, maður er ennþá að venjast því.“

Sigurður var síðan spurður út í möguleg félagsskipti í sumar glugganum en hann vildi lítið tjá sig um það.

„Þetta er viðkvæm spurning og svo sem ekki mikið sem ég get sagt. Við erum að athuga hvað við getum gert, við auðvitað erum að missa Ivan og Joey og því er það alveg möguleiki að við gerum eitthvað,“ endaði Sigurður á að segja.

Jón Sveinsson: Erfitt að byrja í brekku

Jón Þórir Sveinsson (með derhúfuna) var ekki sáttur í leikslok.Vísir/Diego

„Þú getur í raun kallað þetta hvað sem er en við fengum á okkur mark úr föstu leikatriði þar sem boltinn skoppaði tvisvar sinnum í teignum áður en þeir komu boltanum inn,“ byrjaði Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, að segja eftir leik.

„Auðvitað er það erfitt að byrja í brekku og mér fannst þetta mark í byrjun gefa þeim smá blóð á tennurnar og við vissum að við þyrftum að hafa fyrir hlutunum hérna í dag en því miður var Keflavík einfaldlega yfir í baráttunni,“ hélt Jón Þórir áfram.

Jón Þórir var síðan spurður út í markið sem var dæmt af vegna rangstöðu sem Indriði Áki skoraði á 58. mínútu.

„Það er mjög erfitt fyrir mig að segja en Indriði tók auðvitað hlaupið þarna úr djúpinu en við verðum í rauninni bara að treysta aðstoðardómaranum, hann er í bestu stöðunni til þess að sjá þetta.“

Þriðja mark Keflavíkur kom aðeins fjórum mínútum eftir mark Fram en Jón viðurkennir að liðið hans hefur átt í erfiðleikum með föst leikatriði í sumar.

„Já aftur fáum við mark á okkur úr föstu leikatriði og það hefur kannski svolítið verið það sem hefur háð okkur í sumar og eitthvað sem við erum ekki að verjast nógu vel. En annars fannst mér við vera undir í þessum leik, leikmenn þeirra voru sterkari, börðust meira og hlupu meira og þeir áttu þetta skilið,“ endaði Jón á að segja.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira