Umfjöllun og viðtöl: Sel­foss - Kefla­vík 0-0 | Selfyssingar misstu toppsætið

Sindri Már Fannarsson skrifar
Selfyssingar hafa ekki enn tapað leik.
Selfyssingar hafa ekki enn tapað leik. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss og Keflavík gerðu markalaust jafntefli á JÁVERK-vellinum í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Fyrir leik var Selfoss á toppi deildarinnar með 10 stig en Keflavík í því sjöunda með 6.

Selfoss fór mun betur af stað og stjórnuðu leiknum allan fyrri hálfleikinn. Leikmenn Selfoss fengu fjölda færa og hvorki meira né minna en 10 hornspyrnur á fyrstu 45 mínútum leiksins. Besta færi fyrri hálfleiks kom þegar Brenna Lovera, leikmaður Selfoss, fékk stungusendingu inn á teiginn, fór framhjá Samönthu Murphy í marki Keflavíkur en skaut svo framhjá. Dröfn Einarsdóttir, leikmaður Keflavíkur, fékk gult spjald fyrir groddalega tæklingu á Bergrósu Ásgeirsdóttur eftir um hálftíma leik og hún virtist slasa sjálfa sig meira en Bergrósu í tæklingunni, því hún þurfti að fara af velli nokkrum mínútum síðar. Annars var fyrri hálfleikur nokkuð tíðindalítill, Selfoss með yfirhöndina.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn mun betur, Barbára Sól Gísladóttir átti skot í slánna fyrir opnu marki. Keflavík kom sér samt hægt aðeins betur inn í leikinn. Eftir klukkutíma leik kom stærsta vafaatriði leiksins, þar sem Susanna Joy, leikmaður Selfoss, virtist handleika boltann inni í eigin teig. Vigdís Lilja, leikmaður Keflavíkur, kom með hörkutæklingu á vítateigslínunni og við tók klafs í teignum. Það leit út fyrir að Susanna hefði haldið að dómarinn hefði flautað á aukaspyrnu, því hún virtist beygja sig niður og grípa um boltann með báðum höndum. Við tóku hávær mótmæli frá leikmönnum og þjálfarateymi Keflavíkur en Helgi Ólafsson dómari lét það ekki á sig fá, baðaði út höndum og lét leik halda áfram. Síðasti hálftíminn var að mestu tíðindalítill, Selfoss tókst einfaldlega ekki að skapa sér nein dauðafæri.

Af hverju var jafntefli?

Varnarleikur Keflavíkur skilaði þeim stigi. Vörnin var skipulögð og þær stóðu sig mjög vel. Það á bæði við um varnarlínu sem og markmann. Leikurinn hefði svosem getað dottið öðru hvoru megin, hefði verið dæmd vítaspyrna öðru megin eða hefðu dauðafærin í fyrri hálfleik verið nýtt hinu megin.

Hverjar stóðu upp úr?

Varnarmenn Keflavíkur sköruðu fram úr í kvöld. Caroline og Elín Helena stóðu sig gríðarlega vel í vörninni sem og Samantha í markinu. Varnarmenn gerðu vel til þess að minnka hættur færa, koma sér fyrir skot og skalla burt úr hornum.

Hvað gekk illa?

Færanýting Selfoss var ekki upp á sitt besta. Selfosskonur gerðu vel til þess að koma sér í fjölda færa en það datt ekkert inn. Slöpp skot og síðustu sendingar sem hefðu mátt fara betur og leikurinn hefði endað á allt annan hátt.

Hvað gerist næst?

Selfoss kíkir í Garðabæinn á Stjörnuna á mánudaginn og Keflavík tekur á móti Þrótti Reykjavík sama kvöld. Selfoss er nú einu stigi á eftir Val sem sitja á toppi deildarinnar en Keflavík er með sjö stig um miðja deild.

Gunnar Magnús: „Það er alveg með ólíkindum að við skulum ekki fá víti“

Gunnar Magnús, þjálfari Keflavíkur.vísir/vilhelm



Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með frammistöðu síns liðs í kvöld.

„Ég get ekki verið annað en með frammistöðuna í dag, sérstaklega í seinni hálfleik. Þær lágu fullmikið á okkur í fyrri hálfleiknum og við vorum lítið að skapa okkur fram á við. En við náðum að breika miklu betur á þær í seinni hálfleik og við sköpuðum okkur mjög góð færi. En við vorum að spila á móti góðu liði og við náðum að verjast vel og ég er bara mjög sáttur með að fara á erfiðan útivöll og ná einu stigi.“

Hann var þó ekki ánægður með dómgæsluna.

„Þetta er alveg með ólíkindum, (Susanna) grípur boltann. Við erum búin að skoða þetta í sjónvarpinu aftur. Hún hreinlega, hún grípur boltann. Og við spyrjum (dómarann) um ástæðu eftir leik og hann segir að þetta sé ekki refsivert. Þannig að það er alveg með ólíkindum að við skulum ekki fá víti.. ..Við spyrjum af hverju hann dæmir ekki og hann segir að þetta sé ekki refsivert. Sem er náttúrulega alveg með ólíkindum. Það er þá frekar hægt að segja það eins og er, ef hann hefur ekki séð þetta eða hvort þetta sé bara það að hann bara vildi ekki gefa okkur víti,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Vísi eftir leik.

Björn: „Þeir voru náttúrulega bara öskrandi og vælandi á bekknum allan leikinn“

Björn Sigurbjörnsson þjálfar Selfoss í dag.Petter Arvidson/BILDBYRÅN

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, var ekki sammála kollega sínum.

„(Þjálfarateymi Keflavíkur) var náttúrulega bara öskrandi og vælandi á bekknum allan leikinn, þannig að ég skil dómarana bara vel að nenna ekki að hlusta á þá. En (Vigdís Lilja) kemur náttúrulega vaðandi með takkana á undan sér inn í tæklinguna í fyrsta lagi, keflvíski leikmaðurinn, og það á náttúrulega bara að flauta á það. En ég veit það ekki, ég ætla ekki að tjá mig um þetta. Mér finnst bara ótrúlega leiðinlegt að hlusta á þá á bekknum hinum megin.“

Hann var þó sáttur með frammistöðu síns liðs þrátt fyrir að ná ekki að nýta færi.

„Mér fannst við spila bara mjög góðan fótbolta. Það vantar aðeins uppá herslumuninn í lokaþriðjunginum. Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera bara eitt af því besta sem ég hef séð frá liðinu mínu. Seinni hálfleikurinn, þá hleypum við þeim kannski örlítið inní þetta. Ég man ekki eftir því að þær hafi tekið margar sendingar á milli sín, örugglega aldrei fleiri en tvær til þrjár í öllum leiknum. Enda kannski vilja þær það ekki, ég veit það ekki. En bara frábær leikur frá mínu liði,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við Vísi eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira