Enski boltinn

Guardiola segir að City verði að aðlagast Haaland en ekki öfugt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Borussia Dortmund kveðja Erling Haaland í lokaleiknum hans með liðinu.
Leikmenn Borussia Dortmund kveðja Erling Haaland í lokaleiknum hans með liðinu. Getty/Alexandre Simoes

Það verður erfitt fyrir önnur stórlið heims að toppa kaup Manchester City á Erling Braut Haaland, einum mest spennandi unga framherja heims. Knattspyrnustjórinn Pep Guaridola ætlar að gera allt í sínu valdi til að hjálpa Norðmanninum að aðlagast hlutnum hjá liðinu.

Nú lítur út fyrir að Guaridola sé tilbúinn að breyta leikstíl City-liðsins til að ná því besta fram í Haaland.

„Við munum gera allt sem við getum til að aðlagast að leikstíl Erlings. Ef hann þarf að aðlagast okkar leikstíl þá fáum við mögulega ekki fram öllum hans hæfileikum. Við verðum því að aðlagast honum,“ sagði Pep Guardiola í viðtali við Premier League Productions.

Haaland skoraði 86 mörk í 89 leikjum með Borussia Dortmund í öllum keppnum þar af 15 mörk í 13 leikjum í Meistaradeildinni.

Það voru flest stórlið Evrópu á eftir undirskrift Norðmannsins sem er aðeins 21 árs gamall en hefur þegar sannað sig sem mikil markavél bæði í þýsku deildinni og Meistaradeildinni.

„Allt sem við viljum er að leikmennirnir sem við kaupum fái að njóta sína hjá okkur, bæði innan sem utan vallar. Ef hann lendir í mótlæti þá munum við styðja við bakið á honum. Það mikilvægast er að hann blómstri hjá okkur. Ég býst við engu nema að hann njóti sín hjá okkur,“ sagði Guardiola.

Það verður talsverð breyting á liði City við komu Haaland sem er eins mikil nía og þær gerast en Guardiola er þekktur fyrir að leysa framherjastöðuna með falskri níu eða nýta sér kantmenn eða sókndjarfa miðjumenn til að sinna störfum fremsta manns.

Nú getur Pep aftur á móti stillt upp markaskorara af guðs náð í kringum alla hröðu og léttleikandi leikmenn liðsins. Ógnvænleg tilhugsun fyrir flest önnur lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×