Erlent

Tveimur árum eftir að geimskotið misheppnaðist á að reyna aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Starliner-geimfarið sem skjóta á til geimstöðvarinnar á fimmtudaginn.
Starliner-geimfarið sem skjóta á til geimstöðvarinnar á fimmtudaginn. NASA/Frank Michaux

Geimvísindamenn NASA og Boeing stefna á að skjóta Starliner-geimfari til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á fimmtudaginn. Þróun geimfarsins hefur tafist nokkuð en síðasta geimskot Starliner, árið 2019, misheppnaðist.

Nú á að reyna aftur og mun geimfarið bera birgðir til geimfaranna sem eru í geimstöðinni. Eini farþeginn verður Rosie, gína NASA, sem búin er fjölmörgum skynjurum en Rosie á að varpa ljósi á það hvernig geimskot um borð í Starliner færi með raunverulegt fólk.

Starliner, sem verður skotið á loft með V-eldflaug United Launch Alliance og á að fara á braut um jörðu og tengjast svo geimstöðinni. Fimm til tíu dögum seinna verður geimfarið sent aftur til jarðar og á það að lenda í Bandaríkjunum.

Heppnist geimskotið vel yrði næsta skrefið að skjóta mönnum til geimstöðvarinnar með Starliner. Samkvæmt upplýsingum á vef NASA verður ákvörðun um það tekin í kjölfar þess að geimfarið lendir aftur á jörðinni.

Langar tafir

Til stóð að skjóta Starliner til geimstöðvarinnar í desember 2019. Því var skotið á loft en geimfarið komst aldrei á rétta sporbraut. Var það vegna þess að innri klukka geimfarsins var ekki í samræmi við klukku Atlas V-eldflaugarinnar sem notuð var til að skjóta Starliner á loft. Þá var Rosie einnig um borð.

Síðan þá hefur öðru geimskotinu ítrekað verið frestað.

Sjá einnig: Geimskoti Starliner frestað þrisvar sinnum á einni viku

Í apríl átti að gera tilraun með nýja Space Launch System, nýja eldflaug NASA, (SLS) og átti að senda ómannað Orion-geimfar á braut um tunglið og til baka. Því hefur þó ítrekað verið frestað og nú síðast í apríl eftir að æfing sem átti að líkja eftir aðdraganda raunverulegs geimskot misheppnaðist.

Sjá einnig: Hættu æfingu fyrir tunglferð vegna bilunar

Enn liggur ekki fyrir hvenær stendur til að reyna næst. Leki kom á eldflaugina í apríl og á það að hafa verið lagað, samkvæmt stöðuuppfærslu NASA í síðustu viku. SLS á að vera burðarliður í Artemis-áætluninni svokölluðu.

Artemis-áætlunin gengur út á að koma mönnum aftur til tunglsins á þessum áratug. Árið 2024 stendur til að senda menn hring um tunglið og svo eiga aðrir að lenda þar árið 2025. Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.

Ræktuðu plöntur í tunglryki í fyrsta sinn

Því tengt, þá tilkynntu vísindamenn NASA í síðustu viku að þeim hefði í fyrsta sinn tekist að rækta plöntur í jarðvegi frá tunglinu. Jarðvegur þessi kallast yfirleitt tunglryk og var það flutt til jarðarinnar af geimförum Apollo-áætlunarinnar á árum áður. Nú fimmtíu árum síðar stendur til að senda geimfara aftur til tunglsins og koma þar fyrir varanlegri bækistöð, þar sem einnig þarf að rækta matjurtir.

Tunglryk er mjög næringasnauður jarðvegur en vísindamennirnir notuðust við lítið magn tunglryks frá Apollo ellefu, tólf og sautján. Fræjum var komið fyrir í rykinu og var næringarríkum vökva bætt við á hverjum degi.

Tveimur dögum síðar spíruðu fræin og plönturnar stækkuðu. Eftir um sex daga kom þó í ljós að heilsa þeirra var ekki frábær. Sumar þeirra uxu hægar og verr.

Þrátt fyrir það þykir tilraunin mikill áfangi í þeirri vinnu að gera geimförum framtíðarinnar kleift að rækta eigin matjurtir á tunglinu og jafnvel á mars.


Tengdar fréttir

Minnsta reikistjarnan fannst á braut um nágranna okkar

Stjörnufræðingar hafa fundið þriðju reikistjörnuna á braut um einn af okkar nálægustu grönnum. Reikistjarnan fannst á braut um rauða dverginn Proxima Centauri, sem er einnig þekkt sem Alpha Centauri C, og tilheyrir þriggja stjörnu sólkerfi sem er það næsta okkar eigin sólkerfi.

Vilja herma eftir björnum og leggja geimfara í dvala

Vísindamenn Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) leita nú leiða til að setja geimfara framtíðarinnar í dvala, ekki ósvipað því sem bjarndýr gera á veturna. Þannig væri hægt að spara gífurlega mikið magn matar, vatns og annarra birgða sem eru mönnum nauðsynlegar.

Vilja koma kvikmyndaveri út í geim á næstu árum

Forsvarsmenn breska fyrirtækisins Space Entertainment Enterprise hafa tilkynnt áætlanir um að framleiða nýja viðbót við Alþjóðlegu geimstöðina. Þessa viðbót á að skjóta út í geim og nota sem sérstakt kvikmyndatökuver.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×