Fótbolti

Jafnt í toppslagnum í Noregi | Rosengård tók topp­sætið í Sví­þjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún og stöllur hennar eru komnar á toppinn.
Guðrún og stöllur hennar eru komnar á toppinn. Rosengård

Vålerenga og Brann gerðu 1-1 jafntefli í norsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta. Þá fór fjöldi leikja fram í sænsku úrvalsdeild kvenna þar sem alls voru sex Íslendingar í eldlínunni.

Ingibjörg Sigurðardóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir voru í byrjunarliðunum þegar Brann heimsótti Vålerenga. Heimakonur komust yfir í fyrri hálfleik en gestirnir jöfnuðu í þeim síðari. Ingibjörg spilaði allan leikinn á meðan Svava Rós var tekin af velli í hálfleik.

Liðin eru jöfn á toppi deildarinnar með 22 stig, eftir að hafa unnið fyrstu sjö leiki sína var leikur dagsins sá fyrsti þar sem þau töpuðu stigum.

Í Svíþjóð spilaði Guðrún Arnardóttir allan leikinn er meistarar Rosengård unnu 3-0 útisigur á Umea.

Amanda Andradóttir og Emelía Óskarsdóttir komu inn af bekknum er Kristianstad vann 4-1 sigur á IF Brommapojkarna. Hallbera Guðný Gísladóttir lagði upp og nældi sér í gult er lið hennar Kalmar tapaði 4-2 á útivelli fyrir Berglindi Rós Ágústsdóttur og stöllum hennar í Örebro.

Þá varð Hlín Eiríksdóttir fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar Piteå tapaði naumlega 2-1 á heimavelli fyrir Eskilstuna United. Sjálfsmarkið kom þegar aðeins fimm mínútur voru til leiksloka.

Staðan í deildinni er þannig að Rosengård er á toppnum með 17 stig eftir sjö umferðir. Piteå er í 3. sæti með 13 stig, Örebro er í 6. með 12 stig, Kristianstad í 7. með 11 stig og Kalmar í 12. sæti með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×