Innlent

Margrét sækist eftir fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Margrét Bjarnadóttir sækist eftir fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
Margrét Bjarnadóttir sækist eftir fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Mynd/Facebook

Margrét Bjarnadóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ sem fer fram þann fimmta mars næstkomandi. Margrét greinir frá framboðinu á Facebook síðu sinni.

Margrét er þrjátíu ára gömul og býr í Sjálandshverfinu ásamt kærasta og syni þeirra en sjálf er hún dóttir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og Þóru Margrétar Baldvinsdóttur. Margrét segist hvergi annars staðar vilja vera heldur en í Garðabæ þar sem hún ólst upp. 

„Í mínum huga er mikilvægt að listinn sé samsettur af fjölbreyttu fólki á öllum aldri. Það er nauðsynlegt að hafa ungt fólk á lista Sjálfstæðisflokksins sem hefur fjölbreytta sýn á samfélagið sem við búum saman í,“ segir Margrét í færslunni.

Hún segist munu leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar og leikskólamál en sjálf er hún móðir barns í leikskóla.

„Það eykur lífsgæði fjölskyldna í Garðabæ að hér séu reknir góðir leikskólar og að öll börn hafi tækifæri til að þroska hæfileika sína í félagsstarfi í bænum,“ segir Margrét og bendir sömuleiðis á að mikilvægi íþrótta- og tómstundastarfs verði seint ofmetið.

Þá eru húsnæðismál einnig ofarlega í hennar huga en hún segir mikilvægt að gera ungu fólki kleift að kaupa sér eign í Garðabæ.

„Fjölbreyttar lausnir sem mæta ólíkum þörfum kynslóðanna en ekki síst laða að unga framtíðar Garðbæinga eru lykilatriði. Það skiptir mig miklu máli að hér sé gott að búa og að við séum sveitarfélag sem tekur vel á móti ungum sem öldruðum,“ segir Margrét

„Mig langar til þess að gera Garðabæ að enn betra sveitarfélagi fyrir fjölskyldufólk og ég hef trú á því að ég eigi erindi í hóp bæjarfulltrúa í Garðabæ. Það eru spennandi tímar framundan og mörg tækifæri til þess að grípa,“ segir hún enn fremur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×