Þórsarar koma sér kyrfilega fyrir í öðru sæti

Snorri Rafn Hallsson skrifar
þór xy

Fyrri leikur liðanna fór 16-2 fyrir Þór og áttu XY því harma að hefna. Nokkrar breytingar hafa orðið á liðunum þar sem tvíeykið Pandaz og Cris úr Sögu er komnir í stað KiddaDisco og Minidegreez í XY, en Þórsarar hafa bætt Peterr, Zolo og Dabbehhh við þann kjarna sem Rean og Allee mynda í liðinu. Með nýjum leikmönnum koma nýjar áherslur og var ánægjulegt að sjá að liðin ákváðu að takast á í Inferno kortinu sem gjarnan býður upp á spennandi leiki.

XY hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists) en Þórsarar tryggðu sér tökin á leiknum í upphafi með kröftugum og hörðum sóknum á sprengjusvæði A. Í fimmtu lotu var XY 3-1 undir og einungis vopnaðir skammbyssum þegar KeliTurbo gerði sér lítið fyrir og felldi fjóra andstæðinga einn síns liðs og náði að aftengja sprengju Þórsara að því loknu. Þá voru leikmenn XY komnir í gírinn og við tók öflugur sprettur XY þar sem leikmenn liðsins beittu ýmis konar búnaði og hittu vel til að sporna við stefnulausum aðgerðum Þórsara. Háði það Þór að vera með þrjá nýja leikmenn innanborðs og áttu þeir í vandræðum með að skipuleggja aðgerðir sínar. Lifnaði þó yfir Þórsmönnum eftir elleftu lotu þegar nýliðinn Zolo skellti í fyrsta ás Ljósleiðaradeildarinnar og náðu Þórsarar að lokum að bjarga hálfleiknum í stað þess að hleypa XY of langt frá sér.

Staða í hálfleik: Þór 7 - 8 XY

Í vörninni skelltu leikmenn Þórs í lás og má segja að það hlutverk hafi hentað þessu tiltölulega nýja liði nokkuð vel. XY sýndi ekki sömu áræðni og hafði einkennt leik þeirra í fyrri hálfleik og fóru heldur hægt um kortið í leit að tækifærum. Allee stóð sig hins vegar frábærlega á vappanum og undir lok leiks var útlitið orðið svart fyrir XY í stöðunni 15-10. Þórsarar þurftu þá einungis eina sigurlotu í viðbót til að ljúka leiknum en XY gafst ekki upp svo glatt. Tókst þeim að taka þrjár lotur í röð og stefndi allt í gríðargóða endurkomu þangað til í tuttugustu og níundu lotu þegar Allee mæti framarlega á bananann með prikið á lofti og felldi að lokum fjóra leikmenn XY til að tryggja sínum mönnum sigurinn.

Lokastaða: Þór 16 - 13 XY

Staða Þórs í öðru sæti deildarinnar er því orðin traustari en áður, auk þess sem liðið hefur nú yfirhöndina í innbyrðis viðureignum sínum gegn XY. Ef fram fer sem horfir er Vallea því líklega eina liðið sem getur ógnað veru þeirra þar. Í næstu viku leikur Þór gegn Sögu á þriðjudaginn en þá tekur XY einnig á móti Dusty. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira