Innlent

Vill leiða jafnaðar­menn til sigurs á ný

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðmundur Árni Stefánsson var útnefndur sendiherra Íslands í Indlandi árið 2018 en baðst lausnar í desember.
Guðmundur Árni Stefánsson var útnefndur sendiherra Íslands í Indlandi árið 2018 en baðst lausnar í desember. vísir/vilhelm

Guð­mundur Árni Stefáns­son sendi­herra og fyrr­verandi ráð­herra sækist eftir því að leiða lista Sam­fylkingarinnar í Hafnar­firði í komandi sveitar­stjórnar­kosningum. Hann segist ekki vera í fram­boði til bæjar­stjóra á þessari stundu en hann gegndi því em­bætti fyrir rúmum þrjá­tíu árum.

Það vakti at­hygli seint í gær­kvöldi þegar Guð­mundur Árni til­kynnti um endur­komu sína í pólitík.

Hann hefur verið sendi­herra fyrir hönd Ís­lands síðustu 16 árin en segir að hann og fjöl­skyldan séu komin með nóg af flakki milli heims­horna í bili.

„Það er nú eigin­lega þannig að þó ég hafi verið al­gjör­lega frá stjórn­málum þá hef ég auð­vitað fylgst vel með. Enda eru stjórn­málin, þó það megi auð­vitað ekki nefna það í miðju Co­vid-fári, stjórn­mál og pólitík eru eins konar vírus hjá þeim sem hafa tekið þátt,“ segir Guð­mundur Árni.

Hann sat sem fé­lags­mála­ráð­herra í sam­steypu­stjórn Sjálf­stæðis­flokks og Al­þýðu­flokks frá árinu 1993 til 1994 en neyddist til að segja af sér eftir um­deilda skipan hans á mönnum í em­bætti.

Hann sat svo á þingi til ársins 2005 fyrir Al­þýðu­flokk og Sam­fylkingu.

Ekki í bæjarstjóraframboði

Áður en hann fór á þing var hann í bæjar­pólitíkinni í Hafnar­firði í 12 ár og sat sem bæjar­stjóri í sjö ár á árunum 1985 til 1991.

En sækist hann aftur eftir bæjar­stjóra­stöðunni nú tæpum þrjá­tíu árum síðar?

„Málið er alls ekki komið þangað. Og ég, svo ég taki það fram, er ekki að endurlifa forna frægð. Það er alls ekki það sem ég er að leggja upp með. Ég vil bara vera hluti af liðs­heild og leiða hér jafnaðar­menn til sigurs í kosningunum í maí. Ég er ekki fram­bjóðandi til bæjar­stjóra í augna­blikinu,“ segir Guð­mundur Árni.

Endurkoma jafnaðarmanna tímabær

Sam­fylkingar­menn halda próf­kjör eftir tæpan mánuð.

Guð­mundur vonast til að hljóta skýrt um­boð fé­lags­manna til að leiða lista flokksins.

„Ég meina ég vil sjá fylgi jafnaðar­manna að minnsta kosti tvö­faldast í kosningunum og að við förum úr tveimur mönnum í fjóra hið minnsta,“ segir Guð­mundur Árni.

Jafnaðar­menn verði þannig for­ystu­afl í bænum á nýjan leik.

„Því er ekki að neita að tölurnar tala sínu máli og Sam­fylkingin, jafnaðar­manna­flokkur Ís­lands, hefur átt betri daga. Síðustu kosningar hjá mér voru fyrir Sam­fylkinguna 2003 í þinginu og þá fengum við hér í Suð­vestur­kjör­dæmi 32 prósent at­kvæða.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.