Skoðun

Opið bréf til varaþingmanns

Einar Viðarsson skrifar

Hér eru nokkrar spurningar fyrir þig Arnar Þór Jónsson

Númer eitt:

Hvernig er það skerðing á persónufrelsi að biðja einstakling um að vera í einangrun sem hefur greinst með sjúkdóm sem getur dregið fólk til dauða? Það er sorglegt að það skuli þurfa að skikka einstaklinga sem eru með sjúkdóminn í einangrun, að fólk skuli ekki bera nægilega virðingu fyrir samborgurum að fara sjálft í einangrun er áfellisdómur yfir þeim sjálfum og þeim sem ólu þau upp.

Spurning tvö:

Grímunotkun, það skerðir ekki persónufrelsi þitt þó þú þurfir að nota grímu fyrir utan heimili þitt. Það er hægt að deila um gagnsemi þeirra endalaust en að halda því fram að þær skerði persónufrelsi þitt er satt að segja frekar kjánalegt. Fólk er skyldað til að hylja kynfæri sín á almannafæri, er það þá brot á persónufrelsi?

Spurning þrjú:

Víst að þér og þínum flokk er svona annt um persónufrelsi hvers vegna hefur flokkurinn ekki lagt fram frumvarp og gert að lögum bann um upplýsingasöfnun fyrirtækja í gegnum öpp og vefkökur? Hvernig stendur á því sem dæmi að slík fyrirbæri skuli hafa heimild til að nota snjalltækið mitt til að skanna og safna upplýsingum um önnur snjalltæki í kringum mig, þetta er ekki eitt af því sem hægt er að sleppa við. Hvar er umhyggja þín um persónufrelsi þegar kemur að þessu?

Spurning fjögur:

Hvers vegna á persónufrelsi að vega þyngra en hagsmunir allra? Frelsi einstaklinga á ekki að standa í vegi fyrir öryggi heildarinnar, ef að einstaklingur neitar að vera í einangrun eða bera grímu (nema læknisfræðilegar ástæður komi í veg fyrir slíkt) þá er það sorglegt að það þurfi að beita slíkan aðila refsandi aðgerðum en af hverju á slíkur aðili að hafa heimild til að smita mig en ég eða stjórnvöld fyrir mína hönd eiga ekki að hafa heimild til að vernda mig gagnvart því? Ef að hegðun mín stofnar öðrum í hættu þá eiga yfirvöld að geta gripið inní, annars væri það þá líka brot á mínu persónufrelsi að mega ekki keyra undir áhrifum þótt það geti stofnað hættu fyrir aðra. Og þau rök að sumar rannsóknir bendi til þess að einstaklingur smiti ekki er ekki nóg þegar líf annara er í hættu.

Spurning fimm:

Alþingi bannar nú ýmislegt sem örfáir einstaklingar misnota með þeim rökum að það sé skaðlegt ef notað í óhófi? Hvað kemur það stjórnvöldum við hvaða vímuefni einstaklingar nota svo lengi sem þeir eru ekki að skaða aðra eða sýna af sér hættulega hegðun. Hvers vegna lögsækir þú ekki stjórnvöld fyrir slíkt brot á persónufrelsi eða lagðir fram frumvarp um að setja það einstaklingum í sjálfsvald hvort þeir noti vímuefni eða ekki?

Ég mun bíða spenntur eftir svari frá þér.

Ef að yfirvöld skikka fólk í einangrun þá eiga þau að sjálfsögðu að tryggja það að viðkomandi haldi sínu starfi og tekjum ásamt auka greiðslu vegna þess kostnaðar sem bætist ofaná við það að þurfa að nota heimsendingar fyrir allar nauðsynjar og ef ekki er slík þjónustu í boði á því svæði sem viðkomandi býr á þá á hið opinbera að skaffa þá þjónustu.

Það að líkja því að vera í einangrun heima hjá sér eða hóteli við að vera í fangelsi er móðgun við öll þau sem hafa þurft að sitja saklaus í fangelsi eða vegna ósanngjarna laga.

Og að reyna að halda því fram að það gefi hættulegt fordæmi er brandari þegar þinn flokkur settur lög til að tryggja sér vafasöm kosningaúrslit, hvar er lögsókn þín þegar að því kemur? Ég skal leggja fram kæru um kosningasvik ef þú tekur að þér launalaust að vera lögmaður minn. Ef þér er raunverulega annt um persónufrelsi og lýðræði þá hlýtur það að vera siðferðileg skylda þín að koma stjórnvöldum sem brjóta gegn grunngildum lýðræðis um gegnsæi og öruggar kosningar frá völdum. Eða er það að vera varaþingmaður og álit formanns þíns mikilvægara en lýðræði og persónufrelsi?

Höfundur er borgari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.