Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - KA 25-24 | Selfyssingar á sigurbraut

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Olís deild karla vetur 2021 FH Selfoss handbolti HSÍ / ljósm. Hulda Margrét
Olís deild karla vetur 2021 FH Selfoss handbolti HSÍ / ljósm. Hulda Margrét

Þriðji leikur í tíundu umferð Olís-deildar karla fór fram í dag milli Selfoss og KA í Set höllinni á Selfossi. Lauk leiknum með naumum sigri heimamanna 25-24, eftir að KA hafði unnið sig inn í leikinn jafnt og þétt eftir að hafa verið sjö mörkum undir á kafla.

Heimamenn í Selfossi komu inn í leikinn með þrjá sigurleiki í síðustu fjórum leikjum og voru með átta stig í áttunda sæti deildarinnar, sem er síðasta lausa sætið í úrslitakeppnina. KA-menn voru hins vegar með tvo tapleiki í röð á bakinu komandi inn í þennan leik, með sex stig og sæti neðar en Selfyssingar.

Vegna stöðu liðana í deildinni var um mjög mikilvæg stig að ræða sem í boði voru fyrir liðin í dag. Talaði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í viðtali fyrir leik um „fjögurra stiga leik“. Selfoss gátu komið sér í þægilega fjarlægð frá KA og öðrum liðum í neðri hluta deildarinnar með sigri. Sama sinnis gátu Akureyringar jafnað Selfyssinga að stigum með sigri og komið sér upp fyrir þá á innbyrðis viðureign.

Selfoss hóf leikinn betur og komst í 6-2 eftir um tíu mínútna leik. Þá tók KA leikhlé enda sóknarleikur liðsins ekki að ganga sem skyldi. Fyrsta mark KA kom ekki fyrr en eftir um sjö mínútna leik. Nicholas Satchwell var að verja vel og hélt KA inn í leiknum á kafla í hálfleiknum. Selfoss fataðist aðeins flugið síðari hluta hálfleiksins og tókst KA að minnka muninn niður í eitt mark, 11-10 staðan eftir um tuttugu og fjórar mínútna leik. Óðinn Þór Ríkharðsson, leikmaður KA misnotaði víti þegar hann hefði getað jafnað leikinn á loka mínútum fyrri hálfleiks. Í staðinn fóru Selfyssingar í sókn og skoruðu. Hálfleikstölur 12-10.

Selfoss byrjaði af miklum krafti í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu þrjú mörk hans, þar með komnir í fimm marka forystu. KA tók þá leikhlé. Skilaði það ekki miklu fyrst um sinn þar sem Selfoss bætti við tveim mörkum, staðan orðin 18-11 og tuttugu og tvær mínútur eftir.

KA byrjaði þá að spila betri vörn og var Nicholas Satchwell að verja vel á bak við hana. Sama sinnis voru Selfyssingar oft að taka óagaðar ákvarðanir í sóknarleik liðsins og kom ekki mark á þeim bænum í um sjö mínútur. KA tókst á endanum að jafna leikinn þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum, staðan 21-21.

Náði Selfoss þá að skora tvö mörk í röð og voru með leikinn í hendi sér fyrir síðustu tvær mínútur leiksins. Héldu Selfyssingar út þrátt fyrir að leikmenn KA hafi lagt allt í sölurnar á lokaandartökum leiksins. Lokatölur 25-24.

Af hverju vann Selfoss?

Selfyssingar spiluðu á gífurlegum krafti á köflum sem KA-menn áttu í vandræðum með að ráða við. Selfoss náði alltaf að halda í forystu sína þrátt fyrir að liðið fór í gegnum slæman kafla í síðari hluta seinni hálfleiks.

Lélegt upphaf á báðum hálfleikjum hjá KA fór algjörlega með leikinn fyrir þá þegar upp er staðið.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðmundur Hólmar Helgason, var markahæstur heimamanna með sjö mörk og var öflugur í vörn liðsins. Hann skoraði nokkrum sinnum á mikilvægum augnablikum þegar KA sótt í sig veðrið á lokakaflanum.

Hjá KA var Óðinn Þór Ríkharðsson markahæstur að vanda og leiddi hálfpartinn uppi áhlaup sinna manna undir lok leiksins sóknarlega. Annars var Nicholas Satchwell, markvörður besti leikmaður KA í leiknum. Ef ekki hefði verið fyrir hann og hans frammistöðu hefði Selfoss farið með nokkuð sannfærandi sigur af hólmi.

Hvað gekk illa?

Upphaf beggja hálfleikja KA var það sem fór með leikinn hjá þeim. Klaufalegir tapaðir boltar í sókninni og hraðaupphlaupsmörk og seinni bylgju mörk í bakið í kjölfarið frá Selfyssingum.

Allan Norðberg átti ekki góðann dag en hann klúðraði öllum sínum þrem skotum í leiknum sem öll komu í upphafi síðari hálfleiks.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar eiga leik gegn Val í Origo höllinni næsta laugardag klukkan 16:00. Sá leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Daginn eftir fá KA-menn Gróttu í heimsókn og hefst sá leikur klukkan 18:00.

Halldór Jóhann Sigfússon: Við spiluðum frábæra vörn

„Leikurinn bar þess merki að töluvert var undir fyrir bæði lið. Bæði það að við vildum fara fram úr þeim og þeir vildu náttúrulega koma sér aftur inn í þennan pakka með okkur.“

Halldóri Jóhanni Sigfússyni, þjálfara Selfyssinga fannst varnarleikur liðsins vera frábær og gera liðinu kleift að vinna leikinn.

„Við spiluðum frábæra vörn. Það er raun og veru bara þegar þeir fara í sjö á sex að þeir gera það vel og við gleymum okkur svolítið. Óðinn (Þór Ríkharðsson) er að fá færi í horninu og svo á sama tíma erum við of hægir sóknarlega. Förum að drippla og gleymum því að vinna í breiddinni og leikurinn verður þá “tight” aftur og hefði getað farið í báðar áttir í raun og veru.“

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss talaði um að lið sitt þurfti að fara í naflaskoðun eftir tap liðsins gegn ÍBV fyrir viku. Liðið hefur síðan þá sigrað tvo leiki í röð.

„Við fórum yfir svona ákveðin mál og ræddum það auðvitað. Við vitum það líka að þetta er langhlaup en við þurftum að ná vopnum okkar aftur og vera með ákveðna hluti miklu betur á hreinu. Mér finnst við búnir að vera með það á hreinu í síðustu tveimur leikjum. Síðasti leikur var að mörgu leyti mjög góður. Stór kafli í þessum leik var mjög góður og báðir leikir vorum við sterkir varnarlega. Það er það sem við vildum ná fram og sóknarleikurinn kemur smá með tímanum þegar menn eru búnir að fá aðeins að spila sig saman og inn í liðið. Gríðarlega ánægður með þessi fjögur stig út úr þessum tveimur leikjum og í svona hörku leik að klára þetta með einu marki og vera komnir með tíu stig.“

Næsti leikur Selfoss er gegn Val. Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss hafði þetta að segja fyrir þann leik.

„Mjög spenntur eins og fyrir alla leiki. Frábært Valslið. Mjög margir gífurlega hæfileikaríkir leikmenn sem eru að spila þar núna í þeirra meiðslum. Við þurfum bara að búa okkur undir það og gera okkar hluti vel. Ef við gerum það þá er svo sem allt mögulegt. Það hafa þó svo sem ekki mörg lið farið á Hlíðarenda og náð í stig eða sigur.“

Jónatan Magnússon: Við fórum því miður ekki eftir því sem við ætluðum að gera

KA tapaði í kvöld þriðja leik sínum í röð í Olís-deildar karla í handbolta eftir eins marks tap á Selfossi 25-24. Situr liðið í tíunda sæti deildarinnar eftir úrslit dagsins. Miðað við leikmannakaup sumarsins og markmið KA fyrir tímabilið eru það vonbrigði að vera rétt fyrir ofan fallsæti þegar deildin er u.þ.b. hálfnuð.

Jónatan Magnússon, þjálfari KA var niðurlútur þegar hann mætti í viðtal eftir leik.

„Við fórum illa inn í seinni hálfleik sérstaklega þar sem að maður er svona mest fúll yfir. Við fórum því miður ekki eftir því sem við ætluðum að gera sem við ræddum saman í hálfleik. Vera agaðri og bíða lengur. Við settum okkur í vonda stöðu á raun fyrstu þrem mínútum í byrjun seinni. Það var svona barátta eftir það að reyna að ná þeim en svo tókst það með frábærri vörn og markvörslu. Náðum þá að koma okkur inn í leikinn en svo ekkert ósvipað og úr síðasta leik, því miður, það eru fjórar mínútur eftir og við vinnum boltann og staðan er jöfn og við förum illa að ráði okkar. Það er það sem er vendipunkturinn. Við erum ekki að ná að spila nógu vel til þess að ná í stig.“

KA mætir Gróttu í næsta leik sem er orðinn risa leikur fyrir bæði lið eftir úrslit dagsins í Olís-deildinni. Grótta getur í raun skilið KA eftir í neðri hluta deildarinnar með sigri í þeim leik. Jónatan Magnússon, þjálfari KA ætlar að undirbúa lið sitt mjög vel fyrir þann leik.

„Eins vel og við getum. Við undirbjuggum okkur mjög vel fyrir þennan leik sem við héldum að við værum með lausnirnar. Við vorum nálægt því þannig að við þurfum að undirbúa okkur en þá betur fyrir næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira