Erlent

Minnst þrír hafi fallið í valda­ráni súdanska hersins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hundruð ef ekki þúsundir Súdana hafa leitað á götur út til að mótmæla valdaráni hersins sem framið var í morgun. Minnst þrír hafa fallið og áttatíu særst samkvæmt upplýsingum frá Samtökum súdanskra lækna.
Hundruð ef ekki þúsundir Súdana hafa leitað á götur út til að mótmæla valdaráni hersins sem framið var í morgun. Minnst þrír hafa fallið og áttatíu særst samkvæmt upplýsingum frá Samtökum súdanskra lækna. AP Photo/Ashraf Idris

Súdanski herinn hefur tekið völd í landinu og handtekið ráðherra. Mikil átök hafa verið milli hersins og mótmælenda og talið að minnst þrír hafi fallið í óeirðum í dag. Minnst áttatíu eru særðir eftir átök dagsins.

Þetta kemur fram í umfjöllun Reuters um valdaránið. Samband lækna í Súdan birti færslu á Facebook í dag þar sem fram kemur að minnst þrír hafi fallið eftir að hafa verið skotnir í átökum við herinn. Þá hafi minnst áttatíu særst í átökunum.

Greint var frá því í morgun að nokkrir ráðherrar úr bráðabirgðastjórn Súdans hafi verið handteknir á heimilum sínum í nótt. Forsætisráðherrann Abdallah Hamdok er meðal hinna handteknu og fjórir ráðherrar til viðbótar hið minnsta. Bráðabirgðastjórnin var sett á laggirnar til að koma á lýðræði í landinu eftir að Omar al-Bashir var steypt af stóli eftir áratuga setu á valdastóli fyrir tveimur árum síðan.

Abdel Fattah al-Burhan, herforingi og formaður ráðs sem herinn og almenningur áttu sæti í, lýsti í morgun yfir neyðarástandi í landinu og hvatti herinn til að tryggja öryggi landsmanna. Fregnir hafa borist af því að fulltrúar almennings í ráðinu sem al-Burhan fer fyrir hafi verið handteknir.

„Við lofum því að herinn mun standa við að koma á lýðræði í landinu og að almenningur muni fá að kjósa í ríkisstjórn,“ sagði hann og boðaði kosningar í júlí 2023.

Hamdok forsætisráðherra er haldið ásamt nokkrum ráðherra sinna á óþekktum stað en hann er sagður neita að gefa út yfirlýsingu um stuðning við herinn. Þetta sagði í tilkynningu frá upplýsingaráðuneyti landsins sem virðist enn undir stjórn stuðningsmanna Hamdoks.

Ráðuneytið kallaði yfirlýsingu al-Burhans merki um valdarán hersins og kallaði eftir að almenningur streitist á móti. Tugir þúsunda hafa í dag leitað á götur út og mótmælt hernum en þeim mætt kúlnahríð, að minnsta kosti í höfuðborginni Khartoum. Í borginni Omdurman hafa mótmælendur sett upp vegatálma og kalla þeir nú eftir því að almenningur fái að stjórna landinu, í fyrsta sinn í áratugi.

Fréttin var uppfærð með nýjum tölum frá Sambandi súdanskra lækna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×