Fótbolti

Mourinho og Spalletti sáu rautt í markalausu jafntefli Roma og Napoli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Fór vel á með þeim félögum fyrir leik.
Fór vel á með þeim félögum fyrir leik. vísir/Getty

Fullkomin byrjun Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta tók enda í dag þegar liðið heimsótti lærisveina Jose Mourinho í Roma.

Rómverjar töpuðu á niðurlægjandi hátt fyrir norsku meisturunum í Bodo/Glimt í Sambandsdeild Evrópu í vikunni en náðu að hrista af sér slenið fyrir leik dagsins.

Napoli var með fullt hús stiga eftir átta fyrstu umferðirnar þegar kom að leik dagsins.

Ekkert mark var skorað í leiknum en það vantaði þó ekki hasarinn þar sem dómari leiksins hafði í nógu að snúast frá fyrstu mínútu leiksins til þeirrar síðustu.

Jose Mourinho fékk til að mynda að líta gula spjaldið eftir nítján mínútna leik og á 81.mínútu fékk hann að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Luciano Spalletti, stjóri Napoli, var ekki mikið ánægðari en kollegi sinn með störf dómaranna og fékk að líta beint rautt spjald í leikslok.

Napoli áfram á toppi deildarinnar, nú jafnir AC Milan að stigum en Roma er í 4.sæti, níu stigum frá toppnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.