Erlent

Stjórn­völd í Litháen hvetja lands­menn til að farga kín­verskum sím­um

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrirtækin segja ekkert hæft í ásökunum litháskra stjórnvalda.
Fyrirtækin segja ekkert hæft í ásökunum litháskra stjórnvalda. epa/Alex Plavevski

Stjórnvöld í Litháen hafa ráðlagt landsmönnum að farga kínverskum símtækjum og kaupa ekki nýja síma frá kínverskum framleiðendum. 

Varnarmálaráðuneyti landsins heldur því meðal annars fram að öryggisgallar séu í sumum símtækjanna og sjálfvirkur ritskoðunarbúnaður í öðrum.

Samkvæmt skýrslu öryggismálastofnunar Litháen fannst ritskoðunarbúnaður á vinsælasta síma fyrirtækisins Xiaomi, sem nam meðal annars og eyddi texta á borð við „Frelsið Tíbet“, „Lengi lifi sjálfstætt Taívan“ og „lýðræðishreyfing“.

Alls var búnaðurinn sagður ritskoða að minnsta kosti 449 orðasambönd þegar þau voru notuð í ýmsum smáforritum, til dæmis vefvafra símans. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa hins vegar neitað því að notkun eða samskipti séu ritskoðuð.

Samkvæmt skýrslunni senda símtækin einnig dulkóðuð gögn til Singapúr.

Í skýrslunni er einnig fjallað um Huawei P40, sem er sagður með innbyggðan öryggisgalla. Þannig beini smáforritaverslun símans notendum á verslanir þriðja aðila, sem séu óöruggar og dreifi mögulega vírusum og öðrum óæskilegum snjallforritum.

Talsmenn Huawei segjast fara að landslögum alls staðar í heiminum og þá virki smáforritaverslun símans líkt og á öðrum símum.

Spenna hefur aukist í samskiptum Kína og Litháen síðustu misseri en í síðasta mánuði fóru kínversk stjórnvöld fram á að Litháen kallaði sendiherra sinn í Peking heim og sögðust ætla að leggja niður sendiráðsstöðuna í Vilníus.

Deilurnar hófust fyrir alvöru þegar stjórnvöld í Taívan tilkynntu að þau hygðust kenna sendiskrifstofu sína í Litáhen við Taívan en ekki Taipei, líkt og gert er í öðrum Evrópuríkjum.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×