Handbolti

Stelpurnar hans Þóris byrja ÓL í Tókýó með tveimur stórsigrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar hafa ekki lent í miklum vandræðum í fyrstu tveimur leikjunum sínum á Ólympíuleikunum í ár.
Norsku stelpurnar hafa ekki lent í miklum vandræðum í fyrstu tveimur leikjunum sínum á Ólympíuleikunum í ár. AP/Pavel Golovkin

Evrópumeistarar Noregs í handbolta kvenna unnu í dag níu marka sigur á Afríkumeisturum Angóla í öðrum leik liðanna á leikunum, 30-21, eftir að hafa verið 15-10 yfir í hálfleik.

Sanna Solberg-Isaksen var markahæst í norska liðinu með sjö mörk en þær Veronica Kristiansen og Nora Mörk skoruðu sex mörk.

Þóris Hergeirsson gerði norska liðið að Evrópumeisturum í desember og liðið lítur vel út í upphafi Ólympíuleikanna.

Norska liðið hafði unnið tólf marka sigur á Suður Kóreu í fyrsta leiknum og er með fullt hús í riðlinum eins og Holland sem vann sjö marka sigur á Suður Kóreu í dag, 43-36.

Sænsku stelpurnar eru einnig með fullt hús í hinum riðlinum eftir 36-24 sigur á Rússum í dag.

Norsku stelpurnar voru svolítið seinar í gang og 6-5 undir þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður.

Norska liðið vann hins vegar seinni helmning hálfleiksins, 10-4 og var því fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10. Veronica Kristiansen og Nora Mörk voru báðar með fjögur mörk í fyrri hálfleiknum.

Norska liðið náði ekki alveg að hrista af sér þær angólsku framan af í seinni hálfleiknum en héldu þó öruggri forystu. Katrine Lunde var frábær í norska markinu og að lokum keyrðu þær norsku yfir mótherja sína.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.