Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Tinda­stóll 1-0 | Heima­stúlkur höfðu betur í ný­liða­slagnum

Atli Arason skrifar
Keflvíkingar eru að klifra upp töfluna
Keflvíkingar eru að klifra upp töfluna Hulda Margrét Óladóttir

Botnlið Tindastóls hefur tapað fimm leikjum í röð en Keflavík er í fínum málum eftir tvo sigurleiki í röð.

Leikur liðanna fór mjög svo rólega af stað. Bæði lið voru afar varkár og settu augljóslega mikla áherslu á að gefa fá færi af sér. Fyrsta marktilraunin kom ekki fyrr en á 18 mínútu leiksins þegar Aerial Chavarin nær að leika á varnarmenn Tindastóls en marktilraun Aerial fer í utanvert hliðarnetið á marki Tindastóls. Á 35 mínútu á Amber Michel, markvörður Tindastóls, flotta markvörslu frá Kristrúnu Holm sem skaut á markið af stuttu færi eftir langt innkast frá Aerial Chavarin. Jacqueline Altschuld átti tvær hættulegustu marktilraunir Tindastóls í fyrri hálfleiknum úr langskotum en Tiffany Sornpao, markvörður Keflavíkur sá við Jacqueline. Hvorugu liðinu tókst þó að skora og markalaus fyrri hálfleikur varð niðurstaðan.

Þegar seinni hálfleikur var ekki nema rúmlega fimm mínútna gamall berst boltinn inn á vítateig Tindastóls. Keflavík á þar hátt í þrjú skot að marki sem allt er varið af annaðhvort Amber í markinu eða varnarmönnum gestanna á marklínu. Knötturinn berst að lokum til Kristrúnar Holm sem nær að pota boltanum yfir línuna og staðan orðinn 1-0 fyrir Keflavík. Eftir markið tók Keflavík öll völd á leiknum og átti fleiri marktilraunir en Amber Michel var stórkostleg í marki gestanna. Á síðasta hálftímanum átti Amber a.m.k. fimm frábærar markvörslur þar á meðal tvöfalda markvörslu frá Dröfn Einars og Aerial Chavarin á 65. mínútu. Gestirnir geta þakkað Amber fyrir það að tapið í Keflavík var ekki stærra en raun bar vitni. Undir lok leiksins fékk Aldís Jóhannsdóttir sitt seinna gula spjald og þar með rautt fyrir að vera allt of sein í tæklingu. Stuttu seinna flautar Andri Stefánsson til leiksloka og Keflavík fær stigin þrjú á meðan Tindastóll er áfram á botni deildarinnar.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík átti fleiri hættulegar sóknir í dag á meðan Tindastóll ógnaði aðallega úr langskotum. Í raun og veru hefði Keflavík átt að skora mun fleiri mörk í dag ef það hefði ekki verið fyrir góðan leik Amber Michel í marki Tindastóls.

Hverjar stóðu upp úr?

Það er varla hægt að undirstrika það nógu mikið hvað Amber Kristin Michel var ótrúlega góð í dag. Þrátt fyrir að vera markvörður í tapliði þá sá hún til þess að tapið yrði ekki stórt. Aerial Chavarin var mjög flott í liði Keflavíkur en hún var alltaf ógnandi í framlínu Keflavíkur með styrk sínum og boltatækni. Aerial var helsta ógn Keflavíkur sem fáir í liði Tindastóls, að Amber undanskildi, réðu við.

Hvað gerist næst?

Í næstu umferð fær Tindastóll topplið Selfoss í heimsókn á Sauðárkrók á miðvikudaginn. Degi fyrr fer Keflavík á Hlíðarenda til að etja kappi við Valskonur.

„Hún er að mínu mati einn besti markvörður deildarinnar“

Óskar Smári Haraldsson og Guðni Þór Einarsson, þjálfarar Tindastóls.vísir/Sigurjón

Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, var afar svekktur með tapið í dag.

„Það er hundfúllt að tapa. Eftir fyrri hálfleikinn þá fannst mér eins og við vorum með stjórn á leiknum. Það er súrt að fá þetta mark á sig snemma í seinni hálfleik og við náum einhvernvegin ekki að svara því.“

„Við vildum fara varkárar inn í leikinn. Við vildum helst bara setja boltann yfir þær og þrýsta þeim aftar á völlinn. Við ætluðum að verjast vel og sækja hratt. Mér fannst við gera það mjög vel og sérstaklega í lok fyrri hálfleiks, þá fengum við sjálfstraust í okkur og við vorum að opna þær með góðum spilköflum og fyrirgjöfum með álitslegum sóknum en einhvernvegin náum við ekki að reka loka höggið á þetta.“

„Við spiluðum alveg ágætis fótbolta. Ég var nokkuð ánægður með fyrri hálfleikinn, við erum hins vegar ekki að koma okkur í þessi færi sem við viljum koma okkur í. Þær ná að loka vel á sóknarleikinn okkar en við vörðumst vel framan af og Amber var ótrúleg í markinu. Keflavík nær samt ekki að opna okkur neitt mikið fyrr en alveg í lokin,“ sagði Guðni í viðtali eftir leik.

Eins og komið var að hér að ofan var Amber mjög flott í marki Tindastóls í dag. Guðni er viss um að hann hafi einn besta markvörð á landinu í sínu liði.

„Hún var frábær í dag og er frábær markvörður. Ég hef sagt það áður að hún er að mínu mati einn besti markvörður deildarinnar. Mikil happafengur að hafa hana.“

Sylvía Birgisdóttir fékk þungt höfuðhögg í fyrri hálfleik þegar liðsfélagi hennar þrumaði boltanum í höfuðið á Sylvíu af stuttu færi með þeim afleiðingum að Sylvía lág óvíg eftir á grasinu. Sylvía kláraði þó fyrri hálfleikinn en var síðan skipt út af fyrir Murielle Tiernan í hálfleik. Aðspurður segir Guðni að Sylvíu heilsist vel.

„Staðan á henni er góð. Hún hefði vissulega getað haldið leik áfram en Murielle var tilbúinn á bekknum og við vildum setja hana inn á og við færðum þá Hugrúnu í hægri vængbakvarðar stöðuna og hraðinn hennar nýttist vel þar en það er í lagi með Sylvíu,“ svaraði Guðni.

„Eitt mark dugaði í dag“

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkurvísir/vilhelm

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var kátur yfir því að hafa sótt fyrsta sigurinn á heimavelli í sumar.

„Fyrst og fremst gleði og hamingja að ná í þrjú stig hérna á heimavelli. Þetta hefur verið erfitt í sumar og þetta er fyrsti sigurinn hérna heima á móti skipulögðu og sterku liði Tindastóls. Þetta er lið sem erfitt er að brjóta á bak aftur. Við áttum í erfiðleikum með þær og við gerðum okkur alveg grein fyrir því fyrir leikinn. Eitt mark dugaði í dag og ég er sáttur,“ sagði Gunnar í viðtali eftir leik.

Eitt mark dugði Keflavík vissulega en þau hefðu getað verið mun fleiri ef það hefði ekki verið fyrir frábæran leik Amber í marki Tindastóls.

„Ég verð að gefa henni mikið hrós. Hún var geggjuð í markinu. Það hefði ekki verið óeðlilegt ef við hefðum gert þrjú eða fjögur fleiri mörk í leiknum og það er jákvætt að við erum að skapa okkur þessi færi.“

Abby Carchio gekk til liðs við Keflavík fyrir tímabilið en Gunnar staðfesti að Abby hafi nú yfirgefið liðið.

„Hún er farinn og hún kemur ekki aftur. Við erum að leita af nýjum leikmanni í hennar stað,“ svaraði Gunnar aðspurður út í stöðuna á Abby Carchio.

Keflavík á erfiðan leik fyrir höndum þegar þær mæta Val sem er á toppnum með Selfossi. Gunnar kveðst vera spenntur fyrir þeim leik.

„Það er frábært að ná að tengja saman tvo sigra. Sérstaklega í þessari deild þar sem þetta er allt rosalega jafnt. Það skiptir miklu máli að geta fikrað sig upp töfluna. Það verður virkilega spennandi og verðugt verkefni að fá að mæta Val í næsta leik. Þær eru með frábært lið,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira