Innlent

Mennta­sjóður námsmanna á­frýjar dómi héraðs­dóms í á­byrgðar­manna­máli

Eiður Þór Árnason skrifar
Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna.
Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna. Samsett

Menntasjóður námsmanna hyggst áfrýja nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem sjóðurinn tapaði máli gegn ábyrgðarmanni námsláns.

Þetta staðfestir Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, í samtali við fréttastofu. Ekki hefur verið lögð fram formleg áfrýjunarbeiðni til Landsréttar. Talið er að niðurstaða dómsins geti verið fordæmisgefandi fyrir um þúsund ábyrgðarmenn námslána.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að stefndi bæri ekki ábyrgð á öllu námsláninu sem hann gekkst í ábyrgð fyrir heldur einungis þeim hluta sem var í vanskilum við gildistöku nýrra laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. 

Lögin, sem tóku gildi í júní í fyrra, fólu í sér niðurfellingu á ábyrgðum námslána sem tekin voru í tíð eldri laga að uppfylltum skilyrðum, til að mynda að lánið hafi staðið í skilum. Samhliða því var nafni sjóðsins breytt í Menntasjóð námsmanna.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Var í vanskilum

Menntasjóður byggði einkum á því að ef minnst einn gjalddagi væri í vanskilum við gildistöku laganna þá myndi ábyrgðin í heild sinni ekki falla niður. Héraðsdómur féllst ekki á það sjónarmið.

Menntasjóður námsmanna stefndi lánþega og ábyrgðarmanni vegna námsláns sem var upphaflega tekið í september 2005. Lánið komst í vanskil í september 2019 en þá stóð lánið í 7.111.855 krónum.

Eftir að lánið var gjaldfellt greiddi ábyrgðarmaður lánsins 325 þúsund krónur til Menntasjóðs námsmanna þann 9. desember 2020. Sú upphæð dugaði sem greiðsla af afborgunum fyrir þeim hluta lánsins sem var í vanskilum, auk dráttarvaxta, áður en ný lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi í júní.

Var ábyrgðarmaðurinn sýknaður af kröfu um greiðslu láns­ins sem nam rúmum sjö millj­ón­um króna auk drátt­ar­vaxta.  


Tengdar fréttir

Á­byrgðar­maður hafði betur gegn Mennta­sjóði náms­manna

Ábyrgðarmaður námsláns hjá Menntasjóði námsmanna, áður Lánasjóði íslenskra námsmanna, ber ekki ábyrgð á öllu láninu heldur einungis þeim hluta sem var í vanskilum við gildistöku nýrra laga um Menntasjóð námsmanna. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur en dómur þess efnis var kveðinn upp í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×