Innlent

„Eftirtektarverð“ fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig sex prósentustigum á milli kannana hjá MMR.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig sex prósentustigum á milli kannana hjá MMR. Vísir/Ragnar

Stjórnmálafræðingur segir eftirtektarvert hversu miklu fylgi Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt við sig frá því í byrjun mánaðar. Flokkurinn mældist síðast með sambærilegt fylgi við upphaf kórónuveirufaraldursins í fyrra. Þá virðist Sósíalistaflokkurinn kominn til að vera.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka á Alþingi með tuttugu og átta komma sjö prósent fylgi í nýrri könnun MMR. Flokkurinn bætir mjög við sig frá því í síðustu könnun, eða sex prósentustigum. 

Fylgi Samfylkingar dalar en flokkurinn mælist nú með rúmlega ellefu prósenta fylgi og þá minnkar fylgi Pírata um tæp fjögur prósentustig milli kannanna. Sósíalistaflokkurinn tekur fram úr Miðflokknum og nær samkvæmt könnuninni sex prósenta fylgi - og þar með manni inn.

Eva Heiða Önnudóttir.Vísir/skjáskot

Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi síðast mælst með svipað fylgi í upphafi kórónuveirufaraldursins. Það sé eftirtektarvert hversu mikið flokkurinn bæti við sig milli kannana.

„Mögulega er einhver ánægja með hvernig Sjálfstæðislfokkurinn hefur verið að standa sig í þessum hremmingum öllum,“ segir Eva.

„En það er eftirtektarvert hvað hann hækkar núna mikið í þessari könnun MMR miðað við síðustu könnun. En svo geta alltaf komið kannanir sem sýna ekki alveg réttu myndina enda eru kannanir þess eðlis. Til þess að sjá þróunina verður maður eiginlega að sjá næstu könnun til að sjá hvort þetta sé undantekningin eða ekki.“

Þá geti verið að Sjálfstæðisflokkurinn sæki aukið fylgi sitt til flokka á borð við Miðflokksins, hvers fylgi lækkar enn samkvæmt nýju könnuninni, Framsóknarflokks og Viðreisnar. Sósíalistaflokkurinn sæki hins vegar sitt fylgi mögulega til óánægðra stuðningsmanna Vinstri grænna.

„En hann er búinn að vera það lengi til staðar og það lengi með þetta í kringum fimm prósenta fylgi, þannig að þetta er flokkur sem virðist kominn til að vera.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×