Innlent

Segir kolefnisförgun geta orðið eina stærstu atvinnugrein Íslendinga

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. 
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.  Vísir/Vilhelm

Að binda kolefni í bergi gæti mögulega verið orðin ein stærsta tekjulind Íslendinga eftir um áratug. Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson vegna áforma fyrirtækisins Carbfix um að reisa kolefnisförgunarmiðstöð í Straumsvík sem á að taka við milljónum tonna af koltvísýringi frá Evrópu á hverju ári.

Carbfix áætlar að um sex hundruð ný störf skapist við að reisa þessa miðstöð en reiknað er með að fyrsta skipið muni flytja koltvísýring í miðstöðina árið 2025. Tæknin felst í að dæla koltvísýringi niður í berglög þar sem hann steinrennur á innan við tveimur árum.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi Íslands og formaður Hringborðs Norðurslóða, hefur fylgst vel með þróuninni í loftsmálum.

„Þetta er áfangi á langri leið sem íslenskir, bandarískir og evrópskir vísindamenn hafa unnið að í rúman áratug. Þegar hinn heimsþekkti bandaríski vísindamaður Wally Broecker og Sigurður Reynir Gíslason sátu með mér í bókhlöðunni á Bessastöðum fyrir rúmum áratug, þá hljómuðu þessar hugmyndir um að binda kolefni í basalt á Íslandi eins og fjarstæðukenndur framtíðardraumur. En við höfum séð á Hellisheiðinni í Carbfix-verkefninu þar og þessu merka samstarfi við Climeworks frá Sviss, þessi áform um hina nýju förgunarstöð eru algjörlega raunhæf og geta skipt sköpum fyrir baráttuna gegn loftslagsbreytingum,“ segir Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar fékk kynningu á þessari tækni í bókhlöðunni í Bessastöðum fyrir rúmum áratug. Hann segir lýsingarnar hafa hljómað eins og fjarstæðukenndur framtíðardraumur. Raunin sé önnur í dag. Vísir/Vilhelm

Afkastagetan mikil á Íslandi

Hann segir afkastagetu Íslands mikla vegna basaltsins hér á landi. Áætlað er að hægt yrði að farga tvöhundraðfaldri árslosun jarðarbúa á kolefni.

„Það er auðvitað risavaxin stærð. En staðreyndin er sú að basaltið er eiginlega guðsgjöf í þessum efnum. Vísindamenn hafa fundið ofursnjalla lausn í þessum efnum. Það sem meira er að hún hefur viðskiptagrundvöll. Ég þekki það vel að sú breyting hefur orðið í fjármálakerfi heims og í atvinnulífinu víða um veröld, að nú eru fyrirtæki tilbúin að borga stórfé fyrir að farga kolefni með þessum hætti. Þetta eru því ein stærstu tíðindi sem hafa birst hér á landi í langan tíma varðandi framlag okkar til heimsbaráttunnar gegn loftslagsbreytingum.“

Fyrirtækin vilji borga meira

En erum við þá að fara að mala gull og bjarga heiminum í leiðinni?

„Þegar vísindamennirnir, hinir íslensku, bandarísku og evrópsku, eru búnir að sýna fram á það í samstarfi við Orkuveituna og aðra á síðustu tíu árum að þetta er hægt, og gleymum því ekki að það hafa verið haldin fjöldi alþjóðlegra vísindaráðstefna um þetta verkefni. Þannig að á bak við það sem var að gerast í gær, og það sem fram undan er, hvílir einróma niðurstaða hins alþjóðlega vísindasamfélags. Þess vegna eru áformin algjörlega raunhæf. En þau geta líka, eins og þú orðaðir það, „malað gull“ því nú er heimurinn að taka höndum saman, eins og við sjáum í leiðtogafundinum sem forseti Bandaríkjanna stendur fyrir í gær og í dag, og viðskiptalífið og fjármálastofnanir út um allan heim eru tilbúnar að borga mun hærra verð fyrir förgun á kolefni heldur en var á markaði fyrir kannski fimm árum,“ segir Ólafur Ragnar.

Ólafur segir þróunina á heimsmarkaði öra varðandi baráttuna við loftslagsbreytingar. Fyrirtæki séu í dag reiðubúin til að borga mun meira fyrir förgun kolefnis en fyrir fimm árum Stöð 2/Einar Árnason

Hann rifjar aftur upp fund sinn með Wally Broecker og Sigurði Reyni í bókhlöðunni á Bessastöðum.

„Þá spurði ég þá: Eru þið kannski að segja mér það, að eins og Shell og BP og ESSO, hafa byggt bensínstöðvar út um allan heim, til að dæla bensíni á bíla, þá verði hægt að byggja dælustöðvar til að dæla kolefni niður í jarðlögin þar sem basaltið er og eyða því með þessum hætti? Og svarið var: Já!. Reynslan á síðustu tíu árum sýnir að það sé hægt.“

„Gæti kannski orðið stærsta tekjulind Íslendinga“

Hann segir raunhæft að þetta gæti orðið stór atvinnugrein á Íslandi.

„Þó að við skulum nú ganga hægt um gleðinnar dyr er það engu að síður raunhæft, í ljósi þess sem er að gerast á heimsmarkaðinum og baráttu veraldarinnar gegn loftslagsbreytingum, að þessi tækni, þessi vísindaárangur og þetta frumkvæði Orkuveitunnar, gæti kannski orðið stærsta tekjulind Íslendinga eftir hálfan eða einn áratug eða svo, og jafnvel fyrr. Því eitt af því sem er að gerast þessa dagana í kjölfar leiðtogafundarins sem forseti Bandaríkjanna er að beita sér fyrir, er að nú vilja öll helstu forystu ríki heims hraða þessari þróun og það er gríðarlegt magn af kolefni í andrúmsloftinu nú þegar og stóra verkefnið er að eyða því. Carbfix tæknin er líklegast ein mest spennandi aðferðin til að gera það,“ segir Ólafur Ragnar.

Carbfix eina svar Bill Gates

Hann telur þetta eina af ástæðunum fyrir því að Bill Gates, stofnandi Microsoft, hefur fjárfest í þessu verkefni á Hellisheiði.

Bill Gates er á meðal þeirra sem fjárfest hefur í Carbfix-verkefninu. Vísir/AFP

„Það var viðtal við Bill Gates fyrir nokkrum vikum síðan í tilefni af nýrri bók hans um loftslagsbreytingar. Blaðamaður spurði nokkuð höstuglega: Hvað ert þú að gera? Bill Gates nefndi bara eitt. Hann sagði: Ég er að fjárfesta í þessu Carbfix-verkefni á Íslandi.“

Og aðferðin er hættulaus að sögn Ólafs.

„Það hafa allir vísindamenn sagt það. Það sem gerist er að þegar koltvísýringurinn blandast basaltinu verður til grjót. Þegar Norðmenn voru að tala um að geyma kolefnið niður í jörðinni fyrir 10 til 15 árum síðan þá fól sú tækni í sér hættuna á því að gasið kæmi út eftir 20 til 40 ár í gegnum sprungur í jarðveginum. En snilldin hjá Sigurði Gíslasyni og félögum hans í alþjóðavísindasamfélaginu er að þetta verður hart grjót. Það er það sem er brilljant við þetta. Það verður engin hætta á því að mannkynið þurfi að líða aftur fyrir þetta kolefni, því verður endanlega komið fyrir neðanjarðar sem grjót.“

Ólafur segir Íslendinga alltaf hafa borið virðingu fyrir grjóti.

„Eins og sést best á aðdáun okkar á eldgosinu sem þeytir grjóti upp í loftið. En nú ætlum við að setja kolefnið niður í jörðina og breyta því í grjót þar, og heimurinn mun allur þakka okkur fyrir það.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.