Innlent

Yfir­læknar á Land­spítalanum vilja ó­háða út­tekt á flutningi krabba­meins­skimunar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Samtök yfirlækna á Landspítala segja að yfirvöld hafi hunsað álit fjölmargra fagaðila þegar ákvörðun var tekin um að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum verði fluttar frá Íslandi til rannsóknarstofu í Danmörku til greininga.
Samtök yfirlækna á Landspítala segja að yfirvöld hafi hunsað álit fjölmargra fagaðila þegar ákvörðun var tekin um að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum verði fluttar frá Íslandi til rannsóknarstofu í Danmörku til greininga. VISIR/VILHELM

Samtök yfirlækna á Landspítala segja að yfirvöld hafi hunsað álit fjölmargra fagaðila þegar ákvörðun var tekin um að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum verði fluttar frá Íslandi til rannsóknarstofu í Danmörku til greininga.

„Sú ákvörðun var tekin þvert á nýleg álit skimunarráðs, embættis landlæknis, meirihluta fagráðs um leghálsskimanir og verkefnastjórnar um framkvæmd breytinga á krabbameinsskimunum.“ 

Þetta kemur fram í ályktun Samtaka yfirlækna á Landspítala um breytingar á skipulagi skimana fyrir leghálskrabbameini. 

„Samtök yfirlækna á Landspítala (SYL) telja að það sé með ólíkindum að yfirvöld hafi hunsað álit áðurnefndra fagaðila og tekið þá ákvörðun að nýta ekki fullkominn nýjan búnað og faglega þekkingu á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til HPV-greininga, sem og greiningarhæfi og faglega sérþekkingu meinafræðideildar til að sinna þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu,“ segir í tilkynningu til fjölmiðla. 

Landspítalanum vel treystandi

„Greining á leghálsskimunarsýnum er algeng rannsókn og rannsóknadeildum Landspítalans er vel treystandi til að gera slíkar rannsóknir á sama hátt og aðrar flóknar rannsóknir. Gæði og öryggi slíkra rannsókna yrði að sjálfsögðu tryggt á sama hátt og fyrir aðrar rannsóknir sem framkvæmdar eru innan veggja Landspítalans.“

Samtökin fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferli málsins innan stjórnsýslunnar og segir í tilkynningunni að um vantraust stjórnvalda á íslenskum rannsóknarstofum sé að ræða. 

„Spurningar vakna um hvað liggi til grundvallar þessari ákvörðun svo sem um vantraust stjórnvalda á íslenskum rannsóknastofum, ákvarðanir innan stjórnsýslunnar, sem eru ekki í samræmi við faglega ráðgjöf eða hvort aðrir hagsmunir ráði för. Samtök yfirlækna á Landspítala fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferli alls málsins innan stjórnsýslunnar,“ segir í tilkynningunni.

Fjöldi sýna stóðu óhreyfð í þessum pappakössum um tíma.EGILL AÐALSTEINSSON

Töluvert hefur verið fjallað um ofangreinda ákvörðun stjórnvalda. Forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu baðst nýlega afsökunar á töfum við greiningu leghálssýna.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar lagði fram svipaða beiðni í vikunni en hún fer fram á að heilbrigðisráðherra vinni skýrslu fyrir Alþingi um forsendur og áhrif breytinga á skimun fyrir krabbameinum í leghálsi. Skýrslan verði unnin af óháðum aðila.


Tengdar fréttir

„Traustið er laskað“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir tímabært að skoða hvernig staðið hafi verið að breytingum á fyrirkomulagi leghálsskimunar. Rýna þurfi málið, forsendur og afleiðingar þess.

Konur sem áttu sýni í pappakössunum þurfa að koma aftur í sýnatöku

Í Danmörku verður ekki hægt að fullrannsaka þau tvö þúsund leghálssýni sem lágu í nokkrar vikur í pappakössum. Hluti kvennanna verður því kallaður í sýnatöku á ný. Læknir segir óskiljanlegt að Krabbameinsfélagið hafi skilið við verkefnið með þessum hætti.

Út­tekt land­læknis: Nýttu ekki innra gæða­eftir­lit til að fá betri yfir­sýn

Leitarmiðstöð Krabbameinsfélags Íslands (LKÍ) hefði getað nýtt ákveðna hluta innra gæðaeftirlits síns til að hafa betri yfirsýn á gæði frumugreininga í heild. Þetta er ein af niðurstöðum hlutaúttektar embættis landlæknis á LKÍ sem ákveðið var að ráðast í í kjölfar tilkynningar til embættisins um alvarlegt atvik í júlí 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×