Enski boltinn

United fengið flesta hagstæða VAR-dóma af stóru sex liðunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, hefur verið duglegur að gagnrýna dómara ensku úrvalsdeildarinnar að undanförnu.
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, hefur verið duglegur að gagnrýna dómara ensku úrvalsdeildarinnar að undanförnu. getty/Naomi Baker

Ekkert af stóru sex liðunum í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið fleiri VAR-dóma sér í hag á þessu tímabili en Manchester United.

Eftir 1-1 jafnteflið við West Brom á sunnudaginn kvörtuðu bæði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, og Harry Maguire, fyrirliði liðsins, undan myndbandsdómgæslunni.

Maguire, sem vildi fá vítaspyrnu í seinni hálfleik, sagði að United hefði ekkert fengið frá VAR eftir að fólk frá öðrum félögum byrjaði að tala um okkur. Þar vísaði hann í gagnrýni Jürgens Klopp, stjóra Liverpool, á hversu mörg víti United fengi.

Þegar litið er á stóru sex liðin í ensku úrvalsdeildinni, United, Liverpool, Chelsea, Arsenal, Tottenham og Manchester City, hefur ekkert þeirra fengið fleiri hagstæða VAR-dóma en United, eða sjö talsins. Er þar átt við dóma sem var breytt og United hagnaðist á því.

Chelsea og Liverpool eru næstefst á listanum með fimm hagstæða VAR-dóma hvort lið. Tottenham hefur fengið fjóra, City þrjá og Arsenal aðeins einn.

United er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 46 stig, sjö stigum á eftir toppliði City sem á leik til góða.

Næsti leikur United er gegn Real Sociedad í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.