Körfubolti

Segir að leikmenn Vals séu einfaldlega ekki tilbúnir andlega þegar flautað er til leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valsmenn voru svekktir með sjálfa sig um helgina.
Valsmenn voru svekktir með sjálfa sig um helgina. Dominos Körfuboltakvöld

Farið var yfir vandræði Valsmanna í síðasta þætti af Dominos Körfuboltakvöldi. Jón Halldór Eðvaldsson lét gamminn geisa og sagði að leikmenn Vals væru ekki andlega tilbúnir.

Umræðan um Valsliðið hófst á skilti sem sýndi að Valur væri í neðsta sæti yfir stig skoruð í leik ásamt þriggja stiga og vítanýtingu.

„Þetta er ekki eitthvað sem maður hefði giskað á fyrir þetta mót, að þetta lið myndi sitja þarna með þessar tölur,“ sagði Hermann Hauksson um þessa tölfræði.

Kjartan Atli Kjartansson – þáttastjórnandi – spurði Jón Halldór Eðvaldsson [Jonna] út í líkamstjáningu Valsmanna er liðið var svo gott sem búið að tapa leik gegn Njarðvík á dögunum.

„Ég upplifi þetta þannig að þeir leikmenn sem eru í þessu liði telji sig vera betri heldur en það sem er að gerast. Ef þú hugsar þetta alltaf þannig – að þú sért betri en þú ert að spila – þá verða vonbrigðin svona. Auðvitað eru þeir fyrst og fremst svekktir út í sjálfa sig en ég held að undirbúningur þeirra andlega sé einfaldlega þannig að þeir eru ekki tilbúnir þegar leikurinn byrjar,“ sagði Jonni um Valsliðið í leiknum gegn Njarðvík.

„Ég veit að Valsliðinu vantar erlendan leikmann frá Bandaríkjunum en þetta er gjörsamlega galið, að menn skuli leyfa sér að mæta svona. Alveg sama hvað þú ert að spila illa, þú getur alltaf spilað vörn og þú getur alltaf barist. Ef þú gerir það ekki þá ertu ekki andlega undirbúinn undir það verkefni sem þú ert að fara í,“ bætti hann við.

„Það sem gerðist hjá Val gegn Njarðvík er það að þú bætir óundirbúinn andlega í leikinn. Það er ekkert annað sem gerist. Mannskapurinn sem Valur er með á ekki að tapa þessum leik, þó það vanti bandarískan leikmann í þetta lið. Þá er ég ekki að tala niður til Njarðvíkur vegna þess að Njarðvík átti fullt skilið úr þessum leik í gær og er með fínt lið. Hins vegar er Valur með betri mannskap en í gær var Njarðvík miklu betra liðið,“ sagði Jonni að endingu.

Í spilaranum hér að neðan má sjá eldræðu Jonna sem og dæmi um slakan varnarleik Vals í leiknum.

Klippa: Vandræði Vals

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×