Umfjöllun og viðtöl: Þór Akureyri – KR 88-92 | Reynslusigur hjá KR

Karl Jónsson skrifar
Valur - KR Domino´s deild karla vetur 2020 - 2021 körfubolti KKÍ
Valur - KR Domino´s deild karla vetur 2020 - 2021 körfubolti KKÍ Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Hvernig má það vera að lið sem tekur 20 sóknarfráköst á móti 23 varnarfráköstum andstæðinganna nær ekki að vinna? Það getur auðvitað allt gerst í körfubolta en þetta var það nákvæmlega sem gerðist í kvöld þegar Þórsarar tóku á móti KR-ingum í Höllinni.

Þrátt fyrir þessa gríðarlegu yfirburði í fráköstum, náðu heimamenn aðeins að skora 8 stig eftir þessi fráköst sem þykir lítið. Til samanburðar tóku KR-ingar aðeins 8 sóknarfráköst en skoruðu 5 stig eftir þau.

Hluta af skýringunni á þessu er mjög slök vítanýting Þórsara í fyrri hálfleik. Hún var aðeins 9 af 19 eða 47%. Með eðlilegri vítanýtingu 65-70% hefði staðan verið allt önnur. Þeir girtu sig vissulega í brók á vítalínunni í seinni hálfleik, en skaðinn var skeður.

Hjá KR hélt Tyler Sabin áfram að heilla en hann skoraði 32 stig í öllum regnbogans litum auk þess að senda 8 stoðsendingar. Hann hitti úr 5 af 9 þriggja stiga skotum og var með skotnýtingu samtals upp á 60% í leiknum. Virkilega gaman að horfa á þennan mann spila körfubolta. Jakob Örn var líka með frábæra nýtingu í þristum en hann setti 5 af 8 og góðan slunk af þeim í síðasta leikhlutanum. Jakob endaði með 21 stig. Matthías bróðir hans setti 16 stig og þeir Helgi Már og Björn 7 stig hvor, þar af hvor sinn þrist í fjórða leikhluta.

Hjá Þór skartaði Ivan „grimmi“ Alconada tröllatvennu en hann skoraði 30 stig og tók 19 fráköst, þar af 12 sóknarfráköst. Vítanýtingin hans var hins vegar slök eða 8 af 13, sem særði Þórsliðið sérstaklega í fyrri hálfleik. Srdan Stojanovic skoraði 22 stig og tók 11 fráköst, Dedrick Basile endaði með 17 stig og 11 stoðsendingar og Andrius Globys skoraði 16 stig. Aðeins 5 leikmenn Þórsarar skoruðu í leiknum en liðið saknar gríðarlega Júlíusar Orra Ágústssonar sem er ristarbrotinn og frá fram í mars að öllum líkindum.

Það var mál allra spekinga fyrir leikinn að liðin myndu nálgast viðureignina á gjörólíkum forsendum. Á meðan heimamenn vildu halda hraðanum niðri og sækja inn í teig, vildu KR-ingar frekar hafa leikinn hraðann og opinn. Það kom og á daginn í fyrsta leikhluta. Þórsarar leituðu grimmt að Ivani undir körfunni og vann hann vel fyrir hýru sinni þar. Ef ekki eftir eigin hreyfingar, þá eftir sóknarfráköst. Á hinum endanum vildu KR-ingar koma heimamönnum í vandræði með hraðri boltahreyfingu, keyrslum upp að körfu og sendingum á opna skotmenn sem hittu prýðilega.

Annar leikhlutinn hófst í stöðunni 18-19. Leikskipulag Þórsara riðlaðist töluvert við hvíldartíma Ivans Alconada og þegar hann kom inn aftur, náðu þeir ekki sama takti og í upphafi leiks. KR-ingar fengu áfram mun auðveldari skot og náðu þokkalegu forskoti. Þórsarar voru með 16 sóknarfráköst í fyrri hálfleik og 30 fráköst alls og ótrúlegt að sú tölfræði hafi ekki skilað meiru. Ein af ástæðunum var reyndar sú að vítanýting þeirra var mjög léleg, þeir fengu verðskuldað 19 vítaskot en hittu aðeins úr 9, eða aðeins 47%. Að auki var Dedrick Basile varla með, hann setti ekki niður skot utan af velli og var aðeins með eitt stig í fyrri hálfeik. Staðan í hálfleik 33 – 42 og KR-ingar bara í góðum málum.

Dedrick Basile hefur örugglega fengið sér góðan sopa af sterku Bragakaffi í hálfleik því hann hóf þriðja leikhlutann með látum eftir að nánast hafði verið lýst eftir honum í fyrri hálfleik. Hann setti 7 fyrstu stig Þórsara á meðan KR-ingar hittu illa. Staðan var allt í einu orðin 45-46 og viðureignin orðin að alvöru leik að nýju. Þá tók Sabin til óspilltra málanna og sett niður tvo þrista auk þess sem Jakob fór ofan í pokann til að sækja einn og senda Þórsurum.

Við upphaf síðasta leikhlutans var munurinn aðeins 2 stig 63-65. Ljóst var þarna að ef Þórsarar ætluðu að gera tilkall til sigurs í leiknum þyrftu þeir að koma KR úr jafnvægi strax. En seigla og barátta KR-liðsins hélt Þórsurum í þægilegri fjarlægð og hittni þeirra var afburða góð sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Þeir leituðu í reynslubanka heldri leikmanna sem brugðust ekki. Þeir unnu því sanngjarnan sigur að lokum í miklu baráttuleik þar sem kappið bar fegurðina ofurliði oft á tíðum.

Af hverju vann KR leikinn?

Það verður að skrifast að stórum hluta á reynslu KR-liðsins að þeir náðu að landa þessum sigri. Þeir vissu nákvæmlega út í hvað þeir voru komnir, vissu að baráttan yrði fyrst og síðast undir körfunni og spiluðu varnarleikinn samkvæmt því. Voru duglegir að senda Þórsara á vítalínuna og láta þá hafa fyrir stigunum. Sóknarmegin fengu þeir mikið af góðum skotum og voru með prýðis skotnýtingu.

Hverjir stóðu upp úr?

Tyler Sabin er ofsalega góður leikmaður. Hann er á fullu allan tímann, hann getur bæði búið sér til skot og komið af hindrunum og skotið auk þess sem gegnumbrotin hans vöktu almenna hrifningu. Hjá Þór var það Ivan Alconada sem stóð upp úr í orðsins fyllstu merkingu.

Hvað gekk illa?

Þórsarar gerðu í raun allt rétt í sínu leikplani en það sem vantaði sárlega var meiri hreyfing þegar KR-inga tvöfölduðu og jafnvel þrefölduðu á Ivan við teiginn. Menn voru of staðir til að fá boltann í góðum skotfærum. Einnig var of mikið hik á mönnum þegar skotin buðust, sérstaklega hefðu bæði Ragnar og Hlynur átt að láta vaða þegar færi gafst.

Hvað gerist næst?

Það er allt á fullu í Dominos deildinni þessi dægrin. Á fimmtudaginn taka KR-ingar á móti hinum Þórsurunum frá Þorlákshöfn á meðan boðið verður upp á norðlenskt „el clasico“ í Höllinn á Akureyri þegar Þórsarar taka á móti nágrönnum sínum í Tindastóli. Fyrri viðureign liðanna í slagnum um Norðurland.

„Vissum út í hvað við vorum að fara.“

Darri Atlason hinn ungi og efnilegi þjálfari KR-inga var mjög ánægður með úrslitin og sagði liðið sitt hafa vitað nákvæmlega út í hvað þeir voru að fara; „Við vissum að það yrði mikill slagur undir körfunni, Ivan er frábær leikmaður og sterkur og við vorum undirbúnir fyrir það að þeir myndu taka mikið af sóknarfráköstum,“ sagði Darri. Hann sagði sitt lið hafa skotið vel og fengið góð skotfæri. „Reynslan í okkar liði bætir ótrúlega upp fyrir það hversu lágvaxnir við erum og menn kunna að spila á móti liðum sem hafa hæðaryfirburði,“ sagði Darri. Hann bætti svo við að nú þegar væri lentur á landinu miðherji sem þeir muni frumsýna fljótlega eftir að hann lýkur sóttkví.

Það var þyngra hljóðið í Bjarka Má Oddssyni þjálfar Þórsara. „Þetta var ágætis leikur hjá mínum mönnum en KR liðið er reynslumeira, settu niður opin þriggja stiga skot trekk í trekk í lokin,“ sagði hann. „Við vissum að það yrði erfitt að stilla upp vörninni maður á mann, Andrius var t.d. að dekka Jakob, hann er vanur að hjálpa mikið niðri á blokkinni en þurfti núna að elta Kobba út um allt fyrir utan. KR spilaði bara ljómandi fallegan „small-ball“ körfubolta í kvöld.“ Bjarki sagði sína menn hafa gert mikið af tæknifeilum og sérstaklega á vítalínunni og hafi tapað of mörgum boltum.“ Um frammistöðu Dedrick Basile sagði Bjarki að hann hefði bara peppað hann upp í hálfleik og hann hefði spilað vel í seinni hálfleik. „Dedrick er einn besti bakvörður deildarinnar og getur tekið yfir leiki ef svo ber undir. En hann þarf að sýna meiri stöðugleika og við munum finna hann. Við erum virkilega ánægðir með hann,“ sagði Bjarki að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira