Umfjöllun og viðtöl: FH - Grótta 31-22 | FH rúllaði yfir nýliðana

Anton Ingi Leifsson skrifar
FH - Valur Olís deild HSÍ karla, sumar 2020/ ljósmynd/Hulda Margrét
FH - Valur Olís deild HSÍ karla, sumar 2020/ ljósmynd/Hulda Margrét

FH vann sinn þriðja sigur í Olís deild karla er liðið afgreiddi nýliða Gróttu örugglega, 31-22, í öðrum leik Olís deildar karla eftir rúmlega hundrað daga pásu. Hafnarfjarðarliðið leiddi 17-11 í hálfleik.

Gestirnir byrjuðu af miklum krafti. Kraftur í varnarleiknum og vel ígrundaður sóknarleikur. Þeir leiddu 7-4 eftir stundarfjórðung en eftir leikhlé þjálfara FH um miðjan hálfleikinn komu sex FH mörk í röð.

FH-ingar náðu mest sex marka forystu í fyrri hálfleik og fóru inn í hálfleikinn 17-11 yfir. Það var því mikil prófraun fyrir gestina að koma inn í síðari hálfleikinn gegn sterku liði FH en Gróttumenn höfðu staðið í öllum liðum hingað til.

Leikurinn varð í raun aldrei spennandi í síðari hálfleik. FH var mikið sterkari aðilinn. Spilaði ansi þéttan og góðan varnarleik með hinn þýska Phil Döhler í góðu staði fyrir aftan sig en Grótta skoraði ekki mark í síðari hálfleik fyrr en eftir tæpan stundarfjórðung. Lokatölur 31-22.

Af hverju vann FH?

Einfaldlega með betra lið og það sást eftir fínustu byrjun gestanna en þetta var full létt.  FH spilaði ansi þéttan varnarleik. Sóknarleikurinn var í smá vandræðum í byrjun en hægt og rólega varð hann betri og betri - enda með marga virkilega frambærilega sóknarmenn. Gróttumenn byrjuðu af krafti en síðan ekki söguna meir.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Örn Sindrason átti flottan leik í FH liðinu. Hann bar liðið á herðum sér í upphafi leiks. Ásbjörn Friðriksson og Birgir Már Birgisson stóðu fyrir sínu og varnarblokkinn þeir Ágúst Birgisson og Ísak Rafnsson voru góðir. Phil Döhler var svo í miklu stuði fyrir aftan vörnina. Í liði Gróttu áttu menn rispur en þó var fátt um fína drætti, vægast sagt.

Hvað gekk illa?

Gestirnir byrjuðu vel en skyndilega hrökk allt í baklás. Þeir fengu nokkur hröð mörk í andlitið til baka og sóknarleikur Gróttu var í raun ekki sérstakur í hálftíma; síðustu fimmtán í fyrri hálfleik og fyrstu fimmtán í þeim síðari. Þeir skoruðu þeir einungis fjögur mörk síðasta stundarfjórðunginn í síðari hálfleik og FH refsaði. Þeirra fyrsta mark í síðari hálfleik kom svo eftir rúmlega þrettán mínútur.

Hvað gerist næst?

Mikilvægur og í raun skyldusigur hjá heimamönnum ætli þeir sér einhverja hluti í vetur. Þeir eru nú komnir með sex stiga af tíu mögulegum en þeir mæta Stjörnunni á miðvikudag. Daginn eftir spilar Grótta við ÍR sem verður að teljast; sex stiga leikur, í botnbaráttunni.

Arnar Daði: Byrjunin á síðari hálfleik er ekki boðleg

„Við byrjuðum af krafti eins og við höfum gert í leikjunum hingað til. Það er erfitt að meta það við hverju maður átti að búast eftir svona langa bið. Ég bjóst við meiru en þetta var það sem við buðum upp á í dag. Þetta eru vonbrigði. Byrjunin á síðari hálfleiknum er ekki boðleg,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í leikslok.

„Varnarleikurinn var líka ekki góður. Við höfum verið að fá á okkur 22 til 24 mörk í leik. Við fáum á okkur sautján mörk í fyrri hálfleik og það er langt því frá að vera eðlilegt. Við köstum boltanum frá okkur sóknarlega og fáum auðveld mörk á okkur. Þetta helst í hendur. Markvarsla, vörn og sóknarleikur var allt vonbrigði.“

Grótta spilaði lengi vel í leiknum sjö á móti sex en Arnar segir að það hafi gengið betur í æfingaleik fyrir mót.

„Mér fannst það ganga allt í lagi. Við höfum spilað sjö á sex lungan úr leikjunum en ekki æft það mikið. Við erum í framþróun. Ég ætla ekki að spila sjö á sex allan minn þjálfaraferil en stundum þarf maður að fara í það.“

„Við spiluðum einn æfingaleik fyrir mót og þar gekk þetta frábærlega en ekki hér í dag, eins og margt annað í þessum leik.“

„Ég veit ekki við hverju maður átti að búast. Maður vonaðist eftir hörkuleik eins og við vorum í fyrir þremur mánuðum síðan. Við þurfum líka að horfast í augu við það að við erum nýliðar, með marga unga leikmenn og óreynda. Við viljum sýna meira en gerðum það ekki í dag. Nú er það upp með hausinn. Næsti leikur á fimmtudag,“ sagði Arnar.

Sigursteinn: Hlýtur að vera nýtt Íslandsmet

„Það vantaði smá ákefð fyrsta korterið en við náðum því inn og þá fóru hlutirnir að ganga,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, í leikslok.

„Ég er mjög ánægður að klára þennan leik sannfærandi. Þetta Gróttulið er búið að valda öðrum liðum vandræðum það sem af er deildar.“

„Við mættum vel undirbúnir en það vantaði ákefðina í byrjun. Eftir að við fínstilltum það þá var þetta mjög gott.“

„Við ætluðum okkur að ná sannfærandi sigri og þetta var á pari við mínar væntingar.“

FH-liðið gat rúllað vel á liðinu sínu og það skilaði sér í því að allir sextán leikmennirnir á skýrslu spiluðu.

„Þetta hlýtur að vera nýtt Íslandsmet. Sextán leikmenn. Það er leikur á miðvikudag og allir tóku þátt hér í kvöld. Allir glaðir,“ sagði Sigursteinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira