Soffía Sigurgeirsdóttir snjódrífa hlakkar til göngunnar og sækir innblástur í Fjallaspjall Vilborgar Önnu. Soffía er eigandi ráðgjafafyrirtækisins Langbrók sem sérhæfir sig í sjálfbærniverkefnum. Hún segir lánadrottna, fjárfesta og aðra hagaðila alla græða á því að vera ábyrgari gagnvart umhverfinu.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Virku dagarnir byrja hjá mér um hálf áttaleytið, er þá yfirleitt bara hress og tilbúin að takast á við daginn. Ég þarf samt alveg minn átta tíma svefn. Ætli ég sé ekki bara bæði A og B manneskja, mér finnst gott að vakna snemma um helgar ef ég ætla í einhverja útvist en mér finnst líka notalegt að sofa út annan daginn.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja á því að koma strákunum mínum, Úlfi og Loka, af stað í skólann, útbý nesti fyrir þá og spjalla við þá um allt mögulegt. Það er dýrmætt að eiga þessa stund í rólegheitunum með þeim á morgnana, þeir eru að stækka á ljóshraða þessa dagana orðnir 13 ára gamlir. Ég er að fylgja endurhæfingar prógrammi eftir krossbandsaðgerð þannig að ég geri núna styrktaræfingar á morgnana. Það er mjög góð leið til að koma blóðflæðinu af stað og vakna vel.
Síðan er það yfirleitt sturta í kjölfarið. Mér finnst nauðsynlegt að fá mér gott kaffi með kollageni og ristað brauð og lesa helstu fréttirnar. Eftir það fer ég yfir verkefni dagsins og svara nokkrum póstum áður en ég fer á skrifstofuna en það tekur mig bara fimm mínutur að labba þangað.“
Stefna Snjódrífurnar á ný afrek 2021?
„Vatnajökulsleiðangurinn okkar gekk gríðarlega vel þökk sé frábærum meðbyr og stuðningi frá landsmönnum. Við erum afar þakklátar fyrir það og náðum þannig að safna góðri fjárhæð fyrir félögin Líf og Kraft. Það er ástríða hjá okkur að bæta aðstöðuna fyrir veikar konur á Kvennadeild Landspítalans þannig að nú er stefnan að safna fyrir því með því að ganga með ríflega 100 konum upp á Hvannadalshnúk eða „Kvennadalshnúk“ í byrjun maí.
Sirrý Ágústsdóttir, Snjódrífa og upphafskona Lífskrafts átaksins veit hver þörfin er en hún lá á sínum tíma á Kvennadeildinni veik með nýfætt barn. Vegna Kórónufaraldursins þá stofnuðum við Snjódrífurnar síðuna, Minn lífskraftur, á Facebook, fyrst og fremst til að hvetja fólk til að fara út að ganga og finna sinn lífskraft í náttúrunni.
Við erum allar alltaf að boða fagnaðarerindið sem felst í því að stunda útivist. Það tekur á fyrir alla að þurfa að vera svona mikið heima við, mega ekki fara í ræktina eða hitta vini. Að fara út að ganga í náttúrunni eða með sjónum er mjög góð leið til að efla ónæmiskerfið og sækja orku.
Það er búið að vera mikil áskorun fyrir mig að mega ekki hreyfa mig en nú eru þrír mánuðir liðnir frá aðgerð og ég má núna fara að ganga aftur og það styttist í að ég megi fara í einhverja hækkun. Þannig að ég er gríðarlega spennt að geta farið virkilega að byggja mig upp fyrir fjallgöngur á ný og æfa mig fyrir göngu á Hnúkinn í vor.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Sem ráðgjafi er ég að vinna að fjölmörgum verkefnum í einu með stjórnendum í mismunandi atvinnugeirum þannig að ég verð að vera mjög skipulögð. Ég þarf að vera vakandi fyrir tímalínum ýmissa verkefna og því oft með marga bolta á lofti.
Ég set inn helstu verkefnin í calender þannig næ ég ágætis yfirsýn yfir verkefnin framundan. Ég reyni að skipuleggja vinnuvikuna sem er framundan fyrir helgar. Síðan fer ég yfir verkefnin sem ég þarf að sinna í byrjun hvers dags.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Þessa dagana er ég að hrinda af stað fullt af nýjum verkefnum hjá Langbrók sem snýr að því að auka sjálfbærni í starfsemi fyrirtækja.
Ég hef stuðst við hugmyndafræðina um sjálfbærni í mínu starfi og ráðgjöf frá því ég útskrifaðist frá London School of Economics en þar kynntist ég fyrst þessari hugsun að fyrirtæki þurfa að vera ábyrgari í sínum rekstri og ábyrgari gagnvart öllum hagaðilum. Afleiðingar loftslagsbreytinga eru mjög alvarlegar.
Við erum sem mannkyn að ganga á þolmörk náttúrunnar og þurfum nauðsynlega að finna leiðir til að draga úr neyslu, losun, úrgangi og endurnýta allt með hringrásarhugmyndina að leiðarljósi.
Það eru neytendur sem hafa knúið fram þessar breytingar og aukið meðvitund okkar á þessum gríðarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir núna með hlýnun jarðar, hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar.
Það jákvæða er að stjórnendur hér heima og um heim allan eru að vakna til lífsins og ég tel að kapphlaupið sé hafið í átt að sjálfbærni. Það er virkilega gaman að vinna að verkefnum með framsæknum stjórnendum sem átta sig á því að ef þeir breyta ekki áherslum þá verða þeir eftir í samkeppninni.
Þetta er ekkert flókið, aðferðafræðin, tæki og tól er til staðar. Lánadrottnar, fjárfestar og aðrir haghafar eru einnig að hafa áhrif með sínum fjárfestingarákvörðunum og viðskiptakjörum og geta þannig stýrt skútunni þannig að við séum öll að græða, við nefnilega græðum öll á því að vera ábyrgari gagnvart umhverfinu.
Það er að eiga sér stað gríðarleg „normbreyting“ í heiminum og heimsfaraldurinn hefur einnig flýtt því með hraðari stafvæðingu (e. digitalzation).
Ég held að afleiðingarnar af Covid til langs tíma verði góðar þar sem við áttum okkur á því að þjóðir heimsins geta unnið markvisst saman í áhættustýringu og verið betur undirbúin þegar næsti veirufaraldur brýst út. Þó vona ég að það gerist ekki í nánustu framtíð, við þurfum að ná okkur eftir þessa dýfu. Jafnréttismálin eru mér kær og hef ég sitið í stjórn UN Women til fjölda ára. Ég er einnig að vinna að spennandi verkefnum með Empower þar sem unnið er að því að efla jafnrétti innan fyrirtækja með innleiðingu á Jafnréttisvísinum.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að passa það að fara sofa fyrir miðnætti en þá er ég góð daginn eftir. Ég er alltaf með einhverja góða bók að lesa á kvöldin og síðan finnst mér mjög kósí að horfa á einn þátt í einhverri brilliant seríu eins og Crown eða the Queen‘s Gambit. Núna er ég að lesa Auði Djúpuðgu eftir Vilborgu Davíðsdóttur en á náttborðinu er einnig Valdið eftir Naomi Alderman. Ég er líka búin að vera að hlusta á Fjallaspjallið hennar Vilborgar Örnu en hún er búin að fá til sín frábærar fjallgöngu- og leiðangurskonur, frábærar fyrirmyndir sem veita mér innblástur.“