Atvinnulíf

Hverjir eru leiðtogar og hver eru algengustu mistökin þeirra?

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Dr. Haukur Ingi Jónason og Dr. Helgi Þór Ingason segja að eitt mikilvægasta atriði góðra leiðtoga sé að kunna að hlusta.
Dr. Haukur Ingi Jónason og Dr. Helgi Þór Ingason segja að eitt mikilvægasta atriði góðra leiðtoga sé að kunna að hlusta. Vísir/Vilhelm

„Við viljum nú sjá leiðtoga sem hafa skarpan huga og hlýtt hjarta, fólk sem getur tekið ábyrgar ákvarðanir á grundvelli upplýstrar vísindalegrar þekkingar og hafi dug og heilindi til að sýna öðru fólki samkennd og hluttekningu,” segir dr. Haukur Ingi Jónasson í viðtali um einkenni leiðtoga og helstu mistök. 

Í sama streng tekur dr. Helgi Þór Ingason sem jafnframt segir að allir geti þjálfað með sér leiðtogafærni. „Sum meðfædd skapgerðareinkenni gera fólki vafalaust auðveldara fyrir að vera leiðtogar, til dæmis getan til að hlusta og taka tillit til sjónarmiða annarra,” segir Helgi en bætir við „en sú geta er líka eitthvað sem má þjálfa þannig að í heild má segja að leiðtogafærni er eitthvað sem allir geta þjálfað með sér, fremur en meðfæddur eiginleiki.“

Í greinaröð Atvinnulífsins í dag verður fjallað um leiðtoga í kjölfar kórónuveirunnar:

Hvað þurfa þeir að geta gert, hvað einkennir þá, hver eru algengustu mistök leiðtoga og má gera ráð fyrir að starfsmannavelta verði mikil í leiðtogastöðum fyrirtækja næstu misseri?

Í annarri grein af þremur í greinaröð Atvinnulífsins er rætt við félagana dr. Hauk Inga Jónason og dr. Helga Þór Ingason sem leiða Master of Project Management nám í Háskólanum í Reykjavík. Þeir hafa starfað saman í tvo áratugi og skrifað saman fjölda bóka sem hafa komið út bæði á Íslandi og erlendis.

Er leiðtogafærni meðfædd eða er þetta færni sem allir geta þjálfað?

Haukur: „Innan leiðtogafræðanna hefur í gegnum tíðina mikið verið þráttað um svarið við þessa spurningu, enda tengist hún einni stærstu spurningunni vísindasögunnar: Hver eru tengsl erfða og umhverfis? Sem má einfalda, eða flækja, með því að spyrja: Hvernig lærir fuglinn að búa til hreiður? Er það erfðabundin þekking eða halda fuglar námskeið í hreiðurgerð? 

Það er eins með leiðtogafærnina, hvernig lærist hún? Er hún okkur í blóð borin, og mögulega skemmd af aðstæðum okkar? Allt eru þetta spennandi spurningar. 

Þegar nýr einstaklingur fæðist þá er ljóst að það er einhver fæddur og það er jafnljóst að hann hefur margt miklisvert til brunns að bera og ef allt er eðlilegt þá er það gæfa okkar að hafa viðkomandi með okkur í að búa til gott samfélag. 

Hvað leiðtogafærni varðar þá er alveg ljóst að erfðir geta skipt máli, atlæti skiptir örugglega máli, og svo það er alveg ljóst að það má að marki kenna fólki leiðtogafærni.

Helgi: „Ég held að allir séu leiðtogar, hvert og eitt okkar þarf að vera leiðtogi í eigin lífi, marka stefnu og fylgja henni, en jafnframt að leita jafnvægis í samskiptum við annað fólk. 

Þetta á við um athafnir allra, stórar og smáar, það á við um einstaklinga og það á við um þá sem leiða hópa og fyrirtæki. 

Sum meðfædd skapgerðareinkenni gera fólki vafalaust auðveldara fyrir að vera leiðtogar, til dæmis getan til að hlusta og taka tillit til sjónarmiða annarra, en sú geta er líka eitthvað sem má þjálfa þannig að í heild má segja að leiðtogafærni er eitthvað sem allir geta þjálfað með sér, fremur en meðfæddur eiginleiki.“

Það mun reyna á leiðtogafærni stjórnenda við það verkefni að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað í kjölfar kórónuveirunnar.Vísir/Vilhelm

Hver eru algengustu mistök leiðtoga?

Helgi: „Ég held að algengustu mistök leiðtoga séu fólgin í því að einangra sig, að ofmetnast, fyllast drambi og innistæðilitlu stolti, fyllast oftrú á sjálfan sig og eigin visku og getu. 

Um leið og maður gerir þetta þá hættir maður að hlusta á annað fólk og þeir sem komast nálægt manni eru helst þeir sem segja manni það sem maður sjálfur vill heyra, en það er þá væntanlega allra síst það sem maður þarf á að halda að heyra. 

Algengustu mistökin eru því að fyllast stærilæti og oftrú á sjáan sig og því fylgir skortur á hógværð og skortur á getu til að setja sig inn í aðstæður annars fólks og sýna því samkennd.“

Haukur: „Ég er sammála Helga, og reyndar er það stundum þannig að fólki er innrætt slíkt yfirlæti í stjórnendanámi og eðlilega kemur það niður á getu þess til að fá fólk til að vinna með sér eða jafnvel á efnahagslífinu í heild. 

Bókmenntasagan og saga viðskiptalífsins er full af mjög áhugaverðum dæmum um glámskyggni af þessu tagi. 

Það er hinsvegar líka mjög mikilvægt að vita að enginn er óskeikull og þess vegna er það mikilvægt að leiðtoginn sé stöðugt að meta hvort hann sé á réttri braut eða ekki. 

Áhugaverða spurningin er því ekki hvort einstaklingur geti fengið aðra til að fylgja sér, heldur hvort hann geri það með heilbrigðum hætti og af góðum ásetningi.“

Nú reynir á að virkja Íslendinga í að ferðast í sumar innanlands. Mynd frá Akureyri.Vísir/Vilhelm

Hvað hefur breyst í mikilvægum atriðum leiðtogafærni? 

Haukur: „Það sem hefur breyst er að almennur áhugi á leiðtogahlutverkinu hefur aukist. Nú eru leiðtogarnir ekki aðeins stjórnmála-, atvinnulif- og verkalýðsleiðtogar, hershöfðingjar og/eða sérvitrir lista- og fræðimenn. 

Nú vill fólk vera leiðtogi í eigin lífi, og ætli sú hugmynd sé ekki ákall um að hafa tögl og hagldir varðandi örlög sín og ákvarðanir. 

Forsenda þess er að vera með nokkuð skýra sjálfsvitund sem hjálpar til við að átta sig hvaðan maður er að koma, hvar maður er staddur, og hvað maður vill með framtíðina, eða með öðrum orðum hvað manni gengur yfirleitt til gagnvart sjálfum sér og öðrum.

Við erum líka farin að hugsa leiðtogahlutverkið mun heildstæðar en áður og COVID19 ástandið mun hvetja okkur til að til að gera það enn frekar.

Við viljum nú sjá leiðtoga sem hafa skarpan huga og hlýtt hjarta; fólk sem getur tekið ábyrgar ákvarðanir á grundvelli upplýstrar vísindalegrar þekkingar en hafi jafnframt dug og heilindi til að sýna öðru fólki samkennd og hluttekningu.

Það er komið nóg af kjánaskap hjá leiðtogum þessa heims, við þurfum að bola út þeim valdsæknu og ágjörnu, og reyna fremur að koma okkar besta fólki að og leifa því að leiða okkur inn í framtíðina.“

Helgi: „Ég held að mannlegt eðli hafi ekki breyst á því brotabroti veraldarsögunnar sem við lifum.

Kreppur koma og fara, erfiðleikar koma og fara, góðæri koma og fara. En þeir lykilættir sem þarf að ráða yfir til að geta verið sem trúverðugur leiðtogi og foringi í hópi fólk eru í grundvllaratriðum þeir sömu nú og ætíð hefur verið.

Þó má kannski segja að eftir því sem þekking okkar á hlutverki leiðtogans hefur vaxið þá hefur einmitt komið í ljós að hann þarf að geta brugðið sér í ólík hlutverk. 

Hann þarf bæði að hafa það á sínu valdi að vera sterkur og afgerandi þegar það á við, en í dæmigerðu þekkingarfyrirtæki, sem samanstendur af sérfræðingum , þá þarf leiðtoginn yfirleitt fyrst og fremst að vera leiðbeinandi og hvetjandi. 

Þetta eru þó ólíkir stílar og virkurr leiðtogi þarf að kunna skil á þeim báðum og vita hvenær þeir eiga við.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×