Innlent

Svona á að bera sig að þegar rætt er við börn um kórónu­veiruna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni.
Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni. Vísir/vilhelm

Sálfræðingur segir mikilvægt að foreldrar leiti aðstoðar við eigin kvíða gagnvart kórónuveirunni, finni þeir fyrir honum, áður en rætt er við börn um veiruna. Þá sé ráðlegt að ræða við börnin um veiruna af yfirvegun en aftur á móti sé óæskilegt að þagga niður allar fréttir og umræðu. Slíkt geti haft skaðleg áhrif. Nokkrir foreldrar hafa þegar leitað til Litlu kvíðameðferðarmiðstöðvarinnar vegna kórónuveirunnar.

Kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19 breiðist nú hratt út. Tugir þúsunda hafa smitast af veirunni, nokkur þúsund dáið, en langflestir náð sér að fullu. Veiran hefur nú greinst í öllum ríkjum Norðurlandanna nema Íslandi en heilbrigðisyfirvöld segja aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta tilfellið berst hingað til lands.

Sjá einnig: Spurt og svarað um kórónuveiruna

Óhjákvæmilega vaknar því kvíði í brjóstum margra sem fylgjast með fréttaflutningi af veirunni. Lítið er enn vitað um hana, auk þess sem gróusögur henni tengdri hafa farið á flug sem kyndir enn frekar undir óttanum. Börn eru einna viðkvæmust fyrir slíku og því getur þurft að stíga varlega til jarðar þegar rætt er við þau um veiruna.

Hélt að dánartíðnin væri hundrað prósent

Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni, segir í samtali við Vísi að það sé mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um það hvort börn þeirra séu að hlusta þegar fréttir af kórónuveirunni og umræða um hana er í gangi. 

Hún mælir með því að foreldrar inni börnin eftir áhyggjum sem þau hafi af veirunni og leiðrétti mögulegar rangfærslur sem þar er að finna.

„Gott dæmi um það er þegar ég spurði dætur mínar hvaða áhyggjur þær hefðu. Þá kom í ljós að eldri dóttir mín hélt að það væri hundrað prósent dánartíðni. Hún hafði ekki beint heyrt það en túlkaði umfjöllunina þannig. Við kíktum þá á dánartíðnina og bárum hana saman við dánartíðni venjulegrar flensu og þá hætti hún að hafa áhyggjur af þessu.“

Neðanjarðarlestarstöð í Suður-Kóreu sótthreinsuð vegna kórónuveirunnar.

Þá sé einnig nauðsynlegt að foreldrar leiti sér sjálfir hjálpar ef þess þarf.

„Ef foreldrið finnur að það er sjálft andvaka af áhyggjum yfir þessu og það er hrætt við allar hóstandi manneskjur í kringum sig og er á nálum yfir því að fylgjast með því við hvað börnin þeirra koma, þá er það foreldranna að leita aðstoðar fyrir sig,“ segir Steinunn.

Einnig sé gott að gæta þess hvaða tón foreldrar noti þegar talað er um veiruna eða aðra sambærilega atburði, sem kunna að vera kvíðvænlegir.

„Við eigum ekki að forða börnum frá því sem er í gangi í kringum þau en það er okkar að tjá hvernig við segjum hlutina, hvort börnin þurfi að tryllast úr hræðslu eða hvort þetta sé bara eitthvað sem á að hafa í huga og passa sig á. Við segjum börnum að passa sig að líta til beggja hliða áður en þau labba yfir götuna og við segjum það bara rólega og yfirvegað. Börn eiga að finna að við erum fullorðin og þau eru börn, og að við erum að gera það sem hægt er að gera og munum hjálpa þeim að takast á við það sem gæti komið upp á,“ segir Steinunn.

„Það er gott að tala um að þetta sé bara ein tegund af flensu en hún virðist vera svolítið mikið smitandi. Þannig að við ætlum að vera dugleg að þvo okkur, og ekki endilega að knúsa hóstandi frænda.“

Algjör þöggun óbein hættuskilaboð

Steinunn mælir einnig með því að foreldrar kynni sér málið vel, þannig að þeir búi yfir réttum upplýsingum sem þeir geti svo miðlað til barnanna á yfirvegaðan hátt.

„Ef við erum frekar róleg yfir þessu og gerum heilbrigðar varúðarráðstafanir þá í rauninni tjáum við það beint og óbeint til barnanna. Ekki endilega að hlífa þeim við þessu heldur vera sjálf með á hreinu hversu miklar áhyggjur þarf að hafa og hvað í rauninni þarf að gera,“ segir Steinunn.

„Þú býrð í rauninni líka til þessi óbeinu skilaboð að þetta sé risastórt ef það má hvergi minnast á það og það má ekki sjá neitt og þarf bara að slökkva á sjónvarpinu. Ef við förum alveg í þá áttina, þá í rauninni gefum við óbeint hættuskilaboð, alveg eins og við gerum ef við erum að vakta þau eins og þyrluforeldrar.“

Kvíði barna beinist einkum að því sem gerist í nærumhverfi þeirra.

Foreldrar leita frekar hjálpar vegna eigin kvíða

Aðspurð segir Steinunn að nokkrir foreldrar hafi leitað til Litlu kvíðameðferðarstöðvarinnar vegna kórónuveirunnar.

„Og þá er það frekar vegna þeirra eigin kvíða heldur en barnanna, enn sem komið er. Það eru frekar foreldrar að koma sem vilja fá sjálfir hjálp við að tækla þetta heldur en að börnin þeirra séu ofboðslega kvíðin,“ segir Steinunn.

„Börn eru bara þannig, eins og með loftslagskvíðann og slíkt, að þeirra kvíði er eiginlega alltaf miklu meira um eitthvað sem er beint fyrir framan þau, eða eitthvað svona yfirnáttúrulegt eins og drauga eða Annabelle eða eitthvað.“

Annað gildi um börn sem greind eru með kvíðaraskanir. Þau grípi yfirleitt það sem er í umræðunni hverju sinni og líklegt er til að valda áhyggjum. Kórónuveiran verði þar engin undantekning.

„En svo er hægt að vera með kvíðavandamál og þannig týpur af börnum fá áhyggjur af öllu, og þau munu grípa þetta líka. En við sálfræðingar sem vinna með þessum börnum erum ekkert endilega upptekin af því um hvað kvíðinn er að snúast núna. Við erum að vinna í því að læra að tækla áhyggjur á annan hátt og læra að lifa með óvissu.“

Danska ríkisútvarpið DR tekur einnig saman góð ráð til foreldra sem hyggjast ræða við börn sín um veiruna. Mælt er með því að komast að því hvað barnið veit um veiruna nú þegar, ef það treystir sér til að segja frá því.

Þá sé ráðlegt að kynna sér veiruna vel og upplýsa barnið um helstu staðreyndir á sem einfaldastan hátt. Forðast beri allt „heimsendatal“ en leggja áherslu á það sem barnið getur sjálft gert til að forðast smit. Slík ráð, sem einkum snúa að handþvotti og að takmarka snertingu við annað fólk, má nálgast á íslensku á vef Landlæknisembættisins.


Tengdar fréttir

Réttur ferða­langa vegna kórónu­veirunnar ó­líkur eftir að­stæðum

Réttur ferðamanna til að fá það tjón bætt sem þeir kunna að verða fyrir í tengslum við ferðalög vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19 er ólíkur eftir aðstæðum, til dæmis eftir því hvort fólk er að ferðast á eigin vegum eða á bókað í pakkaferð.

Komið að vendipunkti í baráttunni gegn faraldrinum

Ný tilfelli af sjúkdómnum hafa verið staðfest víða um heim undanfarna daga og eru ný tilfelli nú orðin fleiri utan Kína en innan Kína, þar sem nýja kórónuveiran sem veldur sjúkdómum stakk fyrst upp kollinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×