Innlent

Fjórðungur treystir Hönnu Birnu minnst

Traust til ráðherra í ríkisstjórninni mælist ekki mikið samkvæmt nýrri könnun fréttastofu Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Hringt var í 1.056 manns en þarf af náðist í 650 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 27. ágúst og fimmtudaginn 28. ágúst. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og svarhlutfall var 61,5%. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Annars vegar var spurt: "Til hvaða ráðherra í ríkisstjórninni berðu mest traust?". Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mælist með mest traust eða 11%, en þar á eftir kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Athygli vekur að 21% treystir engum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og 37% eru óákveðin.

„Ég man ekki eftir að hafa séð lakari traustyfirlýsingu til ráðherra heldur en hér kemur fram. Þetta er viðvörunarljós til stjórnmálamanna að þeir geti ekki gengið að stuðningi almennings vísum og þeir halda á brothættu eggi sem þeim ber að halda upp á,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.

Hins vegar var spurt: "Til hvaða ráðherra í ríkisstjórninni berðu minnst traust?". Þar kemur fram að fjórðungur aðspurðra bera minnst traust til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, en þar á eftir kemur forsætisráðherra með 15% og fjármálaráðherra með 8%. 35% aðspurðra eru óákveðin.

Er þetta áhyggjuefni fyrir Hönnu Birnu?

„Ég myndi segja að þetta væri mikið áhyggjuefni fyrir hana, en ekki bara fyrir hana heldur líka fyrir stjórnarflokkana því að þeir verða auðvitað að passa upp á að þeir hafi traust kjósenda, því vantraust í einum málaflokki yfirfærist yfir á aðra málaflokka. Það kann að skapast andrými í þjóðfélaginu sem að verður ríkisstjórninni erfitt ef að hún passar ekki upp á að halda þessum trúnaðartengslum við kjósendur,“ segir Stefanía.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.