Innlent

Lögregla kom upp um stóra ræktun á Krókhálsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fíkniefnalögreglumenn réðust til aðgerða í kjallara iðnaðarhúsnæðis á Krókhálsi 6 á tólfta tímanum í dag. Mikið magn kannabisplantna var gert upptækt og sömuleiðis búnaður tengdur ræktun sem virðist hafa verið umtalsverð.

Fimm lögreglubílar voru við húsið þegar mest var, tveir ómerktir á vegum fíkniefnadeildar og þrír hefðbundnir. Lögregla hefur verið að tæma rýmið undanfarin sólarhring en plönturnar fylltu átta stóra hvíta plastpoka.

Húsið að Krókhálsi 6 er afar stórt en þar var meðal annars Stöð 2 til húsa á árum áður. Í dag eru ýmsir aðilar með aðstöðu í húsinu og þeirra á meðal vefsíðan Fótbolti.net. 

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, var á vaktinni á tólfta tímanum þegar aðgerð lögreglu hófst. Hann segir þá fyrst hafa orðið varir við eitthvað skrýtið þegar megn kannabislykt gaus upp í húsnæðinu.

„Þetta var umtalsvert meiri lykt en í Amsterdam,“ segir Elvar Geir sem var í hollensku borginni á dögunum að fjalla um Evrópumót kvennalandsliða í knattspyrnu. Hann fylgdist í framhaldinu með aðgerðum lögreglu þar sem hver pokinn á fætur öðrum af plöntum var borinn út eins og sjá má á meðfylgandi myndbandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×